Skýrsla stjórnar

Inngangur

Skýrslu stjórnar með ársreikningi er ætlað að gefa greinargott yfirlit um starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) til viðbótar upplýsingum sem fram koma í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2022. Henni er þannig ætlað að gefa hagaðilum fyllri mynd af starfsemi sjóðsins. Þar er m.a. horft til núverandi og væntanlegra sjóðfélaga, aðildarsamtaka sjóðsins, stjórnvalda og útgefenda verðbréfa.

Efnistök taka mið af gildandi reglum um ársreikninga[1] lífeyrissjóða og ákvæðum laga um ársreikninga[2]. Við gerð skýrslu stjórnar og árs­- og sjálfbærniskýrslu er lögð áhersla á samþættingu[3] fjárhagslegra upplýsinga og ófjárhagslegra upplýsinga (sjálfbærniupplýsinga). Markmiðið er að gefa glöggt og upplýsandi yfirlit og til að halda yfirsýn er um ýmsa þætti vísað til meðfylgjandi árs­ og sjálfbærniskýrslu LV fyrir árið 2022. Því er
hér í ýmsum tilvikum vísað til nánari umfjöllunar í ársreikningi og árs­ og sjálfbærniskýrslu LV fyrir árið 2022.

Um nokkra mikilvæga þætti í innri starfsemi og ytra starfsumhverfi

Hvað innri starfsemi á árinu 2022 varðar voru gerðar umtalsverðar breytingar á samþykktum sjóðsins. Þær fólu meðal annars í sér hækkun lífeyrisgreiðslna frá og með janúar 2023, haldið var áfram að efla stafræna þjónustu og upplýsingamiðlun til sjóðfélaga, ákveðin skref voru stigin í greiningu kolefnisspors eignasafna og unnið að innleiðingu framsækinnar stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Þá voru tiltekin svið sjóðsins efld til að takast á við aukin og krefjandi verkefni.
Hvað ytri þætti varðar hafði innlend þróun verðbólgu mikil áhrif enda allar lífeyrisskuldbindingar sameignardeildar verðtryggðar. Þá er vert að nefna óhagfellda þróun á eignamörkuðum í kjölfar hækkandi stýrivaxta hérlendis og erlendis og vaxandi verðbólgu á heimsvísu. Stríðsátökin í Úkraínu juku auk þess alþjóðlega spennu og hrávöruverð hækkaði umtalsvert. Sterk teikn eru um að þróun varðandi loftslagsmál, líffræðilegan fjölbreytileika og aðra mikilvæga sjálfbærniþætti sé enn óhagstæð. Það kann að varða hagsmuni eignasafna og sjóðfélaga í náinni og fjarlægri framtíð.

Nánar um samþykktabreytingar

Um nýliðin áramót tóku gildi umfangsmiklar breytingar á samþykktum sjóðsins, einkum varðandi sameignardeild hans. Veigamikill þáttur þeirra lítur að því að laga réttindakerfi sameignardeildar LV að hækkandi lífaldri sjóðfélaga og nýjum viðmiðum við mat á lífaldri. Þá voru gerðar breytingar sem auka sveigjanleika við starfslok og styrkja makalífeyri og framreikningsrétt vegna örorku, auk nokkurra smærri breytinga. Sjá m.a. umfjöllun í kafla II um lífeyrisafurðir.

Staðfesting samþykktabreytinga tók mun lengri tíma í meðförum stjórnvalda en venjan er og gert var ráð fyrir. Kom það m.a. til af því að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerði nokkrar efnislegar athugasemdir við inntak breytinganna. Þær varða einkum þrjú atriði; lágmarkstryggingavernd sameignar-deildar, umreikning áunninna réttinda vegna hækkandi lífaldurs og útfærslu á nýjum réttindatöflum fyrir framtíðarréttindaávinnslu. Í umsögn LV til fjármála­ og efnahagsráðuneytisins vegna athugasemda fjármálaeftirlitsins kom m.a. fram að LV teldi samþykktabreytingarnar uppfylla lagaskilyrði. Í því sambandi var m.a. vísað til greiningar sjóðsins, umsagnar tryggingastærðfræðings sjóðsins sem og lögfræðiálita sem unnin voru fyrir sjóðinn. Til viðbótar
við umsögn fjármálaeftirlitsins hafa komið fram athugasemdir við útfærslu breytinganna frá sjóðfélaga sem hann gerði m.a. grein fyrir á ársfundi LV í mars 2022. Eftir samskipti LV við ráðuneytið staðfesti ráðherra samþykktabreytingarnar og tóku þær gildi um sl. áramót eins og að framan greinir.

