Þegar litið er yfir árið er það góð ávöxtun eigna sem stendur upp úr. Góð ávöxtun er forsenda þess að réttindi til lífeyris standist til lengri tíma. Þegar öllu er á botninn hvolft er það meginhlutverk sjóðsins að greiða sjóðfélögum lífeyri. Það er því ánægjuefni að lífeyrisgreiðslur vaxa og námu yfir 40 milljörðum árið 2024. Sjóðurinn greiddi mest allra lífeyrissjóða til sjóðfélaga sinna á almennum vinnumarkaði. Ævilangur lífeyrir er þar stærstur hluti og er fimm milljörðum hærri en árið áður.
Þeim fjölgar hratt sem hafa greitt í lífeyrissjóð af heildarlaunum svo gott sem alla starfsævina. Á næstu tíu til fimmtán árum munum við sjá mikla fjölgun í hópi þeirra sem hafa safnað sér myndarlegum lífeyri og safnað í séreignarsjóð til að styrkja fjárhagsstöðu sína og eiga því betri möguleika á sveigjanleika við starfslok.
Það verður áhugavert að sjá hvort fólk muni í auknum mæli sækjast eftir því að hætta fyrr að vinna samhliða þessari þróun eða jafnvel að leggja áherslu á að draga úr vinnu frekar en að hætta í einu vetfangi. Það kann að vera að atvinnulífið sjái sér hag í að mæta þessari þróun með auknu vali um hlutastörf eftir 60-65 ára aldur. Þar er að finna mikinn og verðmætan mannauð.
Innkoma sjóðsins á leigumarkaðinn í apríl á sl. ári fór ekki hátt en þá fjárfesti sjóðurinn í félaginu SRE III slhf. sem heldur utan um eignarhald og rekstur leigufélagsins Íveru. Ívera leigir út um eitt þúsund og sex hundruð eignir og áform eru um talsverða aukningu. Félagið er alfarið í eigu lífeyrissjóða.
Undanfarið ár hefur lífeyrissjóðurinn unnið markvisst eftir stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og innleitt aðferðafræðina í verklag og ákvarðanatöku. Þar á meðal er uppbygging á þekkingu og færni varðandi beitingu virks eignarhalds í umsýslu eignasafna.
Virkt eignarhald byggist m.a. á því að eiga virk samskipti við útgefendur um stefnur og áherslur sjóðsins eins og þær birtast í hluthafastefnu LV, bæði formlega og óformlega. Stefnt er að því að halda áfram á þessari braut í takt við þróun laga og áherslu stjórnar sjóðsins.
Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og starfsfólki fyrir gott samstarf á árinu.
Stefán Sveinbjörnsson,
formaður stjórnar