Ábyrgar fjárfestingar

Stefna, framkvæmd, árið

  • Kolefnisfótspor

    43%
    samdráttur í fjármagnaðri losun skráðra félaga á 5 árum
  • CIC bærar eignir

    49.8
    milljarðar króna
  • Sjálfbærniframmistaða

    28
    innlendra og erlendra stýrenda metin

Meginhlutverk LV er að ávaxta eignir sjóðsins að teknu tilliti til áhættu og hámarka þannig réttindi sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir eru í eðli sínu langtímafjárfestar og þurfa að horfa á þætti sem eru líklegir til þess að hafa áhrif á ávöxtun þeirra til lengri tíma. Þá kveða lífeyrislögin á um að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið. Auk þeirra samþykkti Alþingi í maí 2023 lög um innleiðingu tveggja reglugerða ESB sem gilda m.a. um lífeyrissjóði. Annars vegar reglur um flokkunarkerfi fyrir skilgreiningu á sjálfbærri starfsemi (EU Taxonomy/ flokkunarreglugerðin) og hins vegar samræmdar reglur (SFDR ­reglugerðin) fyrir aðila á fjármálamarkaði um upplýsingar til endafjárfesta, t.a.m. sjóðfélaga, um meðferð sjálfbærniáhættu í eignasöfnum. Lífeyrissjóðurinn telur það því falla að umboðsskyldu sinni að beita aðferðafræði ábyrgra fjárfestingar og sýna þannig samfélagslega ábyrgð með því að láta sig varða hvernig fjármunatekjur verða til og horfa til fjárfestinga sem eru sjálfbærar til langs tíma. Það er jafnframt bjargföst trú sjóðsins að með réttri beitingu þeirrar aðferðafræði sé tekið tillit til fjárhagslegra áhættuþátta sem öllu jöfnu birtast ekki við hefðbundna greiningu fjárfestingarkosta og því leiði hún til betri áhættuleiðréttra fjárfestingarákvarðana.

Með því að horfa til sjálfbærniþátta við ákvarðanatöku fjárfestinga er sérstaklega horft til þriggja grunnviðmiða, það er að ná fram jafnvægi á milli efnahagslegrar hagsældar, samfélagslegrar velsældar og ábyrgrar nýtingar náttúruauðlinda. Sjálfbærni felst m.a. í því að samfélagið geti þróast og uppfyllt þarfir samtímans án þess að rýra möguleika komandi kynslóða til að uppfylla þarfir sínar enda mun lífeyrissjóðurinn einnig starfa í umboði komandi kynslóða.

Ábyrgar fjárfestingar LV 2023

  • Samtal við stýrendur

    Sjálfbærnigögnum var safnað um undirliggjandi eignir 64 áskriftarsjóða. Sjálfbærniframmistaða 28 stýrenda innlendra og erlendra áskriftarsjóða var metin út frá spurningalistum. Endurgjöf var veitt til innlendra stýrenda um þá þætti er snúa að sjálfbærni.

  • Fótspor

    Fótspor skráðra innlendra félaga í safni LV í árslok 2022 var 594 tCO2í/á milljarð í fjárfestingu. Fjármögnuð kolefnislosun 2022 var 49.255 tCO2í en 86.759 árið 2018. Fjármögnuð losun hefur dregist saman um 43% hjá skráðum innlendum félögum í safni LV á fimm árum.

  • LV útilokar fjárfestingar í:

    • Tóbaksframleiðslu
    • Framleiðslu á umdeildum vopnum
    • Fyrirtækjum sem rekja hluta tekna til námuvinnslu á:
      – Olíusandi
      – Olíuleirsteini
      – Kolum til hitunar
    • Útgefendum sem brjóta gegn alþjóðasamningum (UNGC)
  • Áhættumat á loftslags­áhættu

    LV framkvæmdi, þvert á starfssvið, áhættumat á loftslagsáhættu fyrir innlenda hluta eignasafna sjóðsins.

  • CIC

    Climate Investment Coalition, samtök fagfjárfesta sem hvetja meðlimi til að auka fjárfestingar í hreinni orku og loftslagslausnum.