Helstu rekstrarniðurstöður

Efnahagur

Meginstarfsemi LV lýtur að rekstri réttindakerfis sameignardeildar, séreignardeildar og umsýslu fimm eignasafna, þ.e. sameignardeildar og fjögurra ávöxtunarleiða séreignar. Nánar er gerð grein fyrir þessu í kafla III um lífeyrisafurðir sjóðsins, kafla IV um eignasöfn og í yfirliti þróunar nokkurra lykiltalna í rekstri, sjá kafla I um starfsemi.
Hvað eignasöfn sjóðsins varðar einkenndist afkoma þeirra á árinu mjög af erfiðum aðstæðum á eignamörkuðum. Verð hlutabréfa og skuldabréfa fór almennt lækkandi jafnt á innlendum markaði sem og á helstu erlendu mörkuðum sem LV starfar á. Hér hafa m.a. áhrif hækkandi vextir, aukin verðbólga, stríðsátök í Úkraínu, hækkandi orkuverð, óvissa á ýmsum hrávörumörkuðum og erfiðleikar í virðiskeðju fyrirtækja. Nánari upplýsingar er að
finna í kafla IV um eignasöfn LV, þróun stöðu og horfur.

Fjárfestingartekjur og rekstrarkostnaður Samanlagðar hreinar fjárfestingartekjur allra eignasafna voru neikvæðar um 42.441 m.kr. en voru jákvæðar um 173.906 m.kr. árið áður. Rekstrarkostnaður sjóðsins, þ.e. skrifstofu­ og stjórnunarkostnaður, nam 1.497 m.kr. en var 1.305 m.kr. árið áður. Rekstrarkostnaður í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 0,13% samanborið við 0,12% árið áður. Fjöldi stöðugilda á árinu var 54,2 samanborið við 51,1 stöðugildi árið áður. Heildarfjárhæð launa nam 813,8 m.kr., launatengd gjöld voru 196,7 m.kr. og aukning orlofsskuldbindingar milli ára var 20,1 m.kr.

Sameignardeild Sameignardeildin er stærsta eignasafn lífeyrissjóðsins og námu eignir hennar um 1.146 milljörðum króna í árslok samanborið við 1.175 milljarða árið áður. Nafnávöxtun deildarinnar var ­3,6%, samanborið við 16,9% nafnávöxtun árið áður. Að teknu tilliti til verðbólgu var hrein raunávöxtun þá neikvæð um 11,9%, samanborið við 11,5% jákvæða raunávöxtun árið 2021. Langtímaraunávöxtun er eftir sem áður góð eða 4,9% meðalávöxtun sl. 5 ár, 5,4% fyrir sl. 10 ár og 4,6% sl. 20 ár.
Þróun tryggingafræðilegrar stöðu reyndist ekki hagfelld á árinu. Í árslok var hún neikvæð um 5,6% samanborið við 3,5% jákvæða stöðu árið áður. Hér vegur þyngst neikvæð ávöxtun, hækkandi verðbólga þar sem allar skuldbindingar sameignardeildar eru verðtryggðar, og áhrif samþykktabreytinga.

Ávöxtunarleiðir í séreignardeildum eru fjórar. Þrjár þeirra, Ævileið I, II og III, mynda ævilínu með mismunandi áhættustig og sú fjórða er Verðbréfaleið sem fylgir sömu fjárfestingarstefnu og sameignardeild. Hún hefur ekki verið opin fyrir nýjum samningum frá árinu 2017. Nafnávöxtun allra ávöxtunarleiða séreignar var neikvæð að frátalinni Ævileið III. Ástæður neikvæðrar ávöxtunar eru í meginatriðum þær sömu og sameignardeildar. Langtímaávöxtun séreignarleiða er hins vegar jákvæð yfir lengri tíma. Ævileiðir I, II og III hafa nú verið starfræktar í fimm almanaksár og nemur fimm ára nafnávöxtun 7,3% fyrir Ævileið I, 6,2% fyrir Ævileið II, 3,5% fyrir Ævileið III og 9,8% fyrir Verðbréfaleið.

