Ábyrgar fjárfestingar

Stefna, framkvæmd, árið

  • óuppfært

    Kolefnisfótspor

    51%
    samdráttur í fjármagnaðri losun innlendra skráðra félaga frá 2018

    Umfang 1 og 2

  • Útilokun fjárfestingarkosta

    86
    félög

    Tóbaksframleiðsla

    Framleiðsla á umdeildum vopnum

    Hluta tekna má rekja til námuvinnslu á olíusandi, olíuleirsteini og kolum til hitunar

    Brot gegn UNGC

  • PCAF-greining

    77.1%
    Fjármögnuð losun reiknuð fyrir 77,1% eignasafns sameignardeildar

    Innlend og erlend eignasöfn

Meginhlutverk LV er að hámarka ávöxtun eignasafna sjóðsins að teknu tilliti til áhættu og ná þannig eins háum réttindum sjóðfélaga og unnt er. Lífeyrissjóðir eru í eðli sínu langtímafjárfestar, með langar skuldbindingar og þurfa að horfa á þætti sem eru líklegir til þess að hafa áhrif á ávöxtun þeirra til lengri tíma.

Lífeyrissjóðum ber m.a. að byggja greiningar sínar á upplýsingum um öryggi, gæði, lausafjárstöðu og hafa arðsemi safnsins í heild í huga, tryggja fjölbreytni og koma í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu. Þá kveða lífeyrislögin einnig á um að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið. Það fellur þannig undir umboðsskyldu lífeyrissjóðsins að sýna ábyrgð þegar kemur að fjárfestingum og þannig stuðla að sjálfbæru eignasafni. Þá hefur Seðlabanki Íslands einnig kallað eftir því og talið tímabært að setja skýrari ákvæði í lög um lífeyrissjóði sem gera kröfur um að þeir taki tillit til sjálfbærniþátta og áhættu sem þeim tengist við töku fjárfestingarákvarðana í samræmi við löggjöf annarra á fjármálamarkaði.

Undanfarið ár hefur LV unnið markvisst að því að framkvæma stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og innleitt aðferðafræðina í verklag og ákvarðanatöku í fjárfestingarferli sjóðsins

Það sem keyrir ábyrgar fjárfestingar áfram er almenn vitneskja um að sjálfbærniþættir eins og umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir geti haft fjárhagsleg áhrif á virði félaga. Með því að verðleggja þessa þætti má grípa tækifæri og greina áhættur.
Fjárhagslegur ávinningur er hámarkaður og áhættu stýrt

Með því að beita aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga í eignastýringu er verið að greina fleiri þætti sem kunna að hafa áhrif á fjárhagslega afkomu fjárfestingarkosts en hefðbundnar fjármálagreiningar gera ráð fyrir. Það þýðir að greiningar eru ítarlegri, mengi áhættuþátta sem horft er til er stærra og meira af upplýsingum er safnað. Þannig má greina bæði tækifæri og áhættur sem geta farið eftir því í hvaða atvinnugrein viðkomandi útgefandi starfar og hvaða markaðssvæði eða landssvæði um er að ræða. Sjálfbærniáhætta nær meðal annars yfir umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti en einnig mannréttindi og viðskiptasiðferði. Verðmætasköpun þarf að vera sjálfbær svo fjárfesting sé lífvænleg til lengri tíma.

Hugtakið sjálfbær fjárfesting hefur nú verið lögfest með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Þessi löggjöf nær yfir lífeyrissjóði. Skilgreiningu á hugtakinu sjálfbær fjárfesting má finna í innleiddri reglugerð Evrópuþingsins nr. 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (svokölluð SFDR reglugerð) en hana er að finna í 17. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar.

