Ráðgjöf og þjónusta

Þjónusta, ráðgjöf og viðburðir

LV leggur áherslu á að veita persónulega þjónustu og einstaklingsmiðaða ráðgjöf um lífeyrissparnað og úttekt lífeyris. Áhersla er lögð á þjónustu í gegnum síma, tölvupóst eða með netspjalli og vefur sjóðsins, live.is, er mikilvæg miðstöð upplýsingagjafar og þjónustu. Á sjóðfélagavefnum mitt.live.is er persónuleg staða hvers sjóðfélaga aðgengileg ásamt lífeyrisreiknivél.

Námskeið og viðburðir

Ýmis námskeið voru haldin fyrir sjóðfélaga, til að mynda árleg starfslokanámskeið og fræðsla fyrir starfsfólk VR. Fræðslumiðlun fer einnig fram á samfélagsmiðlum LV og í fjölmiðlum.

Starfsfólk sat fyrir svörum í Mannlega þættinum á Rás 1 og ræddi við hlustendur um lífeyrismál sem á þeim brunnu. Spurningarnar voru afar fjölbreyttar og voru m.a. tengdar skattamálum, erfðamálum, séreignarsparnaði, tilgreindri séreign og fleiru.

Sjóðurinn bauð til viðburðarins Við lifum lengur um áhrif þess að meðalævi Íslendinga lengist. Fjölmargir sóttu fundinn á Hótel Reykjavík Natura eða fylgdust með streymi.

Upptöku af fundinum var miðlað til sjóðfélaga beint og í gegn um samfélagsmiðla. Þeir voru hvattir til að veita endurgjöf og koma með hugmyndir að frekari fræðslu. Það er liður í aðgerðum sjóðsins til að þróa markvissa fræðslu og kynnast betur viðhorfum mikilvægra haghafa sem sjóðfélagar eru.

Takk fyrir frábæra kynningu.

Sjálfur er ég kominn á aldur en var í verkalýðsbaráttu og fannst frekar erfitt að koma upplýsingum til yngri manna og kvenna.

Frábærir flytjendur efnis, bestu þakkir

Ráðgjöf

Markmið sjóðsins er að sjóðfélagar fái sem best notið lífsins, hugðarefna sinna og áhugamála eftir lok starfsævinnar. Slagorð sjóðsins Tíminn flýgur, hafðu það gott eftir vinnu er hvatning um að þekkja réttindi sín og huga að líkamlegri og andlegri heilsu og félagslegri stöðu enda eru eftirlaunin aðeins einn þáttur þess að hafa það gott eftir vinnu.

Sjóðurinn framkvæmir reglulega kannanir meðal sjóðfélaga, launagreiðenda og almennings til að meta hvernig geri megi betur í fræðslu og ráðgjöf. Meðal þess sem komið hefur fram er að undirbúningur fyrir starfslok eða töku eftirlauna hefst almennt ekki fyrr en stutt er í starfslok og fáir kynna sér aðra þætti en tekjugreiðslur lífeyrissjóða í tengslum við starfslokin. Þróun á ráðgjöf og miðlun upplýsinga munu taka mið af þessum upplýsingar og mæta óskum sjóðfélaga um aukna lífeyrisráðgjöf.

Sérsniðin ráðgjöf

Ráðgjafar sjóðsins veita ráðgjöf og upplýsingar til sjóðfélaga um stöðu lífeyrisréttinda þeirra og mismunandi leiðir við útgreiðslu á eftirlaunasparnaði með tilliti til persónulegra aðstæðna Það er vaxandi þáttur í starfsemi sjóðsins þar sem margir þekkja ekki nægilega vel valkostina sem eru í boði varðandi nýtingu lífeyrisréttinda sinna.

Fyrir þá sem vilja skoða sín réttindi er býður sjóðurinn upp á öfluga lífeyrisreiknivél á sjóðfélagavef þar sem sjóðfélögum gefst tækifæri til að gera sína eigin lífeyrisáætlun og séð hver áætlaður lífeyrir væri frá öllum lífeyrissjóðum sem viðkomandi á rétt í.

Skipting réttinda hjóna

Ný reiknivél á live.is var kynnt á árinu. Hún veitir upplýsingar um mögulegan lífeyri ákveði hjón eða sambúðarfólk að skipta réttindum sín á milli. Reiknivélin aðstoðar sjóðfélaga við að skoða vandlega áhrif skiptingar réttinda. Sjóðfélagar eru jafnframt hvattir til að leita ráðgjafar varðandi áhrif skiptingarinnar. Þar sem ákvörðunin um skiptingu er óafturkræf var ákveðið að ekki væri hægt að klára skiptinguna að fullu rafrænt. Þannig vill sjóðurinn sýna ábyrgð og tryggja upplýst samþykki.