Eignasöfn séreignadeilda hafa vaxið undanfarin ár og námu í árslok 27,0 milljörðum samanborið við 26,5 milljarða árið áður og 12,5 milljarða fyrir fimm árum, þ.e. í árslok 2017.

Lífeyrisafurðir sjóðsins samanstanda af réttindum í sameignardeild og séreignardeildum (almenn séreign og tilgreind séreign). Þá er þjónusta, upplýsingagjöf og ráðgjöf óaðskiljanlegur þáttur lífeyrisafurða sjóðsins.

Vöxtur iðgjalda til sameignardeildar, fjölgun virkra sjóðfélaga og einstaklinga á lífeyri hélt áfram á árinu. Greiðslur til deildarinnar námu 39,4 milljörðum samanborið við 35,8 milljarða árið áður. Fjöldi virkra sjóðfélaga var 36.512 og fjölgaði úr 35.854 frá árinu áður á sama tíma og fjöldi einstaklinga á lífeyri fjölgaði í 22.215, samanborið við 21.044 árið áður. Þá fjölgar sífellt þeim einstaklingum á lífeyri sem hafa áunnið sér umtalsverð réttindi og leiðir það m.a. til þess að hlutfall lífeyrisgreiðslna af iðgjöldum, svonefnd lífeyrisbyrði, fer hækkandi ár frá ári. Hún var 64,0% árið 2022 samanborið við 61,5% árið áður.

Umhverfi

Það er nýmæli í starfsemi lífeyrissjóða að horfa með markvissum hætti til umhverfisþátta. Sú þróun leiðir af aukinni vitund, lagaþróun og aukinni þekkingu á mikilvægi þessa þáttar í starfsemi lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta.

Undanfarin misseri og ár hefur verið lögð áhersla á að auka þekkingu og færni innan sjóðsins á þessu sviði. Liður í því er útgáfa sjálfbærniskýrslu sem nú er í auknum mæli samþætt við fjárhagslega upplýsingamiðlun í skýrslu stjórnar og ársskýrslu og stefnt að því að halda áfram á sömu braut í takt við þróun reglna og viðmiða á þessu sviði. Fjallað er um þennan þátt víða í ársskýrslu sjóðsins. Þar er einkum vísað til kafla V um ábyrgar fjárfestingar, kafla VI um áhættustýringu og kafla VIII um sjálfbærni í starfsemi.

Hvað UFS upplýsingar (umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir) í rekstri sjóðsins varðar er m.a. vísað til kafla VIII um sjálfbærni í starfsemi LV.
Það er hins vegar svo að umhverfisáhrif af starfsemi LV ráðast nær alfarið af stýringu eignasafna sjóðsins. Þar er unnið að greiningu gagna og birtingu þeirra. Meðal helstu áskorana í þeim efnum er aðgengi að gögnum, að leggja mat á hversu áreiðanleg gögnin séu, að skilja hvað mælingarnar gefi til kynna og hvernig og hvort hægt sé að nýta sér þær við stýringu eignasafna, bæði hvað varðar ávöxtun og áhættu. Slíkt er skref í átt að nákvæmari upplýsingamiðlun og markmiðssetningu, forsenda nánari skilnings á þessum þáttum og frekari stefnumörkunar þeim tengdum. Það er sýn stjórnar að rétt sé að halda áfram á þessari braut í þágu skilvirkrar eigna­ og áhættustýringar, m.a vegna þróunar loftslags og vistkerfa og til undirbúnings innleiðingar
væntanlegra lagabreytinga. Varðandi væntanlegar lagabreytingar er m.a. vísað til stjórnarfrumvarps um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, sem nú er til meðferðar á Alþingi. Liður í þessari vegferð er innleiðing stefnu LV um ábyrgar fjárfestingar sem samþykkt var síðla árs 2021. Unnið var að innleiðingu stefnunnar á árinu 2022 en ljóst er að full innleiðing taki lengri tíma.
Árið 2021 var einnig sett stefna um útilokun fjárfestingarkosta úr eignasöfnum. Meðal útilokaðra fjárfestingarkosta eru fyrirtæki sem vinna tiltekna tegund jarðefnaeldsneytis og tekjur af þeirri framleiðslu eru umfram 5% af tekjum á ársgrundvelli, fyrirtæki sem eru í tiltekinni tóbaksframleiðslu, og fyrirtæki sem
rekja einhvern hluta tekna sinna til tiltekinna umdeildra vopna eða klasasprengja, jarðsprengja, sýkla­ og efnavopna, vopna sem innihalda skert úran, blindunarleyservopna, íkveikjuvopna og/eða ógreinanlegar agnir. Einnig falla þar undir fyrirtæki sem brjóta gegn viðmiðum UN Global Compact[4].

