Ábyrgar fjárfestingar

Stefna, framkvæmd, árið, komandi verkefni og samstarf

LV er langtímafjárfestir sem hefur að markmiði að hámarka ávöxtun að teknu tilliti til áhættu sem hámarkar réttindi sjóðfélaganna. Það samræmist langtímasýn sjóðsins að horfa til fjárfestinga í fjármálagerningum sem gefnir eru út af fyrirtækjum, opinberum aðilum og öðrum útgefendum sem byggja starfsemi sína á sjálfbærum grundvelli. Í því er horft til þriggja grunnviðmiða í sjálfbærum rekstri, þ.a. jafnvægis milli efnahagslegrar hagsældar, samfélagslegrar velsældar og ábyrgrar nýtingar náttnáttúruauðlinda.

Sjálfbærni felst m.a. í því að samfélagið geti þróast og uppfyllt þarfir samtímans án þess að rýra möguleika komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar

LV setti sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar síðla árs 2021 og stefnt er að því að ljúka við innleiðingu hennar á árinu 2023. Í stefnunni kemur fram að fjárfestingarkostir og stýring eignasafna byggi á sjálfbærnisjónarmiðum byggðum á greiningu umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta, skammstafað UFS, í samræmi við viðurkennd viðmið. Stefnan festir í sessi þær kröfur sem sjóðurinn gerir þegar kemur að aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Í því felst að sjóðurinn

  • setur sér stefnu um málefnið.
  • mælir árangur.
  • upplýsir um framvindu og árangur.

Markmiðið er að auka áherslu á sjálfbærar fjárfestingar og samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundna greiningu fjárfestingakosta og aðferðafræði við samval verðbréfa. Í því felst m.a. að

  • leggja áherslu á fjárfestingarkosti sem styðja við ábyrga langtímaávöxtun að teknu tilliti til áhættu.
  • hafa uppbyggileg og virðisaukandi áhrif á starfsemi útgefenda fjármálagerninga
    sem fjárfest er í.
  • greina og sneiða hjá atvinnugreinum og fyrirtækjum sem LV forðast að sækja ávöxtun til vegna eðlis atvinnugreinar eða rekstrar viðkomandi fyrirtækis.
  • styðja við virka og árangursríka áhættustýringu.

Stefnan nær til allra eignasafna LV og tekur bæði til fjárfestingarferlis og eigendahlutverks LV.

Aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga er byggð á skilgreiningu „Principles for Responsible Investment (PRI)“, þ.e. stýringu eignasafna með tilliti til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta, bæði hvað varðar

  • fjárfestingarákvarðanir og uppbyggingu eignasafna.
  • eigendahlutverks, m.a. þar sem LV er hluthafi eða skuldabréfaeigandi.

Val aðferða ábyrgra fjárfestinga fer eftir eðli fjárfestingar, m.a. eignaflokki, landsvæði og hvort um beint eignarhald sé að ræða eða fjárfestingu gegnum þriðja aðila. Aðferðafræðin á einkum við um beinar fjárfestingar LV en eru einnig hafðar til hliðsjónar við fjárfestingu í sjóðum og þar sem gerðir eru eignastýringarsamningar við þriðja aðila.

Unnið hefur verið að innleiðingu stefnunnar á árinu 2022. Sú vinna hefur tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert. Stefnt er að því að ljúka meginþáttum innleiðingarinnar fyrir árslok 2023.

Stefna um útilokanir í eignasöfnum

Samhliða stefnu um ábyrgar fjárfestingar gaf LV út stefnu um útilokun fjárfestingakosta í eignasöfnum sjóðsins með tilliti til ábyrgra fjárfestinga. Markmiðið er að útiloka að hluta eða að fullu fjárfestingar í tiltekinni starfsemi sem samræmist ekki skilgreindum viðmiðum. LV útilokar þannig verðbréf úr eignasafni sínu séu þau gefin út af fyrirtæki eða opinberum aðila sem hefur tekjur af tiltekinni starfsemi eða gerist brotlegur við ákvæði tiltekinna alþjóðasáttmála. Meðal þess sem útilokað er úr eignasöfnum LV:

  • Framleiðendur tóbaks.
  • Framleiðendur umdeildra vopna.
  • Fyrirtæki sem rekja hluta tekna sinna til tiltekinna flokka jarðefnaeldsneytis.
  • Útgefendur sem fylgja ekki meginreglum UN Global Compact, sem byggir á tilteknum alþjóðasamningum.

