II. Lífeyrisafurðir

Stóra myndin, tölur og gröf, sjálfbær lífeyrir, samþykktabreytingar og tryggingafræðileg staða.

  • Lífeyrisgreiðslur

    252
    milljarðar árið 2022

    Ævilangur lífeyrir 19.316

    Örorkulífeyrir 4.609

    Makalífeyrir 1.152

    Barnalífeyrir 151

  • Fjöldi lífeyrisþega

    22737
    árið 2022

    Ævilangur lífeyrir 15.683

    Örorkulífeyrir 4.800

    Makalífeyrir 1.674

    Barnalífeyrir 580

  • Launagreiðendur

    9788
    fjöldi árið 2022

    Sameign 9.788

    Séreign, almenn 1.884

    Séreign, tilgreind 1.693

Réttindadeildir LV eru þrjár, sameignardeild og tvær séreignardeildir.

Sameignardeild, A-deild, er langstærsta réttindadeildin. Í árslok 2022 voru sjóðfélagar 182.768 og námu eignir 1.146 milljörðum króna. Meginafurð sameignardeildar er ævilangur lífeyrir en svonefndur áfallalífeyrir felur einnig í sér mikilvæg tryggingaréttindi í formi örorku-, maka- og barnalífeyris.

Séreignardeildirnar eru tvær, B-deild fyrir almenna séreign og C-deild fyrir tilgreinda séreign. Eignir sjóðfélaga í séreign eru ávaxtaðar í fjórum eignasöfnum, Ævileiðum I, II og III sem og Verðbréfaleið sem er lokuð fyrir nýjum samningum.

Val um tilgreinda séreign

Tilgreind séreign er hluti af lögbundnum lífeyrissparnaði. Allir geta valið að ráðstafa allt að 3,5% af 15,5% iðgjaldinu í tilgreinda séreign sem er ávöxtuð í ávöxtunarleiðum séreignar. Tilgreinda séreignin myndar ekki rétt til ævilangs lífeyris eða áfallalífeyris fremur en önnur séreign. Fyrir þá sem eru fjárhagslega vel settir eða hafa þegar áunnið sér góð réttindi til ævilangs lífeyris er aukin séreign alla jafna góður kostur.

Yfirlit fyrir greidd iðgjöld og útgreiðslu lífeyris árin 2021 og 2022

  • Sjóðfélagar á lífeyri voru 22.737 í árslok 2022 og fjölgaði þeim um 5,6% frá fyrra ári.
  • Á árinu 2022 hófu 1.844 sjóðfélagar töku eftirlauna samanborið við 1.658 árið áður.
  • Þar af voru 729 eða 40% sjóðfélaga á lífeyri sem hófu töku lífeyris við 67 ára aldur.
  • Lífeyrir sameignardeildar í hlutfalli af iðgjöldum, svokölluð lífeyrisbyrði, nam 64% á árinu 2021 samanborið við 61,5% á árinu 2021.
  • Lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild námu 25.248 milljónum króna og hækkuðu um 14,9% frá fyrra ári.
SameignardeildSéreign almennSéreign tilgreind
202220212022202120222021
Iðgjöld í milljónum króna39.17935.771.6251.3741.06968
Heildarfjöldi sjóðfélaga48.89547.9363.5513.3183.2543.215
Fjöldi launagreiðenda9.7889.4281.8841.7491.6931.57
Fjöldi einstaklinga á lífeyri 20222021
Ævilangur lífeyrir15.68314.670
Örorkulífeyrir4.8004.603
Makalífeyrir1.6741.677
Barnalífeyrir580580
Samtals22.73721.530
Lífeyrisgreiðslur í milljónum króna20222021
Ævilangur lífeyrir19.31616.632
Örorkulífeyrir4.6094.097
Makalífeyrir1.1521.085
Barnalífeyrir171151
Samtals25.24821.965
Séreign2022202120222021
Greiðslur vegnaFjöldi Fjöldi M. kr.M. kr.
Aldurs709864648374
Lán og húsnæðissparnaður10431.041420382
Covid úrræði2622629189
Samtals1.7782.1311.097945

Yfirlit yfir fjölda sjóðfélaga, einstaklinga á lífeyri og fjárhæð lífeyrisgreiðslna síðastliðin tíu ár

Sameignardeild

Sameignardeildin er stærst af þremur réttindadeildum sjóðsins. Hér er yfirlit yfir þróun fjárhæðar inngreiðslna og lífeyrisgreiðslna, fjölda greiðandi sjóðfélaga og sjóðfélaga á lífeyri. Upplýsingar um eignir sameignardeildar eru í kafla IV um eignasöfn.

