Sameignardeild LV er stærsta eignasafn lífeyrissjóðsins. Eignunum er ætlað að standa undir lífeyrisgreiðslum í formi ævilangs lífeyris og áfallalífeyris. Hrein eign safnsins til greiðslu lífeyris nam ríflega 1.420 milljörðum kr. í árslok 2024 og fjárfestingartekjur á árinu námu tæplega 158 milljörðum kr.
Hrein nafnávöxtun sameignardeildar var 12,4% og hrein raunávöxtun 7,3%. Ávöxtun hækkar á milli ára en í fyrra nam hrein nafnávöxtun 8,6% og hrein raunávöxtun 0,5%.
Næsta mynd sýnir samanburð á ávöxtun eignaflokka á milli áranna 2023 og 2024. Talsverður viðsnúningur varð á ávöxtun hlutabréfa safnsins á milli ára þar sem innlend hlutabréf skiluðu 0,1% ávöxtun árið 2023 en 12,7% ávöxtun á árinu 2024.
Sú ávöxtun kom einkum til frá og með haustinu þegar merki voru um að verðbólga væri á niðurleið og vaxtalækkunarferli að hefjast. Uppgjör félaga voru einnig heilt yfir nokkuð góð og jákvæð flæðisáhrif höfðu áhrif á markaðinn í heild, helst ber þar að nefna kaup JBT á Marel hf.
Næsta mynd sýnir framlag einstaka eignaflokka til ávöxtunar án kostnaðar. Framlag erlendra hlutabréfa til ávöxtunar ársins vó mest en framlag allra eignaflokka var jákvætt á árinu.
Undanfarin 10 ár hefur vægi hlutabréfa hækkað sem hlutfall af eignasafni sameignardeildar. Það felur í sér meiri áhættu en ella en á móti má vænta hærri ávöxtunar til lengri tíma litið. Eign sjóðsins í skráðum og óskráðum hlutabréfum er í eignaflokkum fjögur og sex og var ávöxtun í þeim eignaflokkum góð í ár. Árangurinn má fyrst og fremst rekja til góðrar ávöxtunar erlendra hlutabréfa (flokkur sex) eins og sjá má á framlagi eignaflokka til ávöxtunar en innlenda hlutabréfasafnið skilaði einnig jákvæðri ávöxtun á árinu.

Ávöxtun innlendra skuldabréfa var á bilinu 7 til 8,5% á árinu. Það skýrist að hluta til af því að 80% af innlendri skuldabréfaeign LV voru færð á kaupávöxtunarkröfu árið 2024 og eru því ónæm fyrir markaðsbreytingum sem endurspeglast í minni sveiflum í ávöxtun. Ávöxtun var svipuð milli verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa en hlutfall verðtryggðra skuldabréfa af innlendu skuldabréfasafni sameignardeildar nam um 76% í árslok. Breyting á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni hafði jákvæð áhrif á ávöxtun erlendra eigna á árinu og er ávöxtun ársins rúmlega 2% betri en hún hefði annars verið sé miðað við óbreytt gengi gjaldmiðla.
Til að draga úr áhættu eignasafns tengdu íslensku hagkerfi hefur vægi erlendra eigna verið aukið undanfarin ár. Um 50% af heildareignum sameignardeildar voru erlendar eignir í árslok 2024 og hefur hlutfall þeirra hækkað um rúm 15% frá árinu 2018.
Eins og fram kemur í fjárfestingarstefnu sjóðsins er lögð áhersla á áhættudreifingu í eignasafninu. Erlendar eignir eru mikilvægur þáttur í því samhengi. Sé horft til undirliggjandi eigna má sjá að eignasafnið telur nú ríflega 44 þúsund eignir sem dreifast á fjölda landssvæða og sex heimsálfur, þar af er 50% heildareigna að finna innan Íslands, 37% í NorðurAmeríku og 9% í Evrópu.
Eignasamsetning sameignardeildar tók litlum breytingum á árinu eins og sést á eftirfarandi mynd. Helst má nefna aukið vægi erlendra eigna en aukið var við vægi erlendra hlutabréfa og skuldabréfa á árinu.
Lífeyrissjóðurinn birti fjárfestingarstefnu sína fyrir árið 2025 í nóvember 2024. Litlar breytingar eru fyrirhugaðar á samsetningu innlenda hluta eignasafns sameignardeildar en dregið var úr markmiði um vægi erlendra skuldabréfa frá fyrri stefnu. Finna má greinargóðar upplýsingar um áherslur og markmið við stýringu eignasafna sjóðsins í fjárfestingarstefnu LV fyrir árið 2025 sem er aðgengileg á vef sjóðsins.