Um starfsemina

Ávörp formanns og framkvæmdastjóra, viðskiptalíkan, haghafar og mikilvægisgreining

Ávarp stjórnarformanns

Jón Ólafur Halldórsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Eðli málsins samkvæmt er kjarninn í starfsemi lífeyrissjóða fólginn í því að búa sig undir framtíðina. Að sinna verkefnum dagsins og morgundagsins en horfa jafnframt áratugi inn í framtíðina til að rækja skyldur sínar við sjóðfélaga og verja hagsmuni þeirra ævina á enda. Mikilvægur liður í nauðsynlegri fyrirhyggju LV birtist í breyttum samþykktum sjóðsins sem tóku gildi í upphafi árs 2023 og eru í samræmi við nýjustu spár um lífs- og dánarlíkur þjóðarinnar. Markmiðið er að staða sjóðsins í nútíð svari til skuldbindinga hans í framtíð. Samþykktabreytingar sjóðsins eru í takt við það grunnstef að hver kynslóð leggi fyrir fjármuni til ávöxtunar og eftirlauna þegar þar að kemur. Samhliða breytingunum hækkaði sjóðurinn lífeyri í annað skiptið á rúmu ári vegna góðrar ávöxtunar fyrri ára sem var einstaklega ánægjulegt.

Allt bendir til þess að ævi sjóðfélaga og þjóðarinnar almennt haldi áfram að lengjast sem betur fer og því er vel að framlag til lífeyrissparnaðar aukist samhliða. Um áramótin tóku gildi breytingar á lögum um lífeyrissjóði sem kveða á um að allir launþegar greiði 15,5% heildarlauna til að tryggja sér og sínum afkomuvernd vegna veikinda eða slysa og ævilangs lífeyris. Aukningin er enn ein stoðin undir sjálfbærni kerfisins til framtíðar jafnvel þó ævi komandi kynslóða lengist umtalsvert.

Hvernig sem á það er litið stendur íslenska lífeyrissjóðakerfið vel í alþjóðlegum samanburði, reyndar svo mjög að það hefur í tvö ár í röð náð fyrsta sæti á samanburðarlista lífeyriskerfa í 43 ríkjum í öllum heimsálfum samkvæmt heimsvísitölu Mercer-CFA Institute. Grunnurinn er góður og sjálfbærni kerfisins góð á meðan við höldum áfram að búa okkur undir framtíðina með markvissum hætti.

Uppgjör ÍL-sjóðs

Mikilvægt hagsmunamál sem stjórn LV hefur á sinni könnu nú um stundir varðar óvænt útspil fjármála- og efnahagsráðherra á haustdögum 2022 um úrvinnslu og uppgjör eigna og skulda ÍL-sjóðs, áður Íbúðalánasjóðs. Ráðherra viðraði þá hugmynd að slíta sjóðnum og að skuldabréf sjóðsins yrðu gerð upp án tillits til samningsbundinna greiðslna skuldabréfa til langrar framtíðar sem ÍL-sjóður hefur gefið út, bréfa sem lífeyrissjóðir eiga að stærstum hluta.

Við spyrjum að leikslokum en réttarleg staða lífeyrissjóða er sterk gagnvart atlögu af þessu tagi. Þannig eru LOGOS lögmannsþjónusta og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu sammála um að lífeyrissjóðir hafi stjórnarskrárvarinn rétt til að krefjast þess að ríkið standi að öllu leyti við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðunum.

Við spyrnum við fótum enda miklir hagsmunir í húfi og við höfum tvímælalaust góðan málstað að verja.

Innviðafjárfestingar

Landssamtök lífeyrissjóða og innviðaráðuneytið efndu í byrjun febrúar 2023 til málþings um innviðafjárfestingar. Yfirskriftin var Fjármögnun framfara í þágu þjóðar og áhugi fyrir málefninu reyndist mikill.

Ég er ekki í vafa um að verkefni og áskoranir varðandi innviðafjárfestingar verða ofarlega á baugi í umræðum og ákvörðunum forystusveita lífeyrissjóða næstu ár og áratugi. Mörg brýn og risavaxin verkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila á mörgum sviðum eru þegar komin á biðlista fjármögnunar og framkvæmda. Það á bæði við um nýfjárfestingar og viðhald eldri fjárfestinga sem gætu gefið góða ávöxtun. Viðfangsefnið er í hnotskurn að útfæra samvinnuverkefni hins opinbera og einkageirans/lífeyrissjóðanna í þágu almennings.

Hvalfjarðargöngin eru dæmi um afar vel heppnaða innviðafjárfestingu þar sem einkafyrirtæki samdi um að annast undirbúning, framkvæmdir og rekstur samgöngumannvirkis í 20 ár gegn veggjaldi og skila því síðan skuldlausu til ríkisins. Lífeyrissjóðir geta með stolti horft til síns þáttar við fjármögnunina.

Í góðu formi á eftirlaunaaldri

Sjóðurinn stóð á þeim tímamótum þann 1. febrúar 2023 að eiga 67 ára afmæli. Eins og fjölmargir sem ná 67 ára aldri þá er sjóðurinn í sérstaklega góðu formi og sennilega sjaldan verið kraftmeiri í að vinna að nýsköpun og þróun í þjónustu við sjóðfélaga og ábyrgum fjárfestingum. Það er eftirtektarvert hvað starfsmannahópurinn gengur í þéttum takti með umhyggju, ábyrgð og árangur fyrir sjóðfélaga að leiðarljósi.

Ég vil fyrir hönd stjórnar óska sjóðfélögum velfarnaðar og þakka þeim og starfsfólki sjóðsins fyrir samskipti og samstarf á árinu 2022.

