Undanfarin ár hefur lífeyrissjóðurinn lagt áherslu á að fylgjast með og byggja upp þekkingu og færni við beitingu virks eignarhalds í tengslum við umsýslu eignasafna sjóðsins. Virkt eignarhald byggist m.a. á því að eiga virk samskipti við útgefendur um stefnur og áherslur sjóðsins eins og þær birtast í hluthafastefnu LV. LV leggur m.a. áherslu á góða stjórnarhætti, að félög fylgi góðum viðskiptaháttum og setji sér stefnur sem tengjast sjálfbærni. Hluthafastefnu LV eru gerð góð skil á heimasíðu sjóðsins.
Fyrir aðalfundi félaga á sér stað ítarleg greining þvert á svið lífeyrissjóðsins þar sem farið er yfir tillögur og fundarefni sem lagt er fyrir á aðalfundi. LV nýtir almennt atkvæðarétt sinn á aðalfundum íslenskra félaga og gerir grein fyrir atkvæðagreiðslu sinni á heimasíðu sjóðsins.
Um þemaathugun: Mikilvægt er fyrir LV að kortleggja sjálfbærniáhættu félaga í söfnum sjóðsins. Á árinu var sérstaklega farið í þemaathugun á aðfangakeðjum hjá þremur skráðum félögum sem LV á hlut í en félög í ákveðnum atvinnugreinum eru talin mjög útsett fyrir áhættu tengdri aðfangakeðjum.
Markmiðið er að greina hugsanleg fjárhagsleg áhrif á virði fjárfestinganna ef áhættuþættir raungerast innan aðfangakeðja og hvort félög í eigu LV kortleggi þessa þætti, vakti og mildi. Ástæða þess að LV fylgir eftir og metur sjálfbærniáhættuþætti sem þessa með samtali við félög er:
- eftirfylgni á stefnum sjóðsins og í samræmi við aðferðafræði um virkt eignarhald
- í takt við alþjóðlega staðla og viðmið, t.d. þegar kemur að grunnreglum UN Global Compact
- að hvetja félög til góðs eftirlits með aðfangakeðjum sínum sem styður við skilvirkni, eykur gæði aðfanga og getur dregið úr kostnaði og áhættu, m.a. orðsporsáhættu, sem getur haft áhrif á fjárhagslegt virði
- að sjóðurinn lætur sig það varða hvernig fjármunatekjur hans verða til og vill stuðla að auknu gagnsæi í starfsemi félaga sem hann fjárfestir í og að mannréttindi, umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir séu virtir.
Með því að senda spurningar og stofna til samtals tengdu aðfangakeðjum félaga í söfnum sjóðsins fékk LV betri vitneskju um hvernig áhættu væri stýrt hjá félögum sem gagnafyrirspurnin náði til. Þá er það sýn LV að samskipti sem þessi hvetji félög til aukins gagnsæis í starfsemi og verði til þess að þau auki þekkingu og eftirlit með sjálfbærniáhættu.
Í febrúar sendi sjóðurinn bréf til skráðra innlendra félaga vegna uppfærðrar hluthafastefnu LV. Í umræddu bréfi var farið yfir áherslur lífeyrissjóðsins við meðferð eignarhalds í skráðum hlutafélögum. Þá sendi LV annað bréf til fyrrgreindra félaga og tilnefninganefnda þeirra í desember 2024 undir yfirskriftinni: „Áherslur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna varðandi upplýsingar um framboð til stjórna félaga.“ Markmið með bréfinu var að hvetja til aukins gagnsæis varðandi framboð til stjórna félaga og styðja við góð skoðanaskipti og upplýsta afstöðu hluthafa við stjórnarkjör.
Á árinu 2024 tók starfsfólk lífeyrissjóðsins þátt í tvíátta mikilvægisgreiningu hjá nokkrum innlendum félögum og stýrendum. Með því gafst tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sjóðsins hvað varðar helstu sjálfbærniáhættu í starfsemi þeirra félaga sem og tækifæri. Slík verkefni veita sjóðnum einnig góða innsýn í áherslur félaganna varðandi sjálfbærni í rekstri.