Í árslok 2022 var 141 fyrirtæki á útilokunarlista sjóðsins og langstærstur hluti útilokana er tengdur jarðefnaeldsneyti. Frá upphafi hefur sjóðurinn selt fyrirtæki fyrir rúma 3 milljarða kr. vegna útilokunarstefnunnar. Það eru takmarkanir á að framfylgja útilokunarstefnu í ákveðnum eignaflokkum eins og vísitölusjóðum.

Upplýsingagjöf

LV leggur áherslu á aukið gagnsæi í upplýsingamiðlun. Sem liður í því að fylgja eftir stefnu LV um ábyrgar fjárfestingar og virkt eignarhald birtir sjóðurinn að minnsta kosti árlega opinberlega, á vef sjóðsins, heildarlista um eftirtalda þætti:

  • Fyrirtæki sem LV hefur útilokað sem fjárfestingarkost samkvæmt stefnu sjóðsins og ástæður þess.
  • Beitingu atkvæðaréttar LV á hluthafafundum innlendra hlutafélaga.
  • Upplýsingar um sundurliðun eigna sjóðsins, sjá nánar í ársreikningi.

Verkefni á árinu

Á liðnu ári var unnið að því að byggja upp þekkingu og færni á sviði ábyrgra fjárfestinga og greiningar á efnislega mikilvægum þáttum sem varða sjálfbærni í eignasöfnum. Meðal þess má nefna:

  • Fyrstu skref voru tekin í að greina kolefnisfótspor eignasafna sjóðsins. Stefnt er að því að kynna niðurstöðu greininga á árinu 2023.
  • Undirbúningur hófst við greiningu á á loftslagstengdum ógnunum og tækifærum varðandi eignasöfn LV. Við þá vinnu er byggt á TCFD (Task Force on Climate-related Financial Disclosures) auk þeirrar aðferðafræði og gagnagrunna sem stuðst er við í greiningu á kolefnisfótspori eignasafna sjóðsins.
  • Unnið er að uppbyggingu þekkingar og færni á aðferðafræði tengdum ábyrgum fjárfestingum innan eignastýringar sjóðsins. Ráðinn var starfsmaður á eignastýringarsvið til að hafa umsjón með ábyrgum fjárfestingum. Þá eru verkefni þessu tengt einnig vaxandi þáttur í störfum áhættustýringar og lögfræðisviðs.
  • Unnið var að undirbúningi innleiðingar reglugerða ESB sem varða sjálfbæran rekstur og ábyrgar fjárfestingar og falla undir EES-samningin. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um lögfestingu reglugerðanna og verði það samþykkt óbreytt taka lögin gildi 1. júní 2023.
  • Innlendir og erlendir eignastýrendur LV voru greindir með tilliti til UFS þátta. Greiningin byggir á aðferðafræði LV sem tekur mið af viðurkenndum viðmiðum.
  • LV sendi UFS spurningalista á skráð innlend hlutafélög á árinu til að kanna UFS stöðu þeirra. Jafnframt var kallað eftir upplýsingum frá eignastýrendunum um UFS þætti fyrir undirliggjandi fyrirtæki þeirra sjóða sem þeir stýra og LV á hlut í. Slík gagnaöflun verður hér eftir árleg.
  • LV átti samtöl við fjölmarga útgefendur fjármálagerninga í eignasöfnum LV og einnig í tengslum við mat á mögulegum fjárfestingarkostum.

Þátttaka í samstarfi sem varðar sjálfbærni í rekstri og ábyrgar fjárfestingar

LV tekur þátt í margskonar samstarfi varðandi ábyrgar fjárfestingar og sjálfbæra þróun m.t.t. eignasafna og sjálfbærs rekstrar:

