Stjórnun og stjórnarhættir LV taka mið af hlutverki sjóðsins samkvæmt lögum, samþykktum, innri reglum, leiðbeiningum um stjórnarhætti og öðrum gildum viðmiðum.
Hlítni LV leggur áherslu á að fylgja eftir reglum og viðurkenndum viðmiðum varðandi stjórnarhætti. Liður í því er skilvirkt skipurit, liðsheild, viðeigandi innri reglur, innra eftirlit og aðhald frá innri og ytri endurskoðun og hagaðilum. Eftirfylgni felst m.a. í aukinni áherslu á upplýsingagjöf. Þá framkvæmir stjórn reglulega mat á starfsháttum stjórnar.
Langtímastefnumótun Til að styðja við hlutverk sjóðsins, langtímasýn og uppbyggilega fyrirtækjamenningu hefur LV markað sér stefnu til 2030. Í kafla þessum er gerð grein fyrir nokkrum lykilþáttum stefnunnar.
Skipurit Markmiðið með skipuriti sjóðsins er að styðja við skilvirkan rekstur og viðskiptalíkan. Í kaflanum er gerð grein fyrir skipuritinu í samhengi við starfsemi sjóðsins.
Stjórn og yfirstjórn LV leggur áherslu á breidd í samsetningu stjórnar og stjórnenda. Í kaflanum er yfirlit yfir stjórn, stjórnendur, framkvæmdastjóra og forstöðumenn auk upplýsinga um menntun þeirra, störf og reynslu.
Á döfinni Meðal verkefna á döfinni næstu misseri, og varða stjórnarhætti og rekstur, eru
- áframhaldandi þróun á hluthafastefnu sjóðsins.
- áframhaldandi innleiðing stefnu um ábyrgar fjárfestingar.
- innleiðing laga og reglna varðandi fjármálamarkað og ábyrgar fjárfestingar.
- aðgerðir til að tryggja netöryggi og öryggi upplýsingakerfa.
- þróun á starfsemi sjóðsins í takt við stefnumótun sjóðsins og síbreytilegt starfsumhverfi.
Til viðbótar við umfjöllun í þessum kafla er einnig vísað til umfjöllunar í öðrum köflum skýrslunnar sem varðar stjórnarhætti og stjórnun sjóðsins.
Stjórnarháttayfirlýsingu LV má finna hér.
Um hlutverk, sýn, vegferð og gildi LV
Árið 2021 vann LV að stefnumótun fyrir sjóðinn til ársins 2030 í virku samstarfi stjórnar og stjórnenda undir leiðsögn ráðgjafa. Innleiðing og vinna áherslna, sem koma fram í greiningu á hlutverki, framtíðarsýn, leiðarljósum og grunngildum sjóðsins, fór fram á grundvelli laga, samþykkta sjóðsins og annarra viðeigandi reglna og viðmiða.
Eftirfarandi er yfirlit skilgreininga á þessum þáttum í stefnu LV. Stefnunni er fylgt eftir með áherslum í rekstri og margvíslegum verkefnum.
Hlutverk - Framtíðarsýn – Leiðarljós – Grunngildi
Hlutverk
Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum, lífeyri eftir þeim reglum sem hér fara á eftir. Stjórn sjóðsins mótar fjárfestingarstefnu sjóðsins og sér um ráðstöfun á fjármagni hans og ávaxtar það með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til áhættu og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum sjóðsins.
2030 framtíðarsýn [e. Vision]
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er eftirsóknarverður og leiðandi lífeyrissjóður. Sjóðurinn byggir upp trausta fjárhagslega framtíð sjóðfélaga við starfslok og tryggingar vegna örorku og við fráfall sjóðfélaga. Lífeyrissjóðurinn veitir traustar og áreiðanlegar upplýsingar sem miðast við þarfir sjóðfélaga á hverjum tíma. Sjóðurinn ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með gagnsæjum og ábyrgum hætti, með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Sjóðurinn er fyrirmyndar vinnustaður skipaður öflugri liðsheild sem býr yfir góðri þekkingu, reynslu og hæfni.
Leiðarljós [e. Mission]
Stefna LV til 2030 skiptist í fimm leiðarljós sem koma úr framtíðarsýn sjóðsins. Þessi fimm leiðarljós eða þemu ramma inn áherslur í daglegri starfsemi og eru leiðbeinandi fyrir ákvarðanatöku þannig að unnið sé markvisst í anda framtíðarsýnar lífeyrissjóðsins.
Fimm leiðarljós eða þemu stefnunnar umbreytast í verkefni og áherslur sem markvisst er unnið að í daglegum störfum sjóðsins. Það er gert í gegnum vel skilgreind verkefni sem eiga augljósan og rekjanlegan uppruna í sýn á framtíðarstöðu sjóðsins árið 2030.
Fram undan eru nokkur ár til að uppfylla og raungera sýnina í gegnum ákvarðanatöku á grundvelli stefnunnar og forgangsröðun verkefna í samræmi við ákvarðanir.