Skoða nánar

Upplýsingamiðlun

Sjóðfélagavefur og live.is

Fyrir sjóðfélaga gegnir sjóðfélagavefurinn lykilhlutverki. Þar má finna upplýsingar um réttindi, greiðslur, lán, umsóknir og skjöl. Í árlegri viðhorfskönnun kom fram að rúmlega 17% sjóðfélaga fara reglulega á sjóðfélagavefinn til að kanna réttindin sín. Ríflega helmingur hafði farið inn á sjóðfélagavefinn en ekki reglulega en einungis um 9% vissu ekki af sjóðfélagavefnum.

Vefur lífeyrissjóðsins live.is, gegnir mikilvægu upplýsinga- og fræðsluhlutverki en þar má finna vandað efni um alla helstu þætti réttinda, sparnaðar og lána.

Aukin áhersla á upplýsingamiðlun

Áframhaldandi áhersla er lögð á upplýsingamiðlun, meðal annars með þróun stafrænna lausna.

Að undanförnu hefur sjóðurinn fjölgað sjálfsafgreiðslumöguleikum. Nú síðast varð lánaumsóknarferlið aðgengilegt á vef, þar með talið greiðslumatið. Með slíkum lausnum er verið að mæta óskum um sjóðfélaga um aukna starfræna persónumiðaða þjónustu.

Þá hafa verið tekin nokkur skref til að vekja athygli sjóðfélaga á mikilvægum skilaboðum frá sjóðnum. Áhersla er á nýtingu rafrænna dreifileiða og persónumiðaða upplýsingagjöf.

Aukin notkun samfélagsmiðla

Aukin áhersla hefur verið á að nýta samfélagsmiðla til að koma áleiðis upplýsingum, fróðleik og til að fá endurgjöf frá sjóðfélögum. Facebook er hagnýtt til að koma áleiðis mikilvægum tilkynningum til sjóðfélaga og miðla fræðslu í auknu mæli. Í bréfum og fréttum frá sjóðnum hvetjum við sjóðfélaga til að fylgja sjóðnum á samfélagsmiðlum og skrá sig á póstlista.

Á árinu var LinkedIn síða sjóðsins stofnuð. Þar deilum við meðal annars fræðsluefni frá sérfræðingum sjóðsins um málefni sjálfbærrar þróunar og ábyrgra fjárfestinga og auglýsum laus störf hjá sjóðnum.

Þjónusta fyrir sjóðfélaga

Allt frá stofnun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna árið 1956 hefur sjóðurinn verið virkur þátttakandi í fjármögnun fasteigna sjóðfélaga. Sjóðurinn lánar sjóðfélögum til fasteignakaupa og fjármagnar líka fasteignakaup þeirra óbeint með kaupum á sértryggðum skuldabréfum banka auk þess að hafa á sínum tíma fjárfest í skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.

  • Tegundir lána

    • Verðtryggð lán, með föstum vöxtum á lánstímanum eða með endurskoðun vaxta eftir 60 mánuði
    • Óverðtryggð lán, með breytilegum vöxtum eða með endurskoðun vaxta eftir 36 mánuði
    • Hámarkslán er 75 milljónir króna
  • Lánsréttur

    • Lánsrétt hafa sjóðfélagar sem hafa greitt að lágmarki 6 mánuði af síðastliðnum 12 mánuðum eða í samtals 36 mánuði fyrir umsókn.
    • Engin skilyrði eru um að greiða iðgjöld til sjóðsins á meðan á lántöku stendur
  • Sjóðfélagalán

    1300
    lán afgreidd á árinu
  • Útistandandi lán

    6300
    2022
  • Lán til sjóðfélaga

    109
    milljarðar króna

Séreign til greiðslu lána

Þeir sem greiða í séreignarsparnað geta nýtt inneign sína skattfrjálst upp að ákveðinni fjárhæð til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna íbúðarhúsnæðis. Þeir sem huga að íbúðarkaupum geta fengið séreign greidda í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma. Þessa þjónustu sjá starfsmenn sjóðsins um án þóknunar.

séreignasparnaður til greiðslu inná lán

Betri þjónusta með auknu aðgengi að trúnaðarlæknum

Á árinu urðu breytingar á fyrirkomulagi trúnaðarlækna. Nú er hægt að velja um stað og stund fyrir viðtal við trúnaðarlækni í rafrænu ferli. Með því er verið að mæta óskum sjóðfélaga um aukið svigrúm og valfrelsi.

Skráning iðgjalda og eftirlit

Um níu þúsund fyrirtæki greiða iðgjöld til sjóðsins á árinu fyrir um 50 þúsund sjóðfélaga. Móttaka og skráning iðgjalda er margþætt ferli sem kallar á samskipti við launagreiðendur, stofnanir og aðra lífeyrissjóði og felur í sér töluverðar eftirlitsaðgerðir í þágu sjóðfélaga.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

II. Lífeyrisafurðir

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

IV. Eignasöfn