Samþykkta-breytingar 2022

Breytingar á samþykktum og réttindakerfi sjóðsins – aðlögun að hækkandi lífaldri sjóðfélaga

Viðamiklar breytingar á samþykktum sjóðsins voru samþykktar á ársfundi hans í mars 2022. Þær voru í kjölfarið sendar fjármála- og efnahagsráðherra til staðfestingar. Ráðherra staðfesti breytingarnar í desember og tóku þær gildi um áramótin 2022/2023. Inntak breytinganna er í grunninn þríþætt:

1. Breytingar sem varða þróun á lífeyrisafurðum sjóðsins.

2. Innleiðing á nýjum dánar- og eftirlifendatöflum og aðlögun réttindakerfis að hækkandi lífaldri.

3. Ýmsar lagfæringar og uppfærslur á einstaka ákvæðum sem fela í sér afmarkaðar eða engar efnislegar breytingar.

Ítarlegar upplýsingar er m.a. að finna í greinargerð með samþykktabreytingunum og kynningarefni frá ársfundi 2022, sem er aðgengilegt á vef sjóðsins. Eftirfarandi er yfirlit yfir inntak breytinganna byggt á greinargerð með samþykkta-breytingunum.

Breytingar  sem varða þróun á lífeyrisafurðum sjóðsins.

Fimm breytingar varðandi lífeyrisréttindi, aðrar en þær sem varða hækkandi lífaldur sjóðfélaga.

1) Upphaf ævilangs lífeyris fært til 60 ára aldurs: Til að auka sveigjanleika var heimild til töku ævilangs lífeyris færð til 60 ára aldurs en var áður 65 ár.

2) Árlegur endurreikningur lífeyris: Breytingin varðar sjóðfélaga sem hafa hafið töku ævilangs lífeyris en halda áfram að ávinna sér réttindi vegna launatekna. Nú er endurreikningur framkvæmdur árlega við upphaf hvers aldursárs. Áður var hann framkvæmdur tvisvar, við 67 og 70 ára aldur. Með þessu er betur komið til móts við sjóðfélaga sem eru í launuðu starfi samhliða töku ævilangs lífeyris.

3) Bætt örorkutrygging sjóðfélaga: Framreikningsréttur vegna örorkulífeyris er mikilvæg tryggingarvernd. Almenn skilyrði fyrir framreikningi eru m.a. þau að sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og 6 mánuði undanfarna 12 fyrir orkutap. Til að bæta stöðu sjóðfélaga virkjast framreikningur nú aftur eftir sex mánaða greiðslutíma í stað 36 áður ef greiðsluhlé má rekja til tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna eftir mati sjóðsins.

4) Lágmarksréttur til makalífeyris aukinn: Makalífeyrir var að lágmarki 36 mánuðir en við hann hefur nú bæst hálfur makalífeyrir í 24 mánuði. Breytingin eykur þannig afkomutryggingu eftirlifandi maka. Eins og fram kemur í 14. gr. samþykkta er makalífeyrir í mörgum tilvikum greiddur mun lengur en lágmarkið, t.a.m. til 23 ára aldurs yngsta barns.

5) Eingreiðslumörk vegna ævilangs lífeyris: Heimild til að greiða lág lífeyrisréttindi í sameignardeild í eingreiðslu var hækkuð.

Innleiðing nýrra dánar- og eftirlifendataflna vegna hækkandi lífaldurs

Alla 20. öldina hefur meðalævin sífellt verið að lengjast í nær öllum þjóðfélagshópum á Íslandi og víða erlendis. Þar með þurfa eignir lífeyrissjóða að endast lengur en áður og þar sem lífeyririnn dreifist á lengri tíma verður minni fjárhæð til ráðstöfunar á hverju ári. Í desember 2021 staðfesti fjármála- og efnahagsráðuneytið nýjar dánar- og eftirlifendatöflur með spá um lækkandi dánartíðni, sem taka mið af þessari þróun. Nýjar dánar- og eftirlifendatöflur gera ráð fyrir því að árið 2045 geti 67 ára karlar að jafnaði átt ólifuð tæplega 20,3 ár og jafngamlar konur rúmlega 21,6 ár. Þetta er 15,6% lengri lífeyrisaldur hjá körlum og 10,7% lenging hjá konum frá líftöflum sem byggja á reynslu áranna 2014-2018, miðað við lífeyristökualdur 67 ára.

Mat á lífslíkum sjóðfélaga er ein mikilvægasta forsendan við mat á skuldbindingum lífeyrissjóða og er auk þess mikilvæg til að tryggja að jafnræði ríki á milli aldurshópa hjá sjóðunum. Sé ekki stuðst við lífslíkur með framtíðarspá er hætta á að lífeyrisskuldbindingar allra sjóðfélaga séu vanmetnar, meira vegna yngri sjóðfélaga en þeirra sem eldri eru. Framtíðarspá sem tekur tillit til lækkandi dánartíðni er því forsenda þess að tryggja kynslóðajafnræði meðal sjóðfélaga.

