Tryggingastærðfræðingur gerir árlega tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Niðurstöðurnar eru yfirfarnar af stjórn og kynntar á ársfundi.
Tryggingastærðfræðingur sjóðsins er Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun hf. Hann er ráðinn af stjórn og hefur hlotið viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins.
Réttindi sjóðfélaga og væntur lífeyrir
Réttindi sjóðfélaga eru byggð á lögum og ákvæðum samþykkta sjóðsins, framtíðariðgjöldum og væntri framtíðarávöxtun. Sá lífeyrir sem sjóðfélagar vænta getur orðið lægri eða hærri eftir því hvernig til tekst að ávaxta eignir sjóðsins til framtíðar. Þá hafa ýmsir lýðfræðilegir þættir áhrif á getu sjóðsins til að greiða lífeyri þar sem sjóðurinn er sameignarsjóður sem veitir rétt til ævilangs lífeyris, auk tímabundins örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Þróun ævilengdar sjóðfélaga, lífslíkur, er sá lýðfræðilegi þáttur sem hefur mest áhrif á tryggingafræðilega athugun lífeyrissjóða. Aðrir lýðfræðilegir þættir sem hafa áhrif eru örorkutíðni, hjúskaparstaða og
tíðni barneigna.
Samkvæmt lögum skal gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins ef tryggingafræðileg staða hans er hærri en 10% eða lægri en -10%. Sama gildir ef tryggingafræðileg staða er hærri en 5% eða lægri en -5% fimm ár í röð. Breytingarnar snúa þá að því að koma tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins nær jafnvægi með því að hækka eða lækka réttindi sjóðfélaga eftir því hvernig staða sjóðsins er á hverjum tíma. Sjóðfélagar bera þess vegna þá áhættu sem felst í að ávaxta iðgjöld og eignir sjóðsins sem og lýðfræðilega áhættu.
Staða sjóðsins
Tryggingafræðileg staða sameignardeildar er nú -6,8% en var -5,6% árið 2022.
Breyting á tryggingafræðilegri stöðu á árinu 2023 úr- 5,6% í -6,8% kemur til vegna hárrar verðbólgu, breytinga á lífslíkum sem forsendu í tryggingafræðilegri athugun og ávöxtunar sem var þó undir viðmiði í tryggingafræðilegu uppgjöri.
Málshöfðun vegna samþykktarbreytingar
Vorið 2023 var höfðað mál á hendur LV vegna samþykktarbreytinga sem tóku gildi 1. janúar 2023 og krafist ógildingar á ákvæði sem varðar breytingu á áunnum réttindum sjóðfélaga. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E1722/2023 sem kveðinn var upp 30. nóvember 2023 var fallist á kröfur stefnanda þar sem krafist var ógildingar á tilteknu ákvæði samþykktarbreytinganna. Kjarni þeirra breytinga felst í því að áunnin réttindi sjóðfélaga í sameignardeild voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækkuðu mismikið eftir aldri. Markmiðið var að mæta hækkandi lífaldri sjóðfélaga þar sem spáð er að ævi yngri sjóðfélaga lengist meira en þeirra sem eldri eru. Þessi spá endurspeglast í lífslíkutöflum sem gefnar eru út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og staðfestar af fjármála og efnahagsráðherra.
Dómi héraðsdóms var áfrýjað í desember sl. til Landsréttar. Jafnframt var óskað eftir áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar. Hæstiréttur veitti LV áfrýjunarleyfi til réttarins 20. febrúar 2024.
Gerð er grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins og meginniðurstöðum tryggingafræðilegrar athugunar á yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sameignardeildar í ársreikningi á bls. 117 og nánar í skýringu 16 á bls. 136 og 137. Einnig er þarf að finna
nánari umfjöllun um málshöfðun vegna samþykktarbreytinga.