    CIC-bærar eignir voru tæplega 4% af eignasöfnum LV í árslok 2023 eða 49,78 milljarðar króna.

  • Áhersla á gagnagæði

    LV gerði samning við Sustainalytics og sjálfbærni-gagnagrunn Veru hjá Creditinfo og nýtir gögn frá þessum gagnaveitum við sjálfbærnigreiningar ásamt gagnasöfnun frá útgefendum.

Stefnur LV í ábyrgum fjárfestingum

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur samþykkt og birt tvær stefnur er snúa að ábyrgum fjárfestingum.

  • Stefna um ábyrgar fjárfestingar, samþykkt og birt í árslok 2021. Meginmarkmið stefnunnar er að auka áherslu á sjálfbærar fjárfestingar og samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundna greiningu á fjárhagslegum mælikvörðum við samval verðbréfa.

  • Stefna um útilokun í eignasöfnum, samþykkt og birt í árslok 2021 samhliða stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Markmið stefnunnar er að útiloka að hluta eða að fullu fjárfestingar í tiltekinni starfsemi í samræmi við tiltekin viðmið.

Dæmi um félög á útilokunarlista LV

  • Chevron Corp.

    Félagið með stærstu vigtina í viðmiðunarvísitölu á útilokunarlista LV er Chevron Corp., framleiðandi olíu í Bandaríkjunum en yfir 5% tekna félagsins eru rakin til framleiðslu olíu úr olíuleirsteini.

  • The Boeing Co.

    The Boeing Co., hinn stóri þekkti flugvélaframleiðandi er á útilokunarlista fyrir að koma að framleiðslu umdeildra vopna.

  • Vale S.A.

    Vale S.A. er stór stálframleiðandi í Brasilíu og er á útilokunarlista LV vegna brota félagsins á alþjóðasamningum. Félagið telst brotlegt við 7. viðmið UN Global Compact en árið 2019 varð stórt umhverfisslys rakið til framleiðslu félagsins sem olli dauða 270 manns.

Hluthafastefna 2023

Hluthafastefna LV var uppfærð í lok árs og myndar stefnan heild með fjárfestingarstefnu og stefnu LV um ábyrgar fjárfestingar. Hér eftir sem hingað til er lögð áhersla á verðmætasköpun til langs tíma, góða stjórnarhætti, jafnræði hluthafa og fylgni við lög og önnur gildandi viðmið

Meira um hluthafastefnu LV

Áhrifafjárfesting

LV fjárfesti í fyrsta skipti í áhrifafjárfestingarsjóði árið 2023, KKR Global Impact Fund II, hjá stýrandanum KKR sem LV þekkir vel til. Um er að ræða sjóð sem vinnur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og uppfyllir skilyrði 9. gr. SFDR sem segir að sjóður hafi það að markmiði að fjárfesta í sjálfbærum fjárfestingarafurðum. Skilyrði er að sjóðurinn uppfylli eitt af 17 heimsmarkmiðunum og vinni ekki gegn neinu þeirra.

Fjármögnuð kolefnislosun LV hjá skráðum hlutafélögum

LV vinnur að innleiðingu reglulegs eftirlits með fjármagnaðri kolefnislosun (e. financed emissions) eignasafna sjóðsins samkvæmt staðlinum Global GHG Accounting & Reporting Standards for the Financial Industry sem er sett fram af Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Staðallinn inniheldur meðal annars aðferðafræði fyrir útreikninga á kolefnislosun (e. carbon emissions) og losunarkræfni (e. carbon intensity) fyrir skráð hlutabréf og skuldabréf sem sjóðurinn hefur fjárfest í.

Til viðbótar við útreikninga skv. PCAF-­aðferðafræðinni greinir sjóðurinn einnig aðra loftlagsþætti við mat á fjárfestingum, t.d. kolefnislosun­ og kræfni útgefenda óháð fjármögnun sjóðsins, loftlagsmarkmið, ásamt mati stjórnenda á útsetningu fyrir loftlagsáhættu skv. skilgreiningu Task Force on Climate-related Financial Disclosures (TCFD).

Nánar um fjármagnaða kolefnislosun LV

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Eignasöfn

Ársreikningur

Skýrsla stjórnar