Loftslagstengd upplýsingagjöf og fjármögnuð kolefnislosun

Loftslagsáhætta, mæling hennar og greining er mikilvægur og vaxandi áhættuþáttur í eignasöfnum lífeyrissjóðsins og í sambærilegum eignasöfnum almennt. Þar er mat á fjármagnaðri losun eignasafna lykilatriði. Í því sambandi lítur sjóðurinn ekki eingöngu til fjárhæða fjármagnaðrar losunar félaga í eignasafninu heldur ekki síður til þess hvort þau hafi sett sér markmið um að draga úr losun og hvernig þeim gengur að ná þeim markmiðum. Hér skiptir samanburður milli sambærilegra félaga líka máli.

Loftslagsáhætta skiptist í umbreytingaáhættu og raunlæga áhættu.[1] Báðir áhættuþættirnir geta haft mikil fjárhagsleg áhrif á félög. Félög sem vinna eftir áætlun um orkuskipti, þ.e. færa sig frá notkun jarðefnaeldsneytis yfir í endurnýjanlega orkugjafa, eru líkleg til að milda loftslagsáhættuna sem þau standa frammi fyrir. Með því geta þau m.a. aukið viðnámsþrótt sinn og styrkt samkeppnisstöðu sína til lengri tíma litið og komið í veg fyrir að þau endi með strandaðar eignir (e. stranded assets). Slík fyrirtæki í eignasöfnum LV eru til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á áhættuleiðrétta ávöxtun sjóðsins.

Þegar frammistaða félaga í loftslagsmálum er metin er nauðsynlegt að meta sérstöðu viðkomandi atvinnugreinar. Skilvirk orkuskipti byggjast á því að áhersla sé lögð á umbreytingafjárfestingar í atvinnugreinum sem losa mikið magn gróðurhúsalofttegunda, til að mynda orkuframleiðslu, námuvinnslu, samgöngur og húsbyggingar. Fjárfesting í umbreytingafyrirtækjum er því skilvirk leið til að draga úr neikvæðri þróun í loftslagsmálum. Hér skiptir máli að mæla kolefnisfótspor fyrirtækjanna og fylgjast með fjármagnaðri losun eignasafnsins. Í þessu ferli skapast líka tækifæri til að greina eftirsóknarverða fjárfestingarkosti.

Fjármögnuð losun eignasafns LV

LV hefur nú greint fjármagnaða losun fyrir um 80% af virði sameignardeildar sem samanstendur af innlendum og erlendum eignum eins og þær voru við árslok 2023. Hér er um stórt skref að ræða þar sem eignir sameignardeildar námu 1.256 milljörðum kr. í árslok 2023 og 97,6% af heildareignum LV.

Hlutfall innlendra eigna var 54,4% eða 683 milljarðar kr. en 91,4% þeirra eigna voru innan umfangs útreikninga PCAF[2] sem hér eru birtir.

Virði erlendra eigna sjóðsins var 572 milljarðar króna í árslok 2023 og þar af voru 60% innan umfangs útreikninga PCAF. Samtals var fjármögnuð kolefnislosun LV því reiknuð fyrir 968 milljarða kr. eða um 77,1%[3] af stærð sameignardeildar lífeyrissjóðsins.

Helsta ástæðan fyrir því að útreikningar á fjármagnaðri losun ná ekki til alls eignasafnsins er að vissar eignategundir, t.d. lausafé, peningamarkaðssjóðir og útgáfur sveitarfélaga, eru utan umfangs losunarútreikninga sökum eðlis þessara fjárfestinga. Einnig ber að nefna að fjármunatekjur og ýmis kostnaður er utan umfangs ásamt því að losunargögn eru enn sem komið er ekki aðgengileg fyrir vissa erlenda hluta eignasafnsins, til dæmis fyrir erlenda skuldabréfasjóði og erlenda framtakssjóði.

Fjármögnuð losun innlends hluta eignasafnsins nam:

143.168 tonnum af koltvísýringsígildum (tCO2í [4]) fyrir umfang 1 og 2 [5] og

  • 273.460 tonnum fyrir umfang 1, 2 og 3.

Fjármögnuð losun erlendra hlutabréfa í eignasafni nam:

  • 75.667 tonnum af koltvísýringsígildum fyrir umfang 1 og 2 og
  • 1.022.579 tonnum fyrir umfang 1, 2 og 3.

Losunarkræfni[6] (tCO2í/ISKm fjárfest) innlendra og erlendra skráðra félaga var sambærileg þrátt fyrir að fjármögnuð losun erlenda hlutans hafi verið meiri í tonnum kolefnisígilda.

