II. Lífeyrisafurðir

Stóra myndin og tryggingafræðileg staða.

  • Lífeyrisgreiðslur

    34.5
    milljarðar árið 2023

    Ævilangur lífeyrir 26.172

    Örorkulífeyrir 5.498

    Makalífeyrir 1.346

    Barnalífeyrir 179

  • Fjöldi lífeyrisþega

    26080
    árið 2023

    Ævilangur lífeyrir 19.355

    Örorkulífeyrir 5.535

    Makalífeyrir 1.929

    Barnalífeyrir 687

  • Launagreiðendur

    10474
    fjöldi árið 2023

    Sameign 10.415

    Séreignarsparnaður 2.037

    Tilgreind séreign 1.887

Réttindadeildir LV eru þrjár, sameignardeild og tvær séreignardeildir.

Sameignardeild, A-deild, er langstærsta réttindadeildin. Í árslok 2023 voru sjóðfélagar rúmlega 186 þúsund og námu eignir 1.256 milljörðum króna. Meginafurð sameignardeildar er ævilangur lífeyrir en svonefndur áfallalífeyrir felur einnig í sér mikilvæg tryggingaréttindi í formi örorku-, maka- og barnalífeyris.

Séreignardeildirnar eru tvær, B-deild fyrir almenna séreign og C-deild fyrir tilgreinda séreign. Eignir sjóðfélaga í séreign eru ávaxtaðar í fjórum eignasöfnum, Ævileiðum I, II og III sem og Verðbréfaleið sem er lokuð fyrir nýjum samningum.

Yfirlit fyrir greidd iðgjöld og útgreiðslu lífeyris árin 2022 og 2023

  • Sjóðfélagar á lífeyri voru 26.080 á árinu 2023 og fjölgaði þeim um 12,7% frá fyrra ári.
  • Á árinu 2023 hófu 3.695 sjóðfélagar töku eftirlauna samanborið við 1.858 árið áður.
  • Þar af voru 763 eða 21% sjóðfélaga á lífeyri sem hófu töku lífeyris við 67 ára aldur.
  • 71% hóf töku lífeyris fyrir 67 ára aldur. Ástæðu aukningarinnar má einkum rekja til breytinga á samþykktum í upphafi árs þar sem aldursmörk vegna töku ævilands lífeyris voru lækkuð úr 65 ára í 60 ára aldur.
  • Lífeyrir sameignardeildar í hlutfalli af iðgjöldum, svokölluð lífeyrisbyrði, nam 74,9% á árinu 2023 samanborið við 64% á árinu 2022.
  • Lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild námu 33.195 milljónum króna og hækkuðu um 31,5% frá fyrra ári.

Yfirlit yfir fjölda sjóðfélaga, einstaklinga á lífeyri og fjárhæð lífeyrisgreiðslna síðastliðin tíu ár

Sameignardeild

Hér er m.a. gerð grein fyrir þróun fjárhæðar inngreiðslna og lífeyrisgreiðslna, fjölda greiðandi sjóð­félaga og sjóðfélaga á lífeyri.

Iðgjöld til sameignardeildar

Greidd iðgjöld til sjóðsins hafa aukist undanfarin ár. Hækkun milli áranna 2022 og 2023 var um 12,4%.

iðgjöld til sjóðsins 2014 til 2023

Fjöldi greiðandi sjóðfélaga

Fjöldi greiðandi sjóðfélaga hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár.

Heildarfjöldi sjóðfélaga sem eiga réttindi í sameignardeild

Alls eiga rúmlega 186 þúsund sjóðfélagar réttindi í sameignardeild og hefur þeim fjölgað úr rúmlega 152 þúsund frá árinu 2014.

Lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga

Lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild námu 33.195 milljónum króna og hækkuðu um 31,5% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar og hækka miðað við vísitölu neysluverðs sem hækkaði um 8% 2023.

Fjöldi sjóðfélaga á lífeyri

Sjóðfélagar á lífeyri voru 26.080 á árinu 2023 og fjölgaði þeim um 12,7% frá fyrra ári. Lífeyrir sameignardeildar í hlutfalli af iðgjöldum, svokölluð lífeyrisbyrði, nam 74,9% á árinu 2023 en var 64,0% árið áður.

Séreignardeild

LV starfrækir tvær séreignardeildir, aðra fyrir almenna séreign og hina fyrir tilgreinda séreign. Eignir séreignardeilda eru ávaxtaðar í fjórum fjárfestingarleiðum.

