Loftslagsáhætta, mæling hennar og greining er mikilvægur og vaxandi áhættuþáttur í eignasöfnum lífeyrissjóðsins og í sambærilegum eignasöfnum almennt. Þar er mat á fjármagnaðri losun eignasafna lykilatriði. Í því sambandi lítur sjóðurinn ekki eingöngu til fjárhæða fjármagnaðrar losunar félaga í eignasafninu heldur ekki síður til þess hvort þau hafi sett sér markmið um að draga úr losun og hvernig þeim gengur að ná þeim markmiðum. Hér skiptir samanburður milli sambærilegra félaga líka máli.
Loftslagsáhætta skiptist í umbreytingaáhættu og raunlæga áhættu.[1] Báðir áhættuþættirnir geta haft mikil fjárhagsleg áhrif á félög. Félög sem vinna eftir áætlun um orkuskipti, þ.e. færa sig frá notkun jarðefnaeldsneytis yfir í endurnýjanlega orkugjafa, eru líkleg til að milda loftslagsáhættuna sem þau standa frammi fyrir. Með því geta þau m.a. aukið viðnámsþrótt sinn og styrkt samkeppnisstöðu sína til lengri tíma litið og komið í veg fyrir að þau endi með strandaðar eignir (e. stranded assets). Slík fyrirtæki í eignasöfnum LV eru til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á áhættuleiðrétta ávöxtun sjóðsins.
Þegar frammistaða félaga í loftslagsmálum er metin er nauðsynlegt að meta sérstöðu viðkomandi atvinnugreinar. Skilvirk orkuskipti byggjast á því að áhersla sé lögð á umbreytingafjárfestingar í atvinnugreinum sem losa mikið magn gróðurhúsalofttegunda, til að mynda orkuframleiðslu, námuvinnslu, samgöngur og húsbyggingar. Fjárfesting í umbreytingafyrirtækjum er því skilvirk leið til að draga úr neikvæðri þróun í loftslagsmálum. Hér skiptir máli að mæla kolefnisfótspor fyrirtækjanna og fylgjast með fjármagnaðri losun eignasafnsins. Í þessu ferli skapast líka tækifæri til að greina eftirsóknarverða fjárfestingarkosti.
Fjármögnuð losun eignasafns LV
LV hefur nú greint fjármagnaða losun fyrir um 80% af virði sameignardeildar sem samanstendur af innlendum og erlendum eignum eins og þær voru við árslok 2023. Hér er um stórt skref að ræða þar sem eignir sameignardeildar námu 1.256 milljörðum kr. í árslok 2023 og 97,6% af heildareignum LV.
Hlutfall innlendra eigna var 54,4% eða 683 milljarðar kr. en 91,4% þeirra eigna voru innan umfangs útreikninga PCAF[2] sem hér eru birtir.
Virði erlendra eigna sjóðsins var 572 milljarðar króna í árslok 2023 og þar af voru 60% innan umfangs útreikninga PCAF. Samtals var fjármögnuð kolefnislosun LV því reiknuð fyrir 968 milljarða kr. eða um 77,1%[3] af stærð sameignardeildar lífeyrissjóðsins.
Helsta ástæðan fyrir því að útreikningar á fjármagnaðri losun ná ekki til alls eignasafnsins er að vissar eignategundir, t.d. lausafé, peningamarkaðssjóðir og útgáfur sveitarfélaga, eru utan umfangs losunarútreikninga sökum eðlis þessara fjárfestinga. Einnig ber að nefna að fjármunatekjur og ýmis kostnaður er utan umfangs ásamt því að losunargögn eru enn sem komið er ekki aðgengileg fyrir vissa erlenda hluta eignasafnsins, til dæmis fyrir erlenda skuldabréfasjóði og erlenda framtakssjóði.
Fjármögnuð losun innlends hluta eignasafnsins nam:
143.168 tonnum af koltvísýringsígildum (tCO2í [4]) fyrir umfang 1 og 2 [5] og
- 273.460 tonnum fyrir umfang 1, 2 og 3.
Fjármögnuð losun erlendra hlutabréfa í eignasafni nam:
- 75.667 tonnum af koltvísýringsígildum fyrir umfang 1 og 2 og
- 1.022.579 tonnum fyrir umfang 1, 2 og 3.
Losunarkræfni[6] (tCO2í/ISKm fjárfest) innlendra og erlendra skráðra félaga var sambærileg þrátt fyrir að fjármögnuð losun erlenda hlutans hafi verið meiri í tonnum kolefnisígilda.