Í upphafi árs 2023 tók gildi hækkun réttinda sjóðfélaga vegna góðrar afkomu sjóðsins. Samhliða var gerð breyting á réttindatöflum þar sem mismunandi árgangar ýmist lækkuðu eða hækkuðu allt eftir því hversu mikil aukning er á spá um lengri meðalævi hvers árgangs. Breytingarnar eru í grunninn góð tíðindi því nú mega sjóðfélagar reikna með að lifa umtalsvert lengur en áður var talið og munu þau yngri njóta fleiri eftirlaunaára en þau eldri.
Góðar breytingar í takt við tímann
Samþykktarbreytingunum í upphafi árs fylgdu margar jákvæðar breytingar fyrir sjóðfélaga sem kynntar voru með margvíslegum hætti. Greiðslutímabil makalífeyris var lengt og réttindin hækkuð. Aukinn var sveigjanleiki við töku lífeyris. Aldursmörk ævilangs lífeyris voru færð til 60 ára aldurs en voru áður 65 ár. Fjöldi sjóðfélaga hefur nýtt sér sveigjanleikann sem í þessu felst.
Ágreiningur um innleiðingu samþykktarbreytinga
Sjóðfélagi höfðaði mál og krafðist ógildingar á ákvæði sem varðar breytingu á áunnum
réttindum sjóðfélaga. Í lok nóvember var fallist á kröfu sjóðfélagans í Héraðsdómi Reykjavíkur. Samþykktarbreytingarnar voru vandlega undirbúnar af stjórnendum og stjórn LV í samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins og lögmannsstofur sem og með samtali við stjórnvöld. Markmiðið var að virða eðli lífeyrisréttinda sem eignaréttinda, gæta jafnræðis, meðalhófs og annarra lagalegra skilyrða. Í því sambandi var litið til þess að vænt meðalævi lengist meira hjá þeim sem yngri eru en þeim sem eldri eru.
Dómi héraðsdóms var áfrýjað í desember til Landsréttar. Jafnframt var óskað eftir áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar. Hæstiréttur veitti LV áfrýjunarleyfi til réttarins 20. febrúar 2024.
Fyrir liggur að meirihluti lífeyrissjóðakerfisins fór áþekka leið varðandi breytingu áunninna réttinda vegna hækkandi lífaldurs. Því er mikilvægt fyrir alla sjóðfélaga og lífeyriskerfið í heild sinni að lyktir þess byggi á traustum grunni.
Málefni ÍL-sjóðs
Eins og kunnugt er tilkynnti þáverandi fjármála og efnahagsráðherra vænt slit á ÍL-sjóði á haustdögum 2022 þar sem ætlunin var að spara ríkissjóði vel á annað hundrað milljarða með því að heimila uppgjör á ÍLsjóði og gjaldfella bréfin í stað þess að greiða þau til lokagjalddaga. Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur þessara skuldabréfa og hafa spyrnt fast við fótum enda bréfin gefin út með ábyrgð ríkisins.
Staða lífeyrissjóðanna er sterk, bæði lagalega og viðskiptalega, og því er mikilvægt að stjórnvöld hlusti vel á röksemdir lífeyrissjóðanna svo farsælar lyktir náist.
Fjárfestingartækifæri í innviðum
Í síðasta ávarpi formanns var komið inn á innviðafjárfestingar og þörf þess að flýta fyrir möguleikum lífeyrissjóða til að fjárfesta í innviðum hérlendis. Innviðir eru í grunninn góður fjárfestingarkostur í eignasafn lífeyrissjóða og þörfin á uppbyggingu innviða er veruleg eins og hefur verið sýnt fram á í fjölda skýrslna. Frá síðasta ári hefur lítið þokast í þessum efnum en við erum vongóð um að árið 2024 geti leitt til tækifæra á þessu sviði. Mikilvægt er að allir hlutaðeigandi setji aukinn kraft í greiningu vænlegra innviðafjárfestinga svo hægt sé að virkja sem fyrst þau tækifæri sem bíða á þessu sviði.
Ný hluthafastefna með breyttum áherslum
LV hefur undanfarin misseri lagt aukna áherslu á framkvæmd eigendahlutverks sjóðsins. Liður í því var uppfærsla stjórnar á hluthafastefnu sjóðsins í árslok 2023. Í stefnunni er fjallað um atriði sem sjóðurinn leggur áherslu á gagnvart þeim félögum sem hann fjárfestir í og þeim félögum sem hann tekur til skoðunar sem fjárfestingarkost. Meðal nýmæla má nefna að sjóðurinn leggur til að formenn stjórna félaga verði kosnir af hluthöfum í stað þess að stjórn skipti sjálf með sér verkum. Auk þess eru auknar áherslur varðandi starfskjarastefnu fyrirtækja og upplýsingar um framkvæmd hennar, tilnefningarnefndir, arðgreiðslur, stefnu og upplýsingagjöf um sjálfbærni og
fleira sem sjóðurinn horfir til við mat á fjárfestingarkostum. Stefnan er liður í virkum samskiptum og samtali við félög á markaði.
Ávöxtun á lífeyrissparnaði er og verður sveiflukennd milli ára. Það sem skiptir máli er ávöxtun til lengri tíma þegar árangur er metinn. Ljóst er að ávöxtun á fjármunum getur verið sveiflukennd þannig að sum ár gefa góða ávöxtun en önnur eru slakari. Góðu árin þurfa að vega upp slæmu árin og er það raunin hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Telja verður að ávöxtun til lengri tíma hjá sjóðnum sé viðunandi en raunávöxtun síðastliðinna 10 ára er 4,8% og ef horft er 20 ár aftur í tímann þá er raunávöxtun sjóðsins 4,1%.
Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og starfsfólki fyrir gott samstarf á árinu.
Stefán Sveinbjörnsson,
formaður stjórnar