Iðgjöld til sameignardeildar

Greidd iðgjöld til sjóðsins hafa aukist stöðugt undanfarin ár. Hækkun milli áranna 2021 og 2022 var um 9,5%.

Fjöldi greiðandi sjóðfélaga

Fjöldi greiðandi sjóðfélaga hefur verið nokkuð áþekkur undanfarin ár þó nokkur fjölgun hafi orðið á árunum 2016 til 2019 sem hefur gengið að nokkru til baka á síðustu árum.

Heildarfjöldi sjóðfélaga sem eiga réttindi í sameignardeild

Alls eiga ríflega 180 þúsund sjóðfélagar réttindi í sameignardeild og hefur þeim fjölgað úr tæplega 150 þúsund síðastliðin tíu ár.

Fjöldi sjóðfélaga á lífeyri og fjárhæð lífeyrisgreiðslna

Sjóðfélagar á lífeyri voru 22.737 í árslok 2022 og fjölgaði þeim á árinu um 5,6% frá fyrra ári. Á árinu 2022 hófu 1.844 sjóðfélagar töku eftirlauna samanborið við 1.658 árið áður. Þar af voru 729 eða 39,5% sjóðfélaga sem hófu töku lífeyris við 67 ára aldur. Lífeyrir sameignardeildar í hlutfalli af iðgjöldum, svokölluð lífeyrisbyrði, nam 64,0% á árinu 2022 samanborið við 61,5% árið áður.

Lífeyrisgreiðslur úr sameignardeild námu 25.248 milljónum króna og hækkuðu um 14,9% frá fyrra ári.

Séreignardeild

Lífeyrissjóðurinn hefur starfrækt deild fyrir almenna séreign frá árinu 1999. Árið 2017 var stofnuð réttindadeild fyrir tilgreinda séreign í kjölfar ákvæðis í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og VR.

Iðgjöld til séreignardeildar

Iðgjöld til séreignardeildar námu 2.654 milljónum á árinu 2022 samanborið við 2.324 milljónir árið 2021.

Iðgjöld í séreign

Útgreiðslur úr séreignardeild

Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild námu alls 1.096 milljónum króna en voru 944 milljónir árið 2021. Á myndinni kemur fram hve stór hluti er vegna fasteigna-tengdra greiðslna eða fasteignasparnaðar, þ.e. innborgana á fasteignalán og greiðslur við fyrstu kaup. Þá námu útgreiðslur sem byggðu á sérstakri greiðslu vegna svonefndra Covid úrræða umtalsverðum fjárhæðum árið 2020 en úrræðið er fallið úr gildi. Undir lífeyrisgreiðslur vegna aldurs falla einnig útgreiðslur vegna fráfalls og örorku.

Sjálfbær fjármál sjóðfélaga

Upplýsingamiðlun LV leggur áherslu á að sjóðfélagar geti fengið áreiðanlegar upplýsingar hjá ráðgjöfum sjóðsins og á heimasíðu og sjóðfélagavef. Við upplýsingamiðlun er lögð sérstök áhersla á að:

  • upplýsingar séu aðgengilegar svo sjóðfélagi þekki eðli réttinda sinna, kosti þeirra og takmarkanir.
  • upplýsingamiðlun sé vönduð svo sjóðfélagi geti tekið upplýsta ákvörðun um lífeyrismál sín út frá eigin forsendum.

Stoðir sem skipta máli varðandi lífeyrisafurðir og sjálfbær fjármál

Fjárhagsleg sjálfbærni skiptir sjóðfélaga máli, það er að hafa nægilegar tekjur þegar hefðbundnum atvinnutekjum lýkur. Það gerist ekki af sjálfu sér að eftirlaun verði ásættanleg en með því að byrja nægilega snemma að huga að lífeyrismálum sínum, skipuleggja sig og spara getur lífeyrir orðið sjálfbær. Mikilvægar stoðir lífeyrissjóðsins sem styðja við sjálfbærni í fjármálum eftir starfsloki eru:

  • Ævilangur lífeyrir
  • Lífeyrissparnaður í séreign
  • Örorkulífeyrir
  • Vernd fjárhagslega tengdra aðila við fráfall í formi maka- og barnalífeyris

Félagsleg vernd Ákvæði laga um lífeyrissjóði og samþykktir LV tryggja ákveðið jafnvægi og mikilvæga vernd fyrir tiltekna hópa. Þannig er t.a.m. greitt iðgjald af hlutastörfum og atvinnuleysisbótum en sú er ekki alltaf raunin í öðrum löndum. Þá er tryggingavernd ekki háð sjúkrasögu, ættarsögu eða aldri. Iðgjöld veita þó meiri lífeyrisréttindi eftir því sem sjóðfélagi er yngri þegar iðgjöld eru greidd þar sem sjóðurinn hefur þau lengur til ávöxtunar.