Mynd 1: Fjármögnuð losun (umfang 1, 2 og 3) innlends eignahluta sameignardeildar LV 2023 eftir eignaflokkum skv. skilgreiningu PCAF.

Mynd 1 sýnir að tveir eignaflokkar eru ábyrgir fyrir meirihluta fjármagnaðrar losunar LV – skráð innlend hlutabréf og ríkisskuldabréf (án landnotkunar (e. LULUCF)[7]).

Ef litið er til umfangs 1 og 2 eru ríkisskuldabréf ábyrg fyrir 74% af fjármagnaðri losun en 24% losunar má rekja til skráðra innlendra hlutabréfa. Þrátt fyrir framangreint er ljóst að ríkisútgáfur vega aðeins 15% af heildareignum sameignardeildar en hlutabréf vega um 24% og samsvarar það hlutfall sér vel við fjármagnaða losun. Þegar umfang 3 er tekið með inn í útreikningana standa skráð innlend hlutabréf fyrir 58% af fjármagnaðri losun en 39% eru rakin til ríkisskuldabréfa. Umfang 2 og 3 eiga ekki við þegar litið er til losunar ríkisútgáfa.

Aðrir flokkar, þ.m.t. húsnæðislán, innlend skuldabréf (skráð og óskráð) og óskráð innlend hlutabréf hafa mun minna vægi í losun eignasafnsins þrátt fyrir að vega samanlagt um 60% af heildarvirði innlenda hluta eignasafnsins.

LV notar meðal annars gagnaveituna Sustainalytics við mat á sjálfbærniáhættu ríkisskuldabréfa. Sustainalytics metur sjálfbærniáhættu íslenska ríkisins hverfandi en fyrir umhverfisvíddina er litið á þrjá þætti: orku og loftslagsbreytingar, auðlindanotkun og auðlindastjórnun.

Ísland er í 4. sæti yfir heildaráhættumat Sustainalytics og 9. sæti í umhverfisáhættumatinu. Það telst mjög gott og gefur til kynna að áhættuútsetning fyrir sjálfbærniáhættu, eftir að mildunaraðgerðir hafa verið teknar inn í reikninginn, sé lítil samanborið við jafningja.

Ástæðan fyrir lægri einkunn í umhverfismatinu er tvíþætt. Ísland flytur inn mikið af jarðefnaeldsneyti samanborið við jafningja. Orkukræfni landsins (e. energy intensity) er lakari en hjá jafningjum þar sem við flytjum út mjög mikið af orku samanborið við verga landsframleiðslu. LV lítur þó ekki á að fjármögnuð losun ríkisskuldabréfa sameignardeildar sé of áhættusöm miðað við almenn viðmið heldur þvert á móti. Ísland stendur framar jafningjum í fjölmörgum öðrum umhverfisþáttum sem vega þyngra þegar kemur að mati á loftslagsáhættu, til dæmis losunarkræfni (e. greenhouse gas intensity) og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Skráð innlend hlutabréf

Mynd 2: Losunarkræfni skráðra innlenda hlutabréfa innan umfangs (tCO2í/ISKm fjárfest) umfang 1 og 2 2018-2023

Mynd 2 sýnir að fyrir hverja milljón króna sem LV fjárfesti í árið 2023 voru að meðaltali 0,23 tonn koltvísýringsígilda losuð. Losunarkræfni yfir tíma sýnir nokkuð stöðuga kræfni skráðra innlendra hlutabréfa síðustu fjögur ár og jákvæða þróun, þ.e. minni kræfni, frá upphafi mælinga árið 2018.

Þróunin sem myndin sýnir leiðir af almennum breytingum á eignasafninu en ekki af skipulegum breytingum á því með það að markmiði að draga úr fjármagnaðri losun.

Mynd 3 hér á eftir sýnir að 68% af fjárfestingum LV í hlutabréfum skráðra félaga er í atvinnugreinum sem eru mjög útsettar fyrir loftslagsáhættu skv. skilgreiningu reglugerðar ESB um upplýsingagjöf tengdri sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu „Sustainable Finance Disclosure Regulation (SFDR)“. Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarin ár. Af þeim atvinnugreinum sem eru mjög útsettar eru þrjár sem standa fyrir 95% af fjármagnaðri losun innlendra hlutabréfa í sameignardeildar LV (umfang 1 og 2) þrátt fyrir að eignahlutdeild vegi aðeins um 24% af heildareignum sameignardeildar.

  • Millilanda- og strandsiglingar með vörur: 63% af fjármagnaðri losun.
  • Sjávarútvegur: 22% af fjármagnaðri losun.
  • Farþegaflutningar með áætlunarflugi: 10% af fjármagnaðri losun.

