Haghafar og mikilvægisgreining

Haghafagreining auðveldar sjóðnum að vinna að og gæta hagsmuna sjóðfélaga og annarra mikilvægra haghafa.

Haghafar hafa verið skilgreindir sem einstaklingar, hópar eða lögaðilar sem verða fyrir áhrifum af starfsemi og geta haft áhrif á starfsemi skipulagsheilda.

Þarfir, kröfur og áhrifavald haghafa getur haft áhrif á starfsemi LV og mótun ýmissa stefna og reglna. Þar má nefna samþykktir, fjárfestingarstefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar, áhættustefnu, siða- og samskiptareglur, stefnu varðandi upplýsingamiðlun, mannauðsstefnu og starfskjarastefnu.

Haghafagreining Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Haghafar hafa verið skilgreindir sem einstaklingar, hópar eða lögaðilar sem verða fyrir áhrifum af starfsemi og geta haft áhrif á starfsemi skipulagsheilda. Greinarmunur er gerður á lykilhaghöfum annars vegar og öðrum haghöfum hins vegar. Undir hvorum flokki er svo haghöfum skipti í innri og ytri haghafa.

  • Lykilhaghafar (e. primary stakeholder) og aðrir haghafar: Einstaklingar, hópar eða lögaðilar sem verða fyrir beinum áhrifum af aðgerðum og starfsemi skipulagsheilda. Þeim til viðbótar eru tilgreindir aðrir haghafar.
  • Innri og ytri haghafar: Haghöfum er skipt í innri haghafa eða þá sem hafa bein tengsl við skipulagsheildir og ytri haghafa sem tengjast ekki beint starfseminni en geta orðið fyrir áhrifum af starfseminni eða geta haft áhrif á starfsemina.

Þarfir, kröfur og áhrifavald haghafa geta haft áhrif á starfsemi LV og mótun ýmissa stefna og reglna. Þar má nefna samþykktir, fjárfestingarstefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar, áhættustefnu, siða- og samskiptareglur, stefnu varðandi upplýsingamiðlun, starfsmannastefnu og starfskjarastefnu.

Aðrir ytri haghafar: Til þessa hóps teljast ýmsir sem geta orðið fyrir áhrifum af starfsemi LV eða haft áhrif á starfsemina þótt þeir tengist starfseminni ekki beint í því samhengi sem hér um ræðir. Þessi upptalning er ekki tæmandi:

  • Mögulegir framtíðarsjóðfélagar
  • Tryggingastærðfræðingur
  • Innri og ytri endurskoðendur
  • Stéttarfélög
  • Vinnuveitendur
  • Fjármálafyrirtæki og aðrir þjónustuaðilar á fjármálamarkaði
  • Útgefendur fjármálagerninga (t.d. ríki, sveitarfélög og fyrirtæki)
  • Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir (t.d. Seðlabanki Íslands – Fjármálaeftirlitið)
  • Landssamtök lífeyrissjóða
  • Ríkið, innheimta skatta og ríkisrekstur
  • Sveitarfélög
  • Tryggingastofnun
  • Fjölmiðlar
  • Aðrir sem gæta umhverfishagsmuna og félagslegra hagsmuna

Samskipti við haghafa

Virðisaukinn sem verður til í starfsemi LV byggir að hluta til á þekkingu starfsfólks sjóðsins á haghöfum og væntingum þeirra til sjóðsins. Væntingum haghafa er nauðsynlegt að mæta með virkum og vel skilgreindum samskiptum.

Á árinu 2022 var áhersla lögð á að greina þarfir sjóðfélaga og hvernig þeim væri betur mætt. Skoðaðar voru væntingar til upplýsingagjafar og samskipta við sjóðinn.

Í febrúar 2022 var framkvæmd mikilvægisgreining meðal sjóðfélaga, starfsfólks og stjórnar til að kanna viðhorf til áhrifa sjálfbærrar þróunar á efnahags-, umhverfis- og félagslega þætti.

Svarendur forgangsröðuðu áherslum sjóðsins eftir mikilvægi jákvæðra áhrifa á sjálfbæra þróun.

Haghafar eru sammála um að leggja beri mesta áherslu á góða stjórnarhætti, ábyrgar fjárfestingar, persónuvernd og öryggi gagna, mannréttindi og réttindi starfsfólks og jafnrétti.

Mikilvægisgreining LV

Aukreitis aflar sjóðurinn upplýsinga um þarfir og viðhorf sjóðfélaga og launagreiðenda með margvíslegum hætti í þeim tilgangi að bæta þjónustu sjóðsins.

Ársfundir sjóðsins er vettvangur ítarlegrar upplýsingamiðlunar um afkomu liðins árs. Sjóðurinn nýtir einnig samfélagsmiðla og sendir sjóðfélögum tvisvar á ári yfirlit yfir réttindi og greidd iðgjöld.