Á þessum grundvelli voru gerðar eftirfarandi þrjár breytingar á réttindakerfi sameignardeildar sem aðlaga það að nýjum viðmiðum fyrir lífaldur:

i. Ný réttindatafla tók við af eldri töflu, þar sem ávinnsla mánaðarlegs lífeyris lækkar miðað við eldri töflu, en gert er ráð fyrir að sjóðfélagar lifi lengur og þeir fái því greiddan ævilangan lífeyri (ellilífeyri) í lengri tíma.

ii. Áunnin réttindi voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækka til þess að mæta lengri ævi, mismikið eftir aldri. Mest breyting er hjá yngstu sjóðfélögunum sem áætlað er að muni ná hæstum aldri og lækkunin er svo minni eftir því sem sjóðfélagar eru eldri. Lækkunin er minnst hjá sjóðfélögum sem eru 65 ára og eldri en sá hópur er kominn með rétt til töku ævilangs lífeyris (ellilífeyris). Heildarvirði réttinda hvers sjóðfélaga eru óbreytt en lífeyririnn þarf að endast sífellt fleiri mánuði og ár eftir því sem sjóðfélaginn er yngri.

iii. Þá voru áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild hækkuð um 12%, að frátöldum barnalífeyri.

Lífeyrisgreiðslur hækka

Samanlögð áhrif framangreindra réttindabreytinga á lífeyrisgreiðslur eru að þær hækka um 7,18% hjá öllum sjóðfélögum sem höfðu náð aldri til að hefja töku ævilangs lífeyris, þ.e. 65 ára og eldri. Sama hækkun gildir fyrir örorku- og makalífeyri, þó háð niðurstöðu tekjuskoðunar.

Áætlaður mánaðarlegur lífeyrir hjá sjóðfélögum yngri en 65 ára

Áhrifin eru ólík eftir árgöngum þar sem gert er ráð fyrir að yngri kynslóðir muni lifa lengur en þær sem á eftir koma. Þannig er um lækkun mánaðarlegra greiðslna að ræða hjá sjóðfélögum fæddum 1980 til 2005, á bilinu 0,2% til 3,5%. Áhrifin eru engin fyrir sjóðfélaga sem fæddir eru 1979 en hækkunin nemur frá 0,2% til 7,18% fyrir þá sjóðfélaga sem eru fæddir á árunum 1978 til 1956.

Rétt er að árétta að jöfnun réttinda felur ekki í sér skerðingu á verðmæti réttinda sjóðfélaga. Verðmæti réttindanna haldast óbreytt en þegar meðalævin lengist verða fjármunirnir vegna skuldbindinga sjóðsins að endast lengur en áður.

Um athugasemdir við breytingar á réttindakerfi sameignardeildar

Eins og kunnugt er og vikið er að í skýrslu stjórnar tók staðfesting samþykktabreytinga mun lengri tíma í meðförum stjórnvalda en venjan er og gert var ráð fyrir. Kom það m.a. til af því að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerði nokkrar efnislegar athugasemdir við inntak breytinganna. Þær varða einkum þrjú atriði; lágmarkstryggingavernd sameignardeildar, umreikning áunninna réttinda vegna hækkandi lífaldurs og útfærslu á nýjum réttindatöflum fyrir framtíðarréttindaávinnslu. Auk þess komu fram athugasemdir við útfærslu breytinganna frá sjóðfélaga sem hann gerði m.a. grein fyrir á ársfundi LV í mars 2022.

Í svari LV til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna athugasemda fjármálaeftirlitsins kom m.a. fram að LV teldi samþykktabreytingarnar uppfylla lagaskilyrði. Í því sambandi var m.a. vísað til greiningar sjóðsins, umsagnar tryggingastærðfræðings sjóðsins og lögfræðiálita sem unnin voru fyrir sjóðinn.

Niðurstaða ráðuneytisins að fengnum framangreindum athugasemdum og greinargerðum var sú að samþykktirnar væru í samræmi við lög og í desember staðfesti ráðherra samþykktabreytingarnar og tóku þær gildi um sl. áramót eins og að framan greinir.

Umsögn tryggingastærðfræðings um réttindabreytingarnar

Framangreindar samþykktabreytingar LV voru eðli málsins samkvæmt unnar í nánu samstarfi og á grundvelli ráðgjafar tryggingastærðfræðings lífeyrissjóðsins, Benedikts Jóhannessonar hjá Talnakönnun hf., og annarra sérfræðinga fyrirtækisins. Eftirfarandi er umfjöllun tryggingastærðfræðings um forsendur og inntak breytinganna.

Um aðdraganda breytinga á réttindakerfi sameignardeildar

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er almennt byggt á þeim fjármunum sem sjóðfélagar hafa greitt í sjóðina og ávaxtast hafa í áranna rás. Sjóðirnir eiga engan bakhjarl. Sjóðfélaginn er hvorki varinn fyrir fjárhagslegum áföllum sem sjóðurinn kann að verða fyrir né lýðfræðilegum breytingum, svo sem lengingu ævinnar.

