Þetta er Lífeyrissjóður verzlunarmanna

  • Fjöldi sjóðfélaga

    186
    þúsund

    Fjöldi launagreiðanda 10,5 þúsund

  • Lífeyrisiðgjöld

    47.4
    milljarðar

    Sameign 44,3 milljarðar

    Séreign 3,1 milljarðar

  • Lífeyrisgreiðslur

    34.5
    milljarðar til 25 þúsund sjóðfélaga

    Ævilöng eftirlaun 26,2 milljarðar

    Örorkulífeyrir 5,5 milljarðar

    Maka- og barnalífeyrir 1,5 milljarður

    Séreign 1,3 milljarður

  • Starfsmenn & stjórn

    59
    starfsmenn

    Konur 56%

    Karlar 44%

    Stjórnarmenn 8

    Konur 50%

    Karlar 50%

  • Þjónusta

    26292
    símtöl

    Heimsóknir til ráðgjafa 4.752

    Heimsóknir á sjóðfélagavef 125.361

    Heimsóknir á live.is 234.982

  • Lán

    25.7
    milljarðar

    Fjöldi lána afgreidd á árinu 1.055

    Meðalfjárhæð lána 24,3 milljónir

  • Sameignardeild

    0.5%
    Raunávöxtun

    5 ára árleg raunávöxtun 4,8%

    10 ára árleg raunávöxtun 4,8%

  • Eignasöfn

    1287
    milljarðar

    Sameign 1.256 milljarðar

    Séreign 31 milljarðar

    Afkoma eignasafna 103 milljarðar

  • Eignir

    23000
    eignir

    Eignir í 51 landi

  • Dreifing eigna sameignardeildar

    55%
    Ísland

    Evrópa án Íslands 9%

    Norður-Ameríka 31%

    Aðrir heimshlutar 5%

  • Eignasamsetning sameignardeildar

    35.3%
    erlend hlutabréf

    Veðskuldabréf og fasteignatengd verðbréf 19,4%

    Innlend hlutabréf 15,5%

    Ríkisskuldabréf 12,4%

    Erlend skuldabréf 10,3%

    Innlent laust fé 0,7%

  • Nafnávöxtun séreignar

    8.6%
    Verðbréfaleið

    Ævileið I 7,2%

    Ævileið II 6,0%

    Ævileið III 6,0%

Stóra myndin af starfsemi LV

Myndin sýnir hvernig iðgjald frá launþega og launagreiðanda vex með fjárfestingu í atvinnulífinu og fjármagnar starfsemi ríkis og sveitarfélaga. Sparnaðurinn og ávöxtun hans verður að lífeyri sem greiðist til æviloka og fjárhagslegri vernd vegna áfalla.

Við fráfall fer hluti réttinda sjóðfélagans til maka hans og barna. Við örorku er greiddur örorkulífeyrir. Aukin þjónusta felst í húsnæðislánum til sjóðfélaga og ávöxtun séreignarsparnaðar sem fjölgar valkostum við starfslok.

Smelltu til að skoða myndina í fullri stærð

Fjárfestingarumhverfi 2023

Hér er stiklað á stóru um nokkra atburði og þróun sem varðar starfsemi LV á árinu 2023, bæði í ytra umhverfi og innri starfsemi.

  • Fjárfestingarumhverfi

    Eftir áratug af lágvaxtaumhverfi og lítilli verðbólgu varð viðsnúningur árið 2021 í kjölfar árásar Rússa á Úkraínu. Áframhaldandi átök í heiminum hafa leitt af sér umrót á alþjóðlegum hrávöru­ og orkumörkuðum með tilheyrandi verð­ og vaxtahækkunum og óvissa ríkir.