Athygli vekur að aðeins hlutfall losunar sjávarútvegs er í nokkru samræmi við bókfært virði atvinnugreinarinnar (22% losunar á móti 18% af bókfærðu virði). Bókfært virði millilanda- og strandsiglinga er 6% (63% af losun) og farþegaflutningar með áætlunarflugi er 0,5% af heildareignum (en telur 10% af losun).

Hlutfallið lítur þó töluvert öðruvísi út ef umfang 3 er tekið með í reikninginn en þá stendur heild- og smásöluverslun fyrir 68% af fjármagnaðri losun líkt og áður sagði, þrátt fyrir að hlutdeild LV í atvinnugreininni sé töluvert minni eða um 11%.

Mynd 3: Hlutdeild LV út frá bókfærðu virði hlutabréfa í skráðum félögum í atvinnugreinum sem teljast mjög útsettar fyrir loftslagsáhættu skv. SFDR.

Fjármögnuð losun erlendra eigna og samanburður við innlendar eignir

LV reiknaði fjármagnað kolefnisfótspor sameignardeildar fyrir erlend skráð hlutabréf, erlenda hlutabréfasjóði og sérgreind söfn. Ekki voru aðgengileg losunargögn af viðunandi gæðum fyrir erlend skuldabréf og erlenda framtakssjóði nema að litlu leyti en LV styðst við gögn frá Sustainalytics fyrir útreikning á fjármögnuðu kolefnisfótspori erlenda hluta eignasafnsins.

Fjármögnuð losun (umfang 1 og 2) skráðra innlendra og erlendra hlutabréfa sameignardeildar skv. skilgreiningu PCAF.

Mynd 4 sýnir að fjármögnuð losun (umfang 1 og 2) erlendra hlutabréfa var 75.667 tonn koltvísýringsígilda sem er rúmlega tvöfalt hærra en losun innlendra skráðra hlutabréfa.

Mynd 5: Losunarkræfni (umfang 1 og 2) skráðra innlendra og erlendra hlutabréfa sameignardeildar (tCO2í/ISKm fjárfest) skv. skilgreiningu PCAF.

Á mynd 5 kemur fram að losunarkræfni er örlítið hærri hjá innlendum skráðum hlutabréfum, eða 0,01 tCO2í/ISKm fjárfest. Það þýðir að kolefnisfótspor erlendra eigna er minna um 0,01 tonn koltvísýringsígilda fyrir hverja milljón sem fjárfest er samanborið við innlend fyrirtæki en munurinn er ekki mikill og losun því vel samanburðarhæf.

Mynd 6: Fjármögnuð losun (umfang 3) skráðra innlendra og erlendra hlutabréfa sameignardeildar skv. skilgreiningu PCAF.


Mynd 6 sýnir að umfang 3 er um það bil 8 sinnum hærra hjá erlendum skráðum hlutabréfum, eða 946.912 tonn koltvísýringsígilda, samanborið við 124.480 tonn koltvísýringsígilda hjá innlendum skráðum hlutabréfum.

Með umfangi 3 er átt við óbeina losun ofar eða neðar í virðiskeðju, svo sem vegna framleiðslu á aðföngum eða notkunar á vörum fyrirtækis. Ein ástæða mismunarins er að fjárfestingar sjóðsins erlendis eru í stökum atvinnugreinum þar sem umfang 3 er umsvifamikið. Þessar atvinnugreinar eru:

  • iðnaður (e. industrials), nánar tiltekið stórar fjölþjóðlegar iðnaðarsamsteypur, þróun á rafbúnaði og fleira,
  • framleiðsla (e. materials), nánar tiltekið framleiðsla á efnum og efnavörum,málmum og fleira,
  • orkuframleiðsla (e. energy), nánar tiltekið innan olíu­ og gasvinnslu.

Þessar þrjár atvinnugreinar standa fyrir yfir 75% af umfangi 3 hjá erlendum skráðum hlutabréfum en vægi þessara atvinnugreina er aðeins um 15% af heildarvirði erlendra skráða hlutabréfa sameignardeildar. Þrátt fyrir lítið vægi standa örfá fyrirtæki innan þessara atvinnugreina fyrir meirihluta fjármagnaðrar losunar í umfangi 3 en fimm félög standa fyrir 40% af losuninni og 20 félög standa fyrir yfir 60% af losuninni.

Dæmi um erlent félag með hátt umfang 3

LV á 140 milljónir kr. í Siemens Energy AG í gegnum erlenda hlutabréfasjóði en fjármagnað umfang 3 hjá félaginu telur um 7,7% af erlendri heildarfjármagnaðri losun af gerð umfangs 3 hjá sameignardeild LV.