Í dánar- og eftirlifendatöflum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga, sem staðfestar voru af fjármála- og efnahagsráðherra í desember 2021, er í fyrsta sinn spá um mismikla lengingu meðalævinnar eftir aldri, þannig að sérhver árgangur lifi lengur en sá sem kom næstur á undan. Tryggingafræðilegar athuganir ber að miða við þær töflur sem í gildi eru á hverjum tíma. Mánaðarleg ávinnsla skal reiknuð út frá því hve langan tíma ætla má að sjóðfélagar séu á lífeyri miðað við töflurnar hverju sinni. Nýju töflurnar leiddu til þess að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða versnaði um tæplega 10% af jafnaði, mismikið eftir aldurs- og kynjasamsetningu sjóða.

Hefði ekkert verið að gert gæfu réttindatöflur lífeyrissjóða væntingar um of mikinn lífeyri og því myndu sjóðir lenda í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim. Slíkt aðgerðaleysi myndi til lengdar bitna á yngri sjóðfélögum því sjóðurinn væri að greiða of háan lífeyri og ganga þannig óhóflega á eignir. Þess vegna er eðlilegt að lengri lífaldur leiði til þess að réttindi til mánaðarlegra greiðslna minnki í samræmi við lenginguna. Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur markað þá stefnu að réttindatöflur verði endurskoðaðar í framtíðinni í hvert skipti sem nýjar dánar- og eftirlifendatöflur verði gefnar út og metið hvort tilefni sé til breytinga á réttindaávinnslu.

Sú hugsun að lengri lífeyrisaldur leiði til lægri mánaðarlegra greiðslna er vel þekkt í nær öllum lífeyrissjóðum á Íslandi. Hjá þeim er lífeyristökualdur sveigjanlegur, oft frá 60 til 80 ára aldri, en sá sem tekur lífeyrinn síðar fær hærri mánaðarlegar greiðslur en sá sem byrjar fyrr fær lægri mánaðarlegar greiðslur. Engum dettur í hug að þessi tilfærsla sé skerðing eða aukning á réttindum.

Viðbrögð vegna hækkandi lífaldurs

Til þess að bregðast við lakari stöðu lífeyrissjóðs þarf að gæta sanngirni og meðalhófs og að ekki sé á einhvern hóp sjóðfélaga hallað við breytingarnar. Sjóðir þurfa að huga sérstaklega að stöðu einstaklinga sem hafa nú þegar hafið töku lífeyris. Þeir eru sjaldan í aðstöðu til þess að bregðast við með meira vinnuframlagi.

Vegna þess að breytingarnar koma misjafnlega við árgangana var eðlilegt að aðgerðir lífeyrissjóðsins tækju mið af þeirri staðreynd. Ósanngjarnt hefði verið að breyta rétti allra sjóðfélaga til mánaðarlegs lífeyris jafnt, því þá væru í raun réttindi þeirra elstu skert en þeirra yngstu aukin, þvert á niðurstöður spárinnar. Segjum sem dæmi að meðalbreytingin yfir alla árganga hafi leitt til 8% lakari stöðu. Hefði verið gripið til 8% flatrar lækkunar mánaðarlegra réttinda allra hefði það lækkað greiðslur til níræðs lífeyrisþega, sem ævin lengist nánast ekkert hjá samkvæmt nýju töflunum, til þess að ekki þyrfti að lækka tvítugan sjóðfélaga sem yrði fjórum árum lengur á lífeyri en áður var reiknað með. Slík breyting færir réttindi frá þeim eldri til þeirra yngri.

Til þess að koma í veg fyrir slíkt óréttlæti var miðað við verðmæti réttinda sjóðfélaganna eins og þau voru samkvæmt eldri lífslíkum og mánaðarleg réttindin samkvæmt nýju töflunum lækkuð þannig að verðmæti þeirra verði það sama og það var áður. Þannig eru verðmæti ekki færð til milli hópa. Hver heldur sínu enda mikilvægt að færa lífeyrisbyrðina ekki milli kynslóða.

Það er skoðun mín að vandað hafi verið til breytinganna hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna með því að skoða margar mögulegar leiðir og lögmæti þeirra og velja svo leið sem er í samræmi við lög, réttlát fyrir alla sjóðfélaga og tryggir styrk sjóðsins til framtíðar eftir því sem kostur er.

Benedikt Jóhannesson,

tryggingastærðfræðingur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Ýmsar lagfæringar og uppfærslur

Gerðar voru ýmsar breytingar á texta samþykkta sem geta talist lagfæringar eða uppfærsla á texta. Þannig var til dæmis verið að gera texta og uppbyggingu samþykktanna aðgengilegri, felld voru út nokkur ákvæði sem þjónuðu ekki lengur tilgangi sínum, ákvæði um verðtryggingu réttinda gerð skýrari og skerpt er á orðalagi á nokkrum stöðum. Sjá nánar í greinargerð með samþykktabreytingum á vef sjóðsins.