Jón Ólafur Halldórsson,

formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Ávarp framkvæmdastjóra

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Vitrir menn benda á að erfitt sé að spá, sérstaklega um framtíðina! Við leyfðum okkur að vona og trúa því að þegar veirufaraldri linnti færðust hlutir í „eðlilegra horf“ í starfsemi og umhverfi lífeyrissjóða. Það gekk aldeilis ekki eftir því snemma árs 2022 réðust Rússar með hervaldi á Úkraínu. Óvænt styrjaldarástand leiddi beint eða óbeint til þess að starfsumhverfi okkar varð jafnvel á ýmsan hátt enn lengra frá því að teljast eðlilegt ástand en það var á COVID-skeiðinu. Við urðum að taka því sem að höndum bar.

Sviptingar á fjármálamörkuðum

Verðbólga jókst verulega á Íslandi og víðast hvar í kringum okkur og hafði umtalsverð áhrif á afkomu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Markaðir hlutabréfa og skuldabréfa hérlendis og erlendis hafa verið erfiðir, meðal annars vegna hækkandi vaxta. Verð á flestum fjármálamörkuðum fór lækkandi. Afleiðingarnar birtast í tölum um að verðmæti eignasafns sjóðsins hafi lækkað um 3,6% og að tryggingafræðileg staða hafi verið neikvæð um 5,6% í lok árs 2022.

Fyrir langtímafjárfesti á borð við lífeyrissjóð er sem fyrr mun marktækara að líta til ávöxtunar eigna til lengri tíma en eins árs. Þannig nam raunávöxtun eigna sameignardeildar LV að jafnaði 4,9% undanfarin fimm ár og 5,3% undanfarin tíu ár.

Breytingar á réttindum sameignardeildar

Í starfseminni ber annars hæst að í byrjun árs 2023 tóku gildi margvíslegar breytingar á samþykktum sjóðsins sem fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti fyrir áramót. Kjarni breytinga er sá að lífeyrisgreiðslur aukast og áunnin lífeyrisréttindi sömuleiðis. Þarna voru tekin stór skref sem sést best á því að lífeyrisgreiðslur sjóðsins jukust að raunvirði um 35% frá byrjun árs 2021 til loka árs 2022.

Áframhaldandi þróun í starfsemi sjóðsins

Sjóðurinn nýtur þess að hafa á sínum snærum öflugt starfsfólk með mikla þekkingu og reynslu á sínum sviðum. Aukið var við þann mannauð á árinu með því að fjölga stöðugildum í eignastýringu, áhættustýringu, fræðslumálum og kynningarmálum. Sama á við um þá hlið starfseminnar er snýr að ábyrgum fjárfestingum og miklu ESB-regluverki sem er í pípunum og innleitt verður hér á landi á allra næstu misserum.

Allt ber þetta að sama brunni, markmiðið er að auka þjónustu við sjóðfélaga og styrkja ímynd sjóðsins enn frekar í samfélaginu.

Stöðugt er unnið að því að þróa stafræna starfsemi til að gera öll samskipti við sjóðfélaga eins skilvirk og skjót og kostur er, hvort heldur varðar umsóknir um eftirlaun/lífeyri, lánsumsóknir eða greiðslumat. Núna í janúar 2023 var tekið í gagnið svokallað CRM-kerfi, sem er stjórnun viðskiptatengsla og heldur utan um öll samskipti og samband við fyrrverandi, núverandi og verðandi viðskiptavini og sjóðfélaga.

Afgreidd voru liðlega 1.300 sjóðfélagalán á árinu, að upphæð liðlega 20 milljarðar króna. Aðeins einu sinni áður hefur sjóðurinn lánað meira í sögu sinni. Alls eru nú útistandandi um 6.300 lán að upphæð um 109 milljarðar króna.

Þá vil ég nefna að lífeyrissjóðurinn fékk á árinu vottun á jafnlaunakerfi sínu samkvæmt jafnlaunastaðli íST85:2012. Áður hafði sjóðurinn fengið jafnlaunavottun VR, fyrstur lífeyrissjóða. Það gerðist árið 2014.

Síðast en ekki síst er við hæfi að rifja upp hér á þessum vettvangi að sjóðurinn hlaut í júní viðurkenningu Viðskiptaráðs Íslands, Stjórnvísi og Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, fyrir sjálfbærniskýrslu ársins. Umsögn dómnefndar er skýr og bæði örvandi og hvetjandi leiðarvísir um upplýsingamiðlun í framhaldinu:

Sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið. Í skýrslunni er farið yfir markmið, árangur og aðgerðir sjóðsins. Upplýsingarnar eru mælanlegar, samanburðarhæfar og viðeigandi fyrir starfsemi sjóðsins. Framsetning er skiljanleg og aðalatriði dregin fram á einlægan máta. Lífeyrissjóðir hafa gríðarleg áhrif í íslensku atvinnulífi, og því mikilvægt að aðrir lífeyrissjóðir taki sér upplýsingagjöf Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til fyrirmyndar.

Ég þakka sjóðfélögum og starfsfólki fyrir samskipti og samstarf á árinu 2022.

Guðmundur Þ. Þórhallsson

Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Einnig í þessum kafla:

  • Til að lýsa samverkandi þáttum í starfseminni hafa verið skilgreindar lykilauðlindir eða fjölþættir framleiðsluþættir (e. multi capitals) í rekstri LV sem stuðla að verðmætasköpun.

  • Þeir sem verða fyrir áhrifum af og geta haft áhrif á starfsemina.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

LV í hnotskurn

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

II. Lífeyrisafurðir