Ávörp formanns og framkvæmdastjóra

Ávarp stjórnarformanns

Stefán Sveinbjörnsson, formaður stjórnar

Þegar litið er yfir árið er það góð ávöxtun eigna sem stendur upp úr. Góð ávöxtun er forsenda þess að réttindi til lífeyris standist til lengri tíma. Þegar öllu er á botninn hvolft er það meginhlutverk sjóðsins að greiða sjóðfélögum lífeyri. Það er því ánægjuefni að lífeyrisgreiðslur vaxa og námu yfir 40 milljörðum árið 2024. Sjóðurinn greiddi mest allra lífeyrissjóða til sjóðfélaga sinna á almennum vinnumarkaði. Ævilangur lífeyrir er þar stærstur hluti og er fimm milljörðum hærri en árið áður.

Þeim fjölgar hratt sem hafa greitt í lífeyrissjóð af heildarlaunum svo gott sem alla starfsævina. Á næstu tíu til fimmtán árum munum við sjá mikla fjölgun í hópi þeirra sem hafa safnað sér myndarlegum lífeyri og safnað í séreignarsjóð til að styrkja fjárhagsstöðu sína og eiga því betri möguleika á sveigjanleika við starfslok.

Það verður áhugavert að sjá hvort fólk muni í auknum mæli sækjast eftir því að hætta fyrr að vinna samhliða þessari þróun eða jafnvel að leggja áherslu á að draga úr vinnu frekar en að hætta í einu vetfangi. Það kann að vera að atvinnulífið sjái sér hag í að mæta þessari þróun með auknu vali um hlutastörf eftir 60-65 ára aldur. Þar er að finna mikinn og verðmætan mannauð.

Innkoma sjóðsins á leigumarkaðinn í apríl á sl. ári fór ekki hátt en þá fjárfesti sjóðurinn í félaginu SRE III slhf. sem heldur utan um eignarhald og rekstur leigufélagsins Íveru. Ívera leigir út um eitt þúsund og sex hundruð eignir og áform eru um talsverða aukningu. Félagið er alfarið í eigu lífeyrissjóða.

Undanfarið ár hefur lífeyrissjóðurinn unnið markvisst eftir stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og innleitt aðferðafræðina í verklag og ákvarðanatöku. Þar á meðal er uppbygging á þekkingu og færni varðandi beitingu virks eignarhalds í umsýslu eignasafna.

Virkt eignarhald byggist m.a. á því að eiga virk samskipti við útgefendur um stefnur og áherslur sjóðsins eins og þær birtast í hluthafastefnu LV, bæði formlega og óformlega. Stefnt er að því að halda áfram á þessari braut í takt við þróun laga og áherslu stjórnar sjóðsins.

Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og starfsfólki fyrir gott samstarf á árinu.

Stefán Sveinbjörnsson,

formaður stjórnar

Ávarp framkvæmdastjóra

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri

Árið 2024 var farsælt í rekstri sjóðsins. Hæstiréttur staðfesti í nóvember með óyggjandi hætti þær breytingar sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna gerði á samþykktum sínum 2022 til að bregðast við innleiðingu á nýjum forsendum um auknar lífslíkur sjóðfélaga. Greining og undirbúningur viðbragða vegna aukinna skuldbindinga hófst árið 2020. Að þeirri vinnu komu stjórnendur, tryggingastærðfræðingur sjóðsins og utanaðkomandi lögmenn auk stjórnar sjóðsins. Sú vinna lagði traustan grunn að þeirri leið sem farin var og er það sérstaklega ánægjulegt að sú mikla vinna sem sjóðurinn lagði í hafi skilað þessari farsælu niðurstöðu.

Ávöxtun ársins var góð eða 12,4% og í fyrsta sinn ná erlendar eignir um 50% af eignasafni samtryggingardeildar. Hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta heima og víða erlendis hafði jákvæð áhrif á verðþróun hlutabréfa. Framlag erlendra hlutabréfa til ávöxtunar ársins vó þyngst en framlag allra eignaflokka til ávöxtunar var jákvætt á árinu.

Fleiri áfanga má nefna en sjóðurinn reiknaði fjármagnaða losun í fyrsta sinn fyrir bæði innlendan og erlendan hluta eignasafnsins og birtir nú losun fyrir sameignardeild sjóðsins miðað við eignastöðu í árslok 2023.

Undir lok árs kynnti sjóðurinn þá nýjung að sjóðfélagar sem kaupa fyrstu fasteign geta sótt um allt að 85% lán sem er mikilvægt skref til að koma til móts við þarfir yngri sjóðfélaga. Þetta skref samræmist stefnu sjóðsins um að vera traustur bakhjarl sjóðfélaga.

Stór skref voru stigin í endurnýjun grunnkerfa á haustmánuðum þegar nýtt iðgjaldakerfi og fyrirtækjavefur fóru í loftið. Sjóðurinn hefur nokkra sérstöðu meðal lífeyrissjóða þar sem hann rekur eigin upplýsingakerfi. Á komandi mánuðum mun ný kynslóð iðgjaldakerfis stuðla að aukinni skilvirkni varðandi iðgjaldaskil og bæta þjónustu við launagreiðendur.

Samhliða auknu vali svo sem varðandi upphaf lífeyristöku og uppbyggingu tilgreindrar séreignar höfum við lagt áherslu á að auka samskipti og ráðgjöf til sjóðfélaga. Leiðarljósið er að veita réttar og góðar upplýsingar til að auðvelda sjóðfélögum að taka upplýsta ákvörðun um þau mikilvægu réttindi sem lífeyrisréttindi og sparnaður þeirra er.

Í febrúar buðum við sjóðfélögum upp á þá nýjung að bóka tíma með ráðgjafa. Nú nýta að jafnaði um eitt hundrað sjóðfélagar sér slíka ráðgjöf í hverjum mánuði. Við erum stolt af því hversu góða umsögn sú þjónusta hefur fengið og munum halda áfram á þeirri braut.

Ýmis skref voru tekin í stafrænni þróun sjóðsins á árinu sem auka aðgengi að upplýsingum og styðja við hagkvæmni í rekstri. Sjóðurinn fékk heimild stjórnvalda til að senda bréf til sjóðfélaga í pósthólf island.is og fylgir því verulegt hagræði. Yfirlit sem sjóðnum ber að senda tvisvar á ári eru nú alltaf aðgengileg á Mínum síðum inni á vef sjóðsins. Þannig geta sjóðfélagar nú ávallt séð stöðuna sína hjá sjóðnum eins og hún er á hverjum tíma.

Að lokum vil ég færa starfsfólki sjóðsins þakkir fyrir fagmennsku, metnað til árangurs og umhyggju fyrir hagsmunum sjóðfélaga okkar. Starf þeirra og gott samband við sjóðfélaga er traustur grunnur til að byggja á.

Guðmundur Þ. Þórhallsson,

framkvæmdastjóri

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2024

LV í hnotskurn

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2024

Lífeyrir