Iðgjöld til séreignardeildar

Iðgjöld til séreignardeildar námu 3.100 milljónum á árinu 2023 samanborið við 2.685 milljónir árið 2022.

Útgreiðslur úr séreignardeild

Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild námu alls 1.266 milljónum króna en voru 1.096 milljónir árið 2022. Á myndinni kemur fram hve stór hluti er vegna fasteignatengdra greiðslna, þ.e. innborgana á fasteignalán og greiðslur við fyrstu kaup. Undir séreignargreiðslur vegna aldurs falla einnig útgreiðslur vegna fráfalls og örorku.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingastærðfræðingur gerir árlega tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Niðurstöðurnar eru yfirfarnar af stjórn og kynntar á ársfundi.

Tryggingastærðfræðingur sjóðsins er Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun hf. Hann er ráðinn af stjórn og hefur hlotið viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins.

Réttindi sjóðfélaga og væntur lífeyrir

Réttindi sjóðfélaga eru byggð á lögum og ákvæðum samþykkta sjóðsins, framtíðariðgjöldum og væntri framtíðarávöxtun. Sá lífeyrir sem sjóðfélagar vænta getur orðið lægri eða hærri eftir því hvernig til tekst að ávaxta eignir sjóðsins til framtíðar. Þá hafa ýmsir lýðfræðilegir þættir áhrif á getu sjóðsins til að greiða lífeyri þar sem sjóðurinn er sameignarsjóður sem veitir rétt til ævilangs lífeyris, auk tímabundins örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Þróun ævilengdar sjóðfélaga, lífslíkur, er sá lýðfræðilegi þáttur sem hefur mest áhrif á tryggingafræðilega athugun lífeyrissjóða. Aðrir lýðfræðilegir þættir sem hafa áhrif eru örorkutíðni, hjúskaparstaða og
tíðni barneigna.

Samkvæmt lögum skal gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins ef tryggingafræðileg staða hans er hærri en 10% eða lægri en -­10%. Sama gildir ef tryggingafræðileg staða er hærri en 5% eða lægri en -­5% fimm ár í röð. Breytingarnar snúa þá að því að koma tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins nær jafnvægi með því að hækka eða lækka réttindi sjóðfélaga eftir því hvernig staða sjóðsins er á hverjum tíma. Sjóðfélagar bera þess vegna þá áhættu sem felst í að ávaxta iðgjöld og eignir sjóðsins sem og lýðfræðilega áhættu.

Staða sjóðsins

Tryggingafræðileg staða sameignardeildar er nú ­-6,8% en var ­-5,6% árið 2022.

Breyting á tryggingafræðilegri stöðu á árinu 2023 úr- ­5,6% í -­6,8% kemur til vegna hárrar verðbólgu, breytinga á lífslíkum sem forsendu í tryggingafræðilegri athugun og ávöxtunar sem var þó undir viðmiði í tryggingafræðilegu uppgjöri.

Málshöfðun vegna samþykktarbreytingar

Vorið 2023 var höfðað mál á hendur LV vegna samþykktarbreytinga sem tóku gildi 1. janúar 2023 og krafist ógildingar á ákvæði sem varðar breytingu á áunnum réttindum sjóðfélaga. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E­1722/2023 sem kveðinn var upp 30. nóvember 2023 var fallist á kröfur stefnanda þar sem krafist var ógildingar á tilteknu ákvæði samþykktarbreytinganna. Kjarni þeirra breytinga felst í því að áunnin réttindi sjóðfélaga í sameignardeild voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækkuðu mismikið eftir aldri. Markmiðið var að mæta hækkandi lífaldri sjóðfélaga þar sem spáð er að ævi yngri sjóðfélaga lengist meira en þeirra sem eldri eru. Þessi spá endurspeglast í lífslíkutöflum sem gefnar eru út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og staðfestar af fjármála­ og efnahagsráðherra.

Dómi héraðsdóms var áfrýjað í desember sl. til Landsréttar. Jafnframt var óskað eftir áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar. Hæstiréttur veitti LV áfrýjunarleyfi til réttarins 20. febrúar 2024.

Gerð er grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins og meginniðurstöðum tryggingafræðilegrar athugunar á yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sameignardeildar í ársreikningi á bls. 117 og nánar í skýringu 16 á bls. 136 og 137. Einnig er þarf að finna
nánari umfjöllun um málshöfðun vegna samþykktarbreytinga.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Um starfsemina

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Eignasöfn