Árleg tryggingafræðileg athugun sameignardeildar Árleg athugun tryggingastærðfræðings og ítarlegar reglur um jafnvægi eigna og skuldbindinga eru til þess fallnar að styrkja stoðir undir réttindum í sameignardeild til skemmri og lengri tíma litið.

Samþykktabreytingar 2022

Viðamiklar breytingar á samþykktum sjóðsins voru samþykktar á ársfundi hans í mars 2022. Þær voru í kjölfarið sendar fjármála- og efnahagsráðherra til staðfestingar. Ráðherra staðfesti breytingarnar í desember og tóku þær gildi um áramótin 2022/2023.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingastærðfræðingur gerir árlega tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Niðurstöðurnar eru yfirfarnar af stjórn og kynntar á ársfundi.

Tryggingastærðfræðingur sjóðsins er Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun hf. Hann er ráðinn af stjórn og hefur hlotið viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins.

Hvað felst í tryggingafræðilegri athugun

Í tryggingafræðilegri athugun er metið hvort jafnvægi sé á heildareignum og heildarskuldbindingum lífeyrissjóðsins. Þannig er annars vegar lagt mat á hreina eign sjóðsins til greiðslu lífeyris, ásamt reiknuðu núvirði áætlaðra framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga, og hins vegar núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og áætlaðra framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga. Ein helsta niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar er tryggingafræðileg staða. Hún segir til um getu sjóðsins til að standa undir lífeyrissréttindum sjóðfélaga.

Við núvirðisútreikning væntanlegs lífeyris og framtíðariðgjalda er reglum samkvæmt notuð 3,5% vaxtaviðmiðun umfram vísitölu neysluverðs.

Ítarlegar reglur um tryggingafræðilega athugun eru í lögum nr. 129/1997, m.a. í 24. og 39. gr., reglugerð nr. 391/1998, samþykktum sjóðsins og leiðbeinandi reglum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um framkvæmd tryggingafræðilegra athugana.

Réttindi sjóðfélaga og væntur lífeyrir

Réttindi sjóðfélaga byggja á lögum og ákvæðum samþykkta sjóðsins, framtíðariðgjöldum og væntri framtíðarávöxtun. Sá lífeyrir sem sjóðfélagar vænta getur orðið lægri eða hærri eftir því hvernig til tekst að ávaxta eignir sjóðsins. Þá hafa ýmsir lýðfræðilegir þættir áhrif á getu sjóðsins til að greiða lífeyri þar sem sjóðurinn er sameignarsjóður sem veitir rétt til ævilangs lífeyris, auk tímabundins örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Þróun ævilengdar sjóðfélaga, lífslíkur, er sá lýðfræðilegi þáttur sem hefur mest áhrif á tryggingafræðilega athugun lífeyrissjóða. Aðrir lýðfræðilegir þættir sem hafa áhrif eru örorkutíðni, hjúskaparstaða og tíðni barneigna.

Samkvæmt lögum skal gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins ef tryggingafræðileg staða sjóðsins er hærri en 10% eða lægri en -10%. Sama gildir ef tryggingafræðileg staða er hærri en 5% eða lægri en -5% fimm ár í röð. Breytingarnar snúa þá að því að koma tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins nær jafnvægi með því að hækka eða lækka réttindi sjóðfélaga eftir því hvernig staða sjóðsins er á hverjum tíma. Sjóðfélagar bera þess vegna þá áhættu sem felst í að ávaxta iðgjöld og eignir sjóðsins sem og lýðfræðilega áhættu.

Staða sjóðsins

Tryggingafræðileg staða sameignardeildar er nú -5,6% samanborið við 3,5% árið 2021.

Breyting á tryggingafræðilegri stöðu á árinu 2022 úr 3,5% í -5,6% kemur til vegna neikvæðrar ávöxtunar á árinu, aukinnar verðbólgu, jöfnunar áunninna réttinda og nýrrar réttindatöflu vegna aðlögunar að hækkandi lífaldri sjóðfélaga, 12% hækkun áunninna réttinda og aukins makalífeyrisréttar.

Gerð er grein fyrir meginniðurstöðum tryggingafræðilegrar athugunar í yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sameignardeildar í ársreikningi og í skýringu 16.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

I. Um starfsemina

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

III. Ráðgjöf og þjónusta