Tryggingastærðfræðingur gerir árlega tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Niðurstöðurnar eru yfirfarnar af stjórn og kynntar á ársfundi.
Tryggingastærðfræðingur sjóðsins er Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun hf. Hann er ráðinn af stjórn og hefur hlotið viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins.
Hvað felst í tryggingafræðilegri athugun
Í tryggingafræðilegri athugun er metið hvort jafnvægi sé á heildareignum og heildarskuldbindingum lífeyrissjóðsins. Þannig er annars vegar lagt mat á hreina eign sjóðsins til greiðslu lífeyris, ásamt reiknuðu núvirði áætlaðra framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga, og hins vegar núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og áætlaðra framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga. Ein helsta niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar er tryggingafræðileg staða. Hún segir til um getu sjóðsins til að standa undir lífeyrissréttindum sjóðfélaga.
Við núvirðisútreikning væntanlegs lífeyris og framtíðariðgjalda er reglum samkvæmt notuð 3,5% vaxtaviðmiðun umfram vísitölu neysluverðs.
Ítarlegar reglur um tryggingafræðilega athugun eru í lögum nr. 129/1997, m.a. í 24. og 39. gr., reglugerð nr. 391/1998, samþykktum sjóðsins og leiðbeinandi reglum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um framkvæmd tryggingafræðilegra athugana.
Réttindi sjóðfélaga og væntur lífeyrir
Réttindi sjóðfélaga byggja á lögum og ákvæðum samþykkta sjóðsins, framtíðariðgjöldum og væntri framtíðarávöxtun. Sá lífeyrir sem sjóðfélagar vænta getur orðið lægri eða hærri eftir því hvernig til tekst að ávaxta eignir sjóðsins. Þá hafa ýmsir lýðfræðilegir þættir áhrif á getu sjóðsins til að greiða lífeyri þar sem sjóðurinn er sameignarsjóður sem veitir rétt til ævilangs lífeyris, auk tímabundins örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Þróun ævilengdar sjóðfélaga, lífslíkur, er sá lýðfræðilegi þáttur sem hefur mest áhrif á tryggingafræðilega athugun lífeyrissjóða. Aðrir lýðfræðilegir þættir sem hafa áhrif eru örorkutíðni, hjúskaparstaða og tíðni barneigna.
Samkvæmt lögum skal gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins ef tryggingafræðileg staða sjóðsins er hærri en 10% eða lægri en -10%. Sama gildir ef tryggingafræðileg staða er hærri en 5% eða lægri en -5% fimm ár í röð. Breytingarnar snúa þá að því að koma tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins nær jafnvægi með því að hækka eða lækka réttindi sjóðfélaga eftir því hvernig staða sjóðsins er á hverjum tíma. Sjóðfélagar bera þess vegna þá áhættu sem felst í að ávaxta iðgjöld og eignir sjóðsins sem og lýðfræðilega áhættu.
Staða sjóðsins
Tryggingafræðileg staða sameignardeildar er nú -5,6% samanborið við 3,5% árið 2021.
Breyting á tryggingafræðilegri stöðu á árinu 2022 úr 3,5% í -5,6% kemur til vegna neikvæðrar ávöxtunar á árinu, aukinnar verðbólgu, jöfnunar áunninna réttinda og nýrrar réttindatöflu vegna aðlögunar að hækkandi lífaldri sjóðfélaga, 12% hækkun áunninna réttinda og aukins makalífeyrisréttar.
Gerð er grein fyrir meginniðurstöðum tryggingafræðilegrar athugunar í yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sameignardeildar í ársreikningi og í skýringu 16.