  • Erlendir markaðir

    Árið 2023 einkenndist af þrálátri verðbólgu í kjölfar lágvaxtaumhverfis og örvunaraðgerða stjórnvalda og seðlabanka víða um heim. Hagvöxtur var meiri en spár gerðu ráð fyrir en spáð er minni hagvexti árið 2024 þar sem aðhald peningastefnu muni hægja á hagkerfum heimsins. Blikur voru á lofti undir lok árs þegar verðbólga þróaðra ríkja lækkaði og samhliða varð hækkun á eignamörkuðum. Við núverandi vaxtastig hafa erlend skuldabréf sem fjárfestingarkostur verið töluvert meira aðlaðandi en þó reyndist ávöxtun erlendra hlutabréfa góð á árinu.

  • Markaðir innanlands

    Hagvöxtur fyrstu níu mánuði ársins mældist 4,2% eða minni en á sama tíma árið áður. Þá hægðist á einkaneyslu eftir mikinn vöxt undanfarin ár og jafnframt eru vísbendingar um minni vöxt í atvinnuvegafjárfestingu. Útflutningur var sterkur sem rekja má til ferðaþjónustu. Atvinnuleysi mældist samhliða lágt eða 3,6%.

    Verðbólga var há framan af ári og endaði árið í 7,7% sem er enn langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Hægst hefur á hækkun húsnæðisverðs og verði innfluttra vara. Verðbólguvæntingar hafa mælst vel yfir markmiði Seðlabankans og hefur það ásamt hárri verðbólgu kallað á aukið aðhald peningastefnunnar.

    Stýrivextir voru hækkaðir fjórum sinnum árið 2023 og stóðu í 9,25% í árslok sem er hæsta vaxtastig frá árslokum 2009. Flestar spár gera ráð fyrir lækkandi vöxtum á komandi misserum. Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði samhliða stýrivaxtahækkunum og mikilli verðbólgu. Ávöxtun heildarvísitölu innlendra skráðra hlutabréfa (OMXIGI) var ­0,7% á árinu 2023.

Þróun í starfseminni

  • Aukin ánægja sjóðfélaga LV

    Sjóðurinn hefur um árabil tekið þátt í viðhorfskönnun sem Gallup framkvæmir. Samkvæmt nýjustu mælingum hafa sjóðfélagar LV aldrei verið ánægðari með sjóðinn og heildaránægja mælist nú 4,9 af 7. Þá hækkuðu einnig aðrir mikilvægir mælikvarðar milli ára eins og ánægja með rafræna þjónustu (4,8 af 7), ánægja með upplýsingagjöf (4,9 af 7) og traust sem mælist nú 4,8 af 7 mögulegum. Við þökkum fyrir þátttökuna og niðurstaðan er okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut.

  • Í september fór í loftið nýr ytri vefur sjóðsins. Það er liður í áframhaldandi vegferð LV í að auka rafræna þjónustu og upplýsingagjöf til sjóðfélaga og uppfæra stafræna ásýnd til samræmis við nýtt útlit. Áhersla er lögð á að einfalda viðmót og efnistök, auka ráðgjöf og gagnlegar ábendingar. Liður í því er m.a. uppfærðar og aðgengilegri reiknivélar lána og lífeyris. Þá var aukin áhersla lögð á gott aðgengi fyrir breiðan hóp með mismunandi stafræna færni og bætt viðmót í snjalltækjum.

  • Lífeyrisgreiðslur náðu þremur milljörðum króna á mánuði í desember

    Í desember 2023 var í fyrsta sinn greiddur út lífeyrir sem nam yfir þremur milljörðum króna. Heildarútgreiðslur lífeyris námu alls 34,5 milljörðum króna og hækkuðu um 8,1 milljarð króna á árinu eða um 30,8%. Hækkunin skýrist meðal annars af hækkun áunninna réttinda og lífeyrisgreiðslna og fjölgun þeirra sem fá greiddan lífeyri. Þá eru lífeyrisgreiðslur verðtryggðar miðað við vísitölu neysluverðs og hækkuðu því í takt við verðbólgu.