Samfélag

Aukin áhersla á samfélagslega þætti telst til nýmæla hjá lífeyrissjóðum hérlendis og jafnvel erlendis líka, líkt og gerst hefur með þá hlið starfseminnar er snýr að umhverfismálum. LV leggur áherslu á að fylgjast með þessari þróun og laga starfsemi sína að henni. Hér skiptast verkefni nokkuð á milli beins rekstrar LV annars vegar og áhrifa eignasafna á samfélagslega þætti hins vegar.

Rekstur Hvað beinan rekstur LV varðar þá felst áhersla á samfélagslega þætti einkum í mannauðsstefnu. Eins og fram kemur í umfjöllun um viðskiptalíkan sjóðsins í árs­- og sjálfbærniskýrslu er mannauður veigamikil stoð í starfseminni. Á árinu var fylgt eftir markaðri stefnu um að þróa áfram mannauð LV. Unnið var að verkefnum tengdum fræðslu, starfsþróun, umbótum á starfsaðstöðu og eftirfylgni við innleiðingu jafnlaunakerfis sjóðsins. Jafnlaunakerfi sjóðsins hlaut jafnlaunavottun á árinu til næstu þriggja ára. Umfjöllun um þessa þætti er að finna í kafla VIII um sjálfbærni í starfsemi, í árs-­ og sjálfbærniskýrslu.

Lífeyrisafurðir sjóðsins skipta máli þegar kemur að félagslegum þáttum. Víðtæk þátttaka launþega og sjálfsætt starfandi aðila í samtryggingarkerfi lífeyrissjóða er til þess fallin að bæta lífskjör eftir starfslok. LV leggur áherslu á þróun vöru og þjónustu sjóðsins á þessu sviði. Þannig voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins sem tóku gildi í lok árs 2022. Í þeim felst m.a. að svigrúm til töku lífeyris vegna aldurs var aukið, reglur varðandi þá sem halda áfram að vinna eftir að taka lífeyris hefst voru bættar, lágmarksréttindi til makalífeyris voru aukin, tíminn sem tekur að endurvinna sér aftur rétt á framreikningi vegna örorku­ eða makalífeyri, t.d vegna náms, var styttur og eingreiðslumörk lífeyris voru hækkuð. Þá hefur áhersla á ráðgjöf og upplýsingamiðlun um lífeyrismál verið aukin til muna og er stefnt að því að halda áfram á þeirri vegferð á komandi árum.
Eignasöfn Sögulega séð hafa lífeyrissjóðir og flestir aðrir stofnanafjárfestar einkum lagt áherslu á ávöxtun eigna að teknu tilliti til áhættu, áhættu sem einkum er metin í ljósi væntra sveifla í ávöxtun. Undanfarin misseri hefur áhersla verið aukin á samfélaglega þætti tengda stýringu eignasafna. LV fylgist með þeirri þróun og vinnur að því að byggja upp þekkingu og færni í þeim efnum.

Liður í aðgerðum varðandi félagslega þætti er stefna LV um útilokun fjárfestingarkosta úr eignasöfnum sem samþykkt var árið 2021. Meðal útilokaðra fjárfestingarkosta eru fyrirtæki sem brjóta gegn viðmiðum UN Global Compact. Þessi fyrirtæki brjóta gegn viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og grundvallarréttindi starfsfólks, til að mynda varðandi frjálsa aðild að félögum, gerð kjarasamninga, þvingað vinnuafl og misnotkun
barna sem vinnuafls. Hér er um mikilvæg atriði að ræða. Áfram verður fylgst með þróun laga og annarra þátta á þessu sviði.