Siemens Energy AG var stofnað sem dótturfélag Siemens AG árið 2020 með það að markmiði að einblína á framleiðslu vélbúnaðar og tækja sem nýtist í orkuframleiðslu, m.a. innan endurnýjanlegra orkugjafa, gagnavera, skiptaflutninga, olíu- og gasvinnslu og fleira.

Vegna eðlis notkunar þessara tækjabúnaðar er umfang 3 í niðurstreymi (e. down stream) eitt það hæsta í heiminum eða 1.098.370 þúsund tonn í árslok 2023.

Hins vegar er þessi tækjabúnaður nauðsynlegur til þess að orkuskipti geti átt sér stað á heimsvísu og lítur LV svo á að félagið sé vel í stakk búið til þess að mæta umbreytingaáhættu (e. transition risk) sem því stafar af vegna loftslagsbreytinga. Félagið er með markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem er samþykkt af Science Based Target initiative (SBTi) um að draga úr losun seldra vara (sem fellur undir umfang 3) um 28% fyrir árið 2030 frá viðmiðunarárinu 2019. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í sjálfbærniskýrslu félagsins fyrir árið 2024.

Siemens Energy AG Sustainability Report 2024

Mynd 7: Hlutdeild LV út frá bókfærðu virði hlutabréfa í erlendum skráðum félögum í GICS-atvinnugreinum sem eru mjög útsettar fyrir loftslagsáhættu.

Mynd 7 sýnir að rétt rúmlega þriðjungur bókfærðs virðis erlendra skráðra hlutabréfa er í atvinnugreinum sem eru mikið útsettar fyrir loftslagsáhættu skv. skilgreiningu SFDR. Það er lægra hlutfall en hjá innlendum skráðum hlutabréfum. Þó er vert að taka fram að hér er horft til GICS-atvinnugreinaflokkunar en notast er við ÍSAT atvinnugreinaflokkun fyrir innlenda hluta eignasafnsins.

___________________________________________________________

[1] Algengast er að skipta loftslagsáhættu í tvo meginflokka. Annars vegar er talað um raunlæga áhættu (e. physical risk) sem stafar beint af loftslagsbreytingunum sjálfum og hins vegar umbreytingaáhættu (e. transition risk) sem kemur til vegna aðgerða til að stemma stigu við þeim. Slíkar aðgerðir geta t.d. leitt til minnkandi eftirspurnar eftir tilteknum vörum og þjónustu eða að ákveðnar eignir verði verðlausar. Heimild: Seðlabanki Íslands - Sviðsmyndagreiningar vegna loftslagsáhættu.

[2] Samtökin Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) voru stofnuð árið 2015. PCAF birti árið 2020 aðferðafræði við útreikninga á fjármagnaðri losun gróðurhúsalofttegunda sem staðfest var af GHG Protocol.

[3] Samtals eru 95,7% bókfærðs virðis innan umfangs útreikninga, eftir að búið er að taka tillit til lausafjár og annarra eignategunda sem eiga ekki við. Ef vægið er leiðrétt miðað við það umfang þá uppfærist talan úr 77,1% í 80,5%.

[4] Skilgreining tekin frá Loftslagsráði: CO2-ígildi, eða koldíoxíðígildi, er sú mælieining sem er notuð til að halda utan um losunartölur fyrir gróðurhúsalofttegundir. Eitt tonn af CO2-ígildi er jafnt einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda (t.d. metans, glaðlofts eða F-gasa) sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.

[5] Samkvæmt Greenhouse Gas Protocol (GHG Protocol) getur losun fyrirtækja fallið í þrenns konar umfang:

  • Umfang 1 – bein losun frá rekstri fyrirtækis, s.s. vegna bruna eldsneytis eða efnahvarfa í framleiðsluferlum.
  • Umfang 2 – óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu á hita eða rafmagni.
  • Umfang 3 – önnur óbein losun ofar eða neðar í virðiskeðju, vegna aðfangaframleiðslu eða vörunotkunar.

[6] Losunarkræfni er losun gróðurhúsalofttegunda miðað við aðra tiltekna einingu, hér upphæð fjárfestingar.

[7] LULUCF er skammstöfun á skuldbindingaflokknum Land use, land-use change and forestry þar sem losun og binding frá landnotkun fellur undir. Losun frá landnýtingu á Íslandi nemur um átta milljónum tonna á ári. Þessi losun kemur frá ýmsum uppsprettum, t.d. framræstu votlendi, og á binding sér einnig stað, sérstaklega í trjám. Heimild: Umhverfisstofnun | Spurt og svarað.