Ábyrgar fjárfestingar 2024

Örskotsmynd

  • Samtal við útgefendur

    • Ný hluthafastefna komin í framkvæmd
    • Áherslur árið 2024 voru á virðiskeðjur og tilnefningarnefndir
  • PCAF-greining

    • Fjármögnuð losun reiknuð fyrir bæði innlendar og erlendar eignir í fyrsta sinn, samtals 77,1% af bókfærðu virði sameignardeildar.
    • Um 51% samdráttur á fjármagnaðri losun (umfang 1 og 2) innlendra skráðra hlutabréfa frá árinu 2018.
  • Ýmis verkefni á árinu

    • Stjórnarseta og samstarf við IcelandSIF
    • Stjórnarseta í Festu miðstöð um sjálfbærni og samstarf
    • Samstarf við Sustainalytics og innleiðing á sjálfbærnigagnagrunni
    • Kortlagning á SFDR og EU Taxonomy
    • Greining á sjálfbærniáhættu niður á atvinnugreinar og útgefendur
    • Samstarf við Creditinfo um sjálfbærnigögn
    • PCAF-útreikningar á eignasafni
    • Stefna um ábyrgar fjárfestingar (2021)
    • Stefna um útilokun í eignasöfnum (2021)
    • Hluthafastefna (2023)
  • Sjálfbærar eignir með umhverfismarkmiði í eignasafni sjóðsins nema:

    52 milljörðum króna

  • LV útilokar fjárfestingar í:

    • Tóbaksframleiðslu
    • Framleiðslu á umdeildum vopnum
    • Fyrirtækjum sem rekja hluta tekna til námuvinnslu á olíusandi, olíuleirsteini eða kolum til hitunar.
    • Útgefendum sem brjóta gegn alþjóðasamningum (UNGC)

    Í árslok 2024 voru 86 félög á útilokunarlista LV. Þau má sjá á heimasíðu sjóðsins.

PRI – reglur um ábyrgar fjárfestingar

Lífeyrissjóðurinn gerðist aðili að samtökunum Principles of Responsible Investing (PRI) árið 2006. Með aðildinni skuldbindur sjóðurinn sig til að innleiða og samþætta sex meginmarkmið samtakanna við fjárfestingar sínar.

  • Félög eru einungis sjálfbær til framtíðar taki þau til greina alla áhættuþætti sem þau standa frammi fyrir í rekstri sínum. Þau þurfa að hafa til staðar mildunaraðgerðir og vera tilbúin að takast á við umbreytingar til að vera sjálfbær.

  • Um hvað snúast ábyrgar fjárfestingar samkvæmt PRI?

    Að áhættuleiðrétta fjárfestingarákvarðanir með hliðsjón af öllum fjárhagslegum áhættuþáttum og hámarka þannig fjárhagslegan ávinning um leið.

  • Hvernig innleiðir LV ábyrgar fjárfestingar í samræmi við PRI?

    Árið 2021 gaf LV út stefnu um ábyrgar fjárfestingar en markmið stefnunnar, sem byggist á markmiðum og reglum PRI, er að auka áherslu á sjálfbærar fjárfestingar og samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við eignastýringu og auka gagnsæi í fjárfestingum. Þá samþykkti stjórn fyrstu sjálfbærnistefnu sjóðsins í janúar 2025 og er hún til innleiðingar á árinu.

    LV telur að þessar áherslur séu í takt við umboðsskyldu sjóðsins sem byggist m.a. á gildandi lögum og mikilvægi á greiningu viðeigandi áhættuþátta og tækifæra. Í þessu sambandi er m.a. vísað til 1. mgr. 36. gr. laga um lífeyrissjóði, ákvæði gerða ESB SFDR og EU Taxonomy sem gilda um starfsemi lífeyrissjóðsins sem og ákvæði laga um ársreikninga sem mæla fyrir um að sjóðurinn greini og birti sjálfbærniupplýsingar sem varða starfsemi hans.