Stefnumið og reglur LV um stjórnarhætti

Stefnumótun Árið 2021 vann stjórn ásamt stjórnendum að stefnumótun sjóðsins til ársins 2030. Í þeirri vinnu var mörkuð framtíðarsýn (e. vision) og leiðarljós (e. mission) í takt við fyrirliggjandi gildi sjóðsins (e. values). Vinna þessi grundvallast á hlutverki LV eins og það er markað í lögum og samþykktum sjóðsins, samhliða því sem lögð er áhersla á framsýni í rekstri hans. Með því er stefnt að því að efla starfsemi hans til lengri tíma litið og búa hann sem best undir viðfangsefni í ört breytilegu starfsumhverfi.
Stjórnarhættir Stjórn leggur áherslu á að fylgja eftir reglum og viðurkenndum viðmiðum varðandi stjórnarhætti. Liður í því er skilvirkt skipurit, liðsheild, viðeigandi innri reglur, innra eftirlit og aðhald frá innri og ytri endurskoðun sem og hagaðilum. Eftirfylgni felst m.a. í aukinni áherslu á upplýsingagjöf sem birtist í skýrslu stjórnar, árs­ og sjálfbærniskýrslu og með viðvarandi upplýsingagjöf sjóðsins. Þá framkvæmir stjórn reglulega mat á starfsháttum stjórnar.

Nánari upplýsingar varðandi stjórnarhætti í starfsemi LV er að finna í ítarlegri stjórnarháttayfirlýsingu sem fylgir kafla VIII í árs­ og sjálfbærniskýrslu sem og í kafla VI um áhættustýringu og kafla VII um stjórnarhætti og stjórnun.

Viðskiptalíkan LV

Viðskiptalíkan sjóðsins byggir á því meginhlutverki hans, samkvæmt framangreindum lögum og samþykktum sjóðsins, að:

  • taka við iðgjöldum sjóðfélaga sem mynda grundvöll réttinda.
  • ávaxta eignir sjóðsins í sameignar­ og séreignardeildum.
  • greiða út ævilangan lífeyri vegna starfsloka, áfallalífeyri í formi örorkulífeyris til sjóðfélaga og barna þeirra, sem og maka­ og barnalífeyri vegna fráfalls sjóðfélaga.
  • greiða út séreignarsparnað vegna aldurs, örorku eða fráfalls.

Þá veitir LV sjóðfélögum sínum einnig lán í formi fasteignaveðlána í samræmi við lánareglur á hverjum tíma. Viðskiptalíkan LV byggir á fyrirmyndum í leiðbeiningum „Integrated Reporting Framework“, sjá nánar umfjöllun í kafla I um starfsemi LV. Þar eru auðlindir sem sjóðurinn vinnur úr flokkaðar í sex flokka; fjármagn, mannauð, samfélag, náttúru og umhverfi, óefnislegar eignir og efnislegar eignir. Dregnir eru fram þeir þættir í starfseminni sem miða að því að skapa virði fyrir sjóðfélaga, þ.e. fjárfestingarstarfsemi, rekstur og þjónusta, lífeyrir og séreign, sem og reglur, stefnur og önnur viðmið. Þá er leitast við að gera grein fyrir virðisauka starfseminnar eftir auðlindum.Frá árinu 2020 hefur LV unnið að því að tengja rekstur við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Haghafar og mikilvægisgreining

Um haghafa LV

Frá því LV hóf að gefa út sjálfbærniskýrslu fyrir þremur árum síðan hefur sjóðurinn framkvæmt og upplýst um niðurstöður úr haghafagreiningu. Haghafar hafa verið skilgreindir sem einstaklingar, hópar eða lögaðilar sem verða fyrir áhrifum af starfsemi LV og geta haft áhrif á starfsemi sjóðsins. Greining haghafa auðveldar sjóðnum að vinna að og gæta þeirra hagsmuna sem honum er falið að sinna. Á árinu 2022 var haldið áfram að vinna að því að efla samskipti við haghafa með sérstaka áherslu á sjóðfélaga, iðgjaldagreiðendur og starfsfólk eins og nánar er gerð grein fyrir í kafla I um rekstur LV.

Um mikilvægisgreiningu

Samhliða greiningu og forkönnun á heimsmarkmiðunum við gerð sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2020, var gerð viðhorfskönnun meðal starfsfólks og stjórnar um stuðning við og áhrif á heimsmarkmiðin. Í upphafi árs 2022 var unnið áfram að mikilvægisgreiningu sjálfbærniþátta þar sem leitað var viðhorfa sjóðfélaga, stjórnar og starfsmanna LV varðandi það hvaða þættir í starfsemi sjóðsins væru mikilvægastir varðandi sjálfbæra þróun; efnahagsþætti, umhverfisþætti og félagslega þætti. Þá nýtir LV einnig aðrar greiningar og kannanir sem veita gagnlegar upplýsingar um viðhorf ýmissa haghafa sjóðsins. Þessar upplýsingar nýtast við að fylgja eftir stefnumótun LV og að þróa áfram starfsemi sjóðsins. Sjá nánar í kafla III um ráðgjöf og þjónustu sem og í kafla VIII um sjálfbærni í starfsemi LV, í árs-­ og sjálfbærniskýrslu 2022.