  • Tryggingafræðileg staða sameignardeildar og samþykktarbreytingar

    Tryggingafræðileg staða sameignardeildar var ­6,8% í árslok 2023 en var ­5,6% árið áður. Breytingarnar skýrast einkum af hárri verðbólgu á árinu sem dró niður raun­ávöxtun sjóðsins á tímabilinu auk þess að hækka lífeyrisskuldbindingar sjóðsins sem eru verðtryggðar. Sjá nánar, m.a. á yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sameignardeildar, í skýringu 16 í ársreikningi og í kafla II um lífeyrisafurðir í ársskýrslunni.

  • Samþykktabreytingar – aðlögun sameignardeildar að hækkandi lífaldri og þróun lífeyrisréttinda

    Í byrjun árs 2023 tóku gildi umfangsmiklar breytingar á samþykktum LV. Veigamikill þáttur þeirra lýtur að því að laga réttindakerfi sameignardeildar að hækkandi lífaldri sjóðfélaga og nýjum viðmiðum við mat á lífaldri. Þá voru gerðar ákveðnar breytingar sem auka sveigjanleika við starfslok og styrkja makalífeyri og framreikningsrétt vegna örorku, auk nokkurra smærri breytinga. Sjá m.a. umfjöllun í kafla II um lífeyrisafurðir og í kynningargögnum fyrir ársfund LV 2022 á vef sjóðsins.

  • Málshöfðun vegna réttindabreytinga

    Á vormánuðum var höfðað mál á hendur LV vegna samþykktarbreytinganna og krafist ógildingar á ákvæði sem varðar breytingu á áunnum réttindum sjóðfélaga. Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur nr. E­1722/2023 sem kveðinn var upp 30. nóvember 2023 var fallist á kröfur stefnanda þar sem krafist var ógildingar á tilteknu ákvæði samþykktarbreytinganna. Kjarni þeirra breytinga felst í því að áunnin réttindi sjóð­félaga í sameignardeild voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækkuðu mismikið eftir aldri. Markmiðið var að mæta hækkandi lífaldri sjóðfélaga þar sem spáð er að ævi yngri sjóðfélaga lengist meira en þeirra sem eldri eru. Þessi spá endurspeglast í lífslíkutöflum sem gefnar eru út af Félagi íslenskra tryggingastærð­fræðinga og staðfestar af fjármála­ og efnahagsráðherra.

    Dómi héraðsdóms var áfrýjað í desember til Landsréttar. Jafnframt var óskað eftir áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar. Hæstiréttur veitti LV áfrýjunarleyfi til réttarins 20. febrúar 2024.

  • Einfaldari og skilvirkari afgreiðsla með þróun á stafrænum lausnum

    Áfram var fjárfest í kerfisinnviðum sjóðsins með það að markmiði að einfalda og bæta notendaviðmót og afgreiðslu. Í upphafi árs var netspjall innleitt ásamt rafrænni auðkenningu sem gerir starfsfólki kleift að veita persónulegar upplýsingar gegnum síma og netspjall. Stafræn vegferð sjóðsins er í takt við þær væntingar sem sjóðfélagar og fyrirtæki gera til okkar um hraðari, einfaldari og hagkvæmari afgreiðslu erinda.

  • Í kjölfar lagabreytinga var sjóðnum heimilt að senda yfirlit yfir lífeyrisiðgjöld með rafrænum hætti eingöngu. Töluvert hagræði fæst af þessari breytingu og minnkar bæði kolefnisspor sjóðsins með minni útprentun og kostnaður við yfirlit lækkar þar sem póstburðargjöld heyra sögunni til. Við hvetjum sjóðfélaga til að skrá netfang sitt á Mínar síður svo þeir fái ábendingu þegar nýtt yfirlit berst.