UM PRI

PRI stendur fyrir ábyrgar fjárfestingar (e. Principles of Responsible Investments). Samtökin PRI voru stofnuð af alþjóðlegum hópi stofnanafjárfesta í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar árið 2005 að frumkvæði Kofis Annan þáverandi aðalritara. PRI eru óhagnaðardrifin samtök sem eru studd af Sameinuðu þjóðunum. Yfir fimm þúsund meðlimir eru í samtökunum, þar af eru 752 „Asset owners“ og tilheyrir LV þeim flokki. LV er þannig í hópi fjórtán íslenskra meðlima en þar af eru fjórir lífeyrissjóðir.

Markmið samtakanna er að hvetja til ábyrgra fjárfestinga, styðja við þá vegferð og fræða. Samtökin hafa birt sex meginreglur um ábyrgar fjárfestingar sem eiga að endurspegla mikilvægi umhverfis, samfélags og stjórnarhátta í fjárfestingum fjárfesta. Aðilar skuldbinda sig til að innleiða þessar meginreglur.

Samtökin eru vettvangur fjárfesta, opinberra aðila og fræðasamfélagsins til að hittast og þróa fræðin, besta aðferðafræði og auka gagnsæi.

Samtökin starfrækja PRI ACADEMY sem er fræðsluarmur þeirra. Markmiðið er að bjóða upp á námskeið til að fylla inn í þekkingargloppur þegar kemur að sjálfbærnimálum. Allir starfsmenn eignastýringar hafa lokið við námskeið hjá samtökunum.

Meginreglur PRI eru sex talsins

  • Regla 1

    Við munum taka mið af UFS þáttum við greiningar á fjárfestingum og við ákvörðunartöku.

  • Regla 2

    Við erum virkur eigandi. Eigendastefna okkar sem og verk okkar munu taka mið af UFS þáttum.

  • Regla 3

    Við munum gera kröfu um góða upplýsingagjöf um UFS þætti hjá félögum sem við fjárfestum í.

  • Regla 4

    Við munum beita okkur fyrir því að aðrir á fjármálamarkaðnum viðurkenni og innleiði þessar meginreglur.

  • Regla 5

    Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu á meginreglunum.

  • Regla 6

    Við munum gefa upplýsingar um verkefni okkar og árangur við innleiðingu á meginreglunum.

Stigakort LV árið 2024 vegna ársins 2023

LV svarar árlega spurningakönnun PRI. Um yfirgripsmikla spurningakönnun er að ræða þar sem farið er yfir framkvæmd LV á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við eignastýringu.

Samkvæmt endurgjöf frá PRI árið 2024 hefur LV bætt sig töluvert frá fyrri árum. Hærri stigagjöf má að miklu leyti rekja til stefnumörkunar stjórnar og aukinnar áherslu sjóðsins á ábyrgar fjárfestingar og samþættingu sjálfbærni í eignasöfnum sjóðsins.

Á eignastýringarsviði starfa nú tveir sérfræðingar í ábyrgum fjárfestingum sem njóta samstarfs við aðra sérfræðinga sviðsins, áhættustýringar og lögfræðisviðs.

Ljóst er að tækifæri eru enn til staðar til að bæta árangur sjóðsins þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum og liggja þau einkum í samtali og eftirliti með útgefendum og stýrendum og eftirliti með loftslagsáhættu.

Skoða stigakort

Virkt eignarhald

Undanfarin ár hefur lífeyrissjóðurinn lagt áherslu á að fylgjast með og byggja upp þekkingu og færni við beitingu virks eignarhalds í tengslum við umsýslu eignasafna sjóðsins. Virkt eignarhald byggist m.a. á því að eiga virk samskipti við útgefendur um stefnur og áherslur sjóðsins eins og þær birtast í hluthafastefnu LV. LV leggur m.a. áherslu á góða stjórnarhætti, að félög fylgi góðum viðskiptaháttum og setji sér stefnur sem tengjast sjálfbærni. Hluthafastefnu LV eru gerð góð skil á heimasíðu sjóðsins.