UFS mælingar

Síðastliðin þrjú ár hefur LV gefið út sérstaka sjálfbærniskýrslu samhliða ársskýrslu. Nú er sú leið farin, m.a. í takt við leiðbeiningar „Integrated reporting”, að samþætta upplýsingar um ófjárhagsleg atriði (sjálfbærniupplýsingar) við einstaka kafla ársskýrslunnar. Markmiðið er að gera upplýsingagjöfina markvissari og heildsteyptari. Í kafla VIII um sjálfbærni í starfsemi LV, í árs­ og sjálfbærniskýrslu eru hins vegar áfram upplýsingar um UFS þætti (Umhverfisþættir – Félagslegir þættir – Stjórnarhættir). Þær upplýsingar eru annars vegar settar fram í almennri umfjöllun og hins vegar í töflum. Upplýsingagjöfin byggir m.a. á leiðbeiningum Nasdaq. Þá birtir sjóðurinn einnig upplýsingar í töflu eftir leiðbeiningum GRI (Global Reporting Initiative).

Hvað áhrif eignasafna LV á samfélagslega og umhverfislega þætti varðar vinnur LV að innleiðingu stefnu um ábyrgar fjárfestingar og fylgir eftir stefnu um útilokun á fjárfestingar-kostum í eignasafni. Þá hóf sjóðurinn vinnu við greiningu á kolefnisspori sameignardeildar á árinu. Þá hefur verið ákveðið að greina ógnanir og tækifæri fyrir eignasöfn tengda þróun loftslagsmála í samræmi við aðferðafræði TCFD (Task Force on Climatereated Financial Disclosures). Varðandi þessa þætti er vísað til kafla V um ábyrgar fjárfestingar og kafla VI um áhættustýringu, í árs­ og sjálfbærniskýrslu.

Það er mat stjórnar að þessi vegferð skipti máli til að efla starfsemi sjóðsins, gera sér betur grein fyrir tækifærum og ógnunum tengt fjárfestingarstarfsemi sjóðsins og laga hann að breyttu starfsumhverfi og regluverki.

Áhætta og óvissa

Varðandi áhættu og óvissuþætti í starfsemi LV vísast til ítarlegra skýringa í skýringu 19–23 við ársreikning sjóðsins og kafla VI um áhættustýringu í árs-­ og sjálfbærniskýrslu.

Yfirlýsing stjórnar og framkvæmdastjóra

Samkvæmt bestu vitneskju er það álit okkar að ársreikningur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gefi glögga mynd af rekstrarafkomu lífeyrissjóðsins á árinu 2022, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hans þann 31. desember 2022. Jafnframt er það álit okkar að ársreikningurinn og skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra geymi glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri sjóðsins, stöðu hans í árslok og lýsi helstu áhættuþáttum sem lífeyrissjóðurinn býr við. Frekari upplýsingar sem tengjast áhættustýringu má finna í skýringum 19–23 í ársreikningnum og kafla VIx í árs-­ og sjálfbærniskýrslu.

Stjórn og framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa í dag farið yfir ársreikning sjóðsins fyrir árið 2022 og staðfesta hann með undirritun sinni. Ársreikningurinn verður lagður fram og kynntur á næsta ársfundi sjóðsins.

Reykjavík, 23. febrúar 2023
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

___________________________________________________________________________________________

[1] Reglur um ársreikninga lífeyrissjóða, nr. 335/2015, með síðari breytingum, 50. gr., útgefnum af Fjármálaeftirlitinu (nú Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.

[2] Lög um ársreikninga nr. 3/2006, með síðari breytingum. Einkum grein 65, 66 og 66, b til E.

[3] Hér er stuðst við leiðbeiningar “Integrated Reporting“ um samþætta skýrslugerð.

[4] The Ten Principles | UN Global Compact

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

VIII. Sjálfbærni í starfseminni