  • LV hefur verið aðili að PRI (Principles for Responsible Investment) frá árinu 2006 þegar sjóðurinn gerðist stofnaðili. PRI er tengt Sameinuðu þjóðunum og vinnur að innleiðingu aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga.
  • LV hefur verið aðili að IcelandSIF frá árinu 2017 þegar sjóðurinn gerðist stofnaðili. Hlutverk samtakanna er að efla þekkingu félagsaðila á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Jafnframt situr forstöðumaður eignastýringar í stjórn samtakanna.
  • LV hefur verið aðili að Festu – miðstöðvar um sjálfbærni, frá árinu 2018. Hlutverk Festu er að auka þekkingu á sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og hverskyns skipulagsheilda. Forstöðumaður lögfræðisviðs er formaður samtakanna.
  • Starfsfólk LV tekur virkan þátt í starfsemi Landssamtaka lífeyrissjóða, m.a. á vettvangi nefndar um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða og nefndar um áhættustýringu lífeyrissjóða, þar sem málefni ábyrga fjárfestinga er á döfinni. Þá er formaður stjórnar lífeyrisjóðsins í stjórn samtakanna.

Fjárfestingar í hreinni orkuframleiðslu og öðrum loftslagslausnum

  • LV hefur sett sér markmið um að fjárfesta fyrir 150 milljarða króna í hreinni orkuframleiðslu og loftslagstengdum verkefnum fyrir árið 2030, í tengslum við aðild sjóðsins að CIC, Climate Investment Coalition.
  • Þátttaka LV er liður í auknum áherslum lífeyrissjóðsins á ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Með þátttöku LV í CIC vill LV styðja við markmið Parísarsáttmálans frá árinu 2015 um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Verkefnið hefur farið hægar af stað en ráð var fyrir gert og nemur eign í CIC eignum ríflega 30 milljörðum króna í árslok 2022. Torsóttara hefur reynst að finna fýsilega fjárfestingarkosti en ráð var fyrir gert en vonandi rætist þar úr á næstunni samfara örri þróun á þessu sviði.

Um áskoranir framundan

Þó margt hafi áunnist í starfsemi LV varðandi ábyrgar fjárfestingar er margt óunnið. Hér eru dæmi um nokkrar áskoranir og verkefni sem eru framundan:

  • Innleiðing á samþættingu UFS greiningar í fjárfestingarferli almennt hefur tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert. Stefnt er að því að ákveðin skref verði stigin í þeim efnum á árinu 2023 og 2024.
  • Það felst áskorun í innleiðingu væntanlegra reglugerða og tilskipana ESB um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbæran rekstur sem fastlega er gert ráð fyrir að verði innleiddar í íslenskan rétt á árinu 2023 og á komandi árum. Reglurnar byggja einkum á áætlun ESB frá árinu 2018 um fjármögnun sjálfbærs vaxtar (Action Plan: Financing Sustainable Growth – COM 2018-97). Hér er um umfangsmikið og margbrotið regluverk að ræða. Sjóðurinn býr að ákveðinni undirbúningsvinnu og þátttöku í fjölþættu samstarfi.
  • Það eru ýmsar hindranir í þeirri vegferð að greina kolefnisfótspor eignasafna sjóðsins og setja stefnu um stýringu þeirra. Einkum varðandi aðgengi að gögnum, mat á áreiðanleika þeirra og mat á hvernig þær verði nýttar við rekstur eignasafna og áhættustýringu. Hröð þróun í aðferðafræði og væntanlegir staðlar fyrir upplýsingagjöf munu væntanlega auðvelda viðfangsefnið.

Nokkur orð um rekstur stefnu um ábyrgar fjárfestingar

LV nýtir atkvæðisrétt sinn einkum í innlendum félögum. Í atkvæðagreiðslum er horft til hluthafastefnu sjóðsins og UFS viðmiða. Yfirlit um ráðstöfun atkvæða má finna á heimasíðu sjóðsins.

Sjóðurinn hefur fjárfest beint í grænum og félagslegum skuldabréfum útgefnum á Íslandi. Vægi slíkra skuldabréfa nam um 1,5% af heildareignum í árslok samanborið við 0,9% í árslok 2021.

LV hefur undirritað viljayfirlýsingu við Climate Investment Coalition (CIC) eins og rakið er hér að framan. Vægi CIC eigna í árslok 2022 nam 2,6% af heildareignum samanborið við 2% í árslok 2021.

Nýir eignastýrendur LV á árinu 2022 voru metnir með hliðsjón af UFS þáttum. Greining á núverandi stýrendum verður lokið á árinu 2023.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

IV. Eignasöfn

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

VI. Áhættustýring