Fyrir aðalfundi félaga á sér stað ítarleg greining þvert á svið lífeyrissjóðsins þar sem farið er yfir tillögur og fundarefni sem lagt er fyrir á aðalfundi. LV nýtir almennt atkvæðarétt sinn á aðalfundum íslenskra félaga og gerir grein fyrir atkvæðagreiðslu sinni á heimasíðu sjóðsins.

Um þemaathugun: Mikilvægt er fyrir LV að kortleggja sjálfbærniáhættu félaga í söfnum sjóðsins. Á árinu var sérstaklega farið í þemaathugun á aðfangakeðjum hjá þremur skráðum félögum sem LV á hlut í en félög í ákveðnum atvinnugreinum eru talin mjög útsett fyrir áhættu tengdri aðfangakeðjum.

Markmiðið er að greina hugsanleg fjárhagsleg áhrif á virði fjárfestinganna ef áhættuþættir raungerast innan aðfangakeðja og hvort félög í eigu LV kortleggi þessa þætti, vakti og mildi. Ástæða þess að LV fylgir eftir og metur sjálfbærniáhættuþætti sem þessa með samtali við félög er:

  • eftirfylgni á stefnum sjóðsins og í samræmi við aðferðafræði um virkt eignarhald
  • í takt við alþjóðlega staðla og viðmið, t.d. þegar kemur að grunnreglum UN Global Compact
  • að hvetja félög til góðs eftirlits með aðfangakeðjum sínum sem styður við skilvirkni, eykur gæði aðfanga og getur dregið úr kostnaði og áhættu, m.a. orðsporsáhættu, sem getur haft áhrif á fjárhagslegt virði
  • að sjóðurinn lætur sig það varða hvernig fjármunatekjur hans verða til og vill stuðla að auknu gagnsæi í starfsemi félaga sem hann fjárfestir í og að mannréttindi, umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir séu virtir.

Með því að senda spurningar og stofna til samtals tengdu aðfangakeðjum félaga í söfnum sjóðsins fékk LV betri vitneskju um hvernig áhættu væri stýrt hjá félögum sem gagnafyrirspurnin náði til. Þá er það sýn LV að samskipti sem þessi hvetji félög til aukins gagnsæis í starfsemi og verði til þess að þau auki þekkingu og eftirlit með sjálfbærniáhættu.

Í febrúar sendi sjóðurinn bréf til skráðra innlendra félaga vegna uppfærðrar hluthafastefnu LV. Í umræddu bréfi var farið yfir áherslur lífeyrissjóðsins við meðferð eignarhalds í skráðum hlutafélögum. Þá sendi LV annað bréf til fyrrgreindra félaga og tilnefninganefnda þeirra í desember 2024 undir yfirskriftinni: „Áherslur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna varðandi upplýsingar um framboð til stjórna félaga.“ Markmið með bréfinu var að hvetja til aukins gagnsæis varðandi framboð til stjórna félaga og styðja við góð skoðanaskipti og upplýsta afstöðu hluthafa við stjórnarkjör.

Á árinu 2024 tók starfsfólk lífeyrissjóðsins þátt í tvíátta mikilvægisgreiningu hjá nokkrum innlendum félögum og stýrendum. Með því gafst tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sjóðsins hvað varðar helstu sjálfbærniáhættu í starfsemi þeirra félaga sem og tækifæri. Slík verkefni veita sjóðnum einnig góða innsýn í áherslur félaganna varðandi sjálfbærni í rekstri.

Tvíátta mikilvægisgreining (e. double materiality assessment) er greining á áhrifum sem rekstur félags kann að hafa á samfélög og umhverfi og hvaða áhrif samfélag og umhverfi kunna að hafa á fjárhagslega afkomu félags.

Loftslagstengd upplýsingagjöf

Fjármögnuð losun eignasafns

Skoða nánar

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2024

Eignasöfn