  • Þjónusta við lántakendur sjóðfélagalána og þróun vaxta

    Við útfærðum greiðsluhlé fyrir lántakendur í fæðingarorlofi og nú er hægt óska eftir 3–12 mánaða greiðsluhléi á afborgunum. Þegar fjölskyldan stækkar þarf að huga að mörgu, ekki síst fjármálunum og er greiðsluhléinu ætlað fjölskyldum til að njóta þessa tímabils betur.

    Við útfærðum einnig reiknivél inni á Mínum síðum sem sýnir áhrif innborgana á lán. Þannig geta lántakendur metið betur áhrif aukagreiðslna inn á lán á komandi afborganir.

    Vextir sjóðfélagalána taka mið af verðlagningu skuldabréfa á markaði og tekur stjórn vexti til endurskoðunar eins oft og þurfa þykir. Vextir lána voru hækkaðir sjö sinnum á árinu sem er óvenju oft. Lántakendur fengu sent hnipp þegar vextir hækkuðu á lánunum þeirra auk þess sem allir lántakendur fengu skilaboð með úrræðum sem sjóðurinn býður vegna greiðsluerfiðleika.

Laga- og regluumhverfi

  • Breyting á lögum um lífeyrissjóði, 15,5% lágmarksiðgjald lögfest, ákvæði um tilgreinda séreign o.fl

    Í janúar 2023 tóku gildi breytingar á lögum um lífeyrissjóði nr. 129/1997, sbr. lög nr. 55/2022, um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.). Ítarlega var gerð grein fyrir breytingunum í síðustu árs­ og sjálfbærniskýrslu, á ársfundi sjóðsins, vef hans og samfélagsmiðlum.

  • Lögfesting frumvarps um auknar heimildir í fjárfestingum í erlendri mynt frestast

    Í mars 2023 samþykkti Alþingi lög nr. 12/2023 um breytingar á lögum um lífeyrissjóði nr. 129/1997 sem varðar gjaldmiðlaáhættu og upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Með þeim eru heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendri mynt rýmkaðar í áföngum. Einnig er mælt fyrir um að lífeyrissjóðum beri að veita nýjum sjóðfélögum upplýsingar um helstu réttindi, skipulag og stefnu sjóðsins, auk þess sem bein heimild er veitt til að birta reglubundin yfirlit yfir iðgjöld, lífeyrisréttindi og rekstur á aðgangsstýrðu vefsvæði.

  • Frumvarp til laga um lögfestingu reglugerðar ESB sem á að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum

    Í maí 2023 samþykkti Alþingi lög nr. 25/2023 um lögfestingu tveggja ESB-­reglugerða sem varða sjálfbærni og starfsumhverfi lífeyrissjóða. Lögfestingin hefur umtalsverð bein og óbein áhrif á starfsumhverfi LV.

    Annars vegar reglugerð um flokkunarkerfi ESB (EU Taxonomy) sem skilgreinir hvað telst sjálfbær atvinnustarfsemi. Markmiðið er að auka gagnsæi í upplýsingagjöf stofnanafjárfesta (t.d. banka, verðbréfasjóða og lífeyrissjóða) og sporna gegn grænþvotti. Reglugerðin tengist einnig öðrum reglum sem varða upplýsingagjöf, áhættustýringu og stýringu eigna með tilliti til sjálfbærni. Hins vegar reglugerð um samræmdar reglur fyrir aðila á fjármálamarkaði, þar með talda lífeyrissjóði og fjármálaráðgjafa, um upplýsingar til endafjárfesta (eiginlegra eigenda) um meðferð sjálfbærniáhættu í eignasöfnum. Hún varðar bæði upplýsingagjöf stofnanafjárfesta sem stýra eignum og ráðgjafa. Unnið er að innleiðingu reglnanna í starfsemi LV.

Lykiltölur í rekstri

Yfirlit yfir nokkrar lykilstærðir í starfseminni, sjá nánar í skýrslunni og ársreikningi.

Skoða

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Um starfsemina