Árið 2022 reyndist afar krefjandi á eignamörkuðum. Nafnávöxtun sameignardeildar var -3,5%[11] en árin á undan hafa verið einkar góð í ávöxtunarlegu tilliti og eru árin 2019 til og með 2021 ein þau bestu í sögu sjóðsins.
Sé horft til ávöxtunar eignaflokka á árinu 2022 samanborið við 2021 koma enn betur í ljós þær miklu breytingar sem urðu á milli ára.
Innlend skuldabréf í eignasafni sjóðsins hækkuðu um 6 til 7% á árinu þrátt fyrir hækkandi vaxtastig sem öllu jöfnu leiðir til verðlækkana á skuldabréfum. Skýringuna má einkum finna í vægi verðtryggðra skuldabréfa, en hlutfall þeirra nemur um 68% af skuldabréfasafni sjóðsins í árslok. Auk þess er um 79% af innlendri skuldabréfaeign LV færð á kaupávöxtunarkröfu og því ónæm fyrir markaðsbreytingum. Breyting á gengi gjaldmiðla gagnvart ISK hafði jákvæð áhrif á ávöxtun erlendra eigna á árinu og er ávöxtun ársins tæplega 3% betri en hún hefði annars verið sé miðað við óbreytt gengi gjaldmiðla.
Eign sjóðsins í skráðum og óskráðum hlutabréfum er í eignaflokkum 4 og 6 og þar má glögglega sjá viðsnúninginn á milli ára. Töluverð lækkun var á hlutabréfamörkuðum eins og rakið var í markaðskaflanum hér á undan og bæði innlend og erlend hlutabréfasöfn sjóðsins bera þess merki. Nokkur hluti hlutabréfaeignar sjóðsins er óskráður og sá hluti skilaði mun betri ávöxtun en skráð hlutabréf á liðnu ári. Eðli slíkra eigna er þó verðmat sem breytist hægar en í tilfelli skráðra eigna og því má leiða líkum að því að hluti þeirra eigna eigi eftir að lækka að óbreyttu.
Sé tekið mið af ofangreindu kemur ekki á óvart að framlag hlutabréfa til ávöxtunar var neikvætt um 6,1% eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Á móti kemur að innlend skuldabréf höfðu jákvæð áhrif um 2,3% og aðrar erlendar eignir höfðu lítilleg jákvæð áhrif en þar er bæði um að ræða erlenda skuldabréfasjóði og innviðasjóði.
Um 44% af eignum sameignardeildar er ávaxtaður í erlendri mynt í árslok 2022 samanborið við rúmlega 45% í árslok 2021. Eins og fram kemur í fjárfestingarstefnu sjóðsins er lögð áhersla á áhættudreifingu í eignasafninu og erlendar eignir eru mikilvægur þáttur í því samhengi. Sé horft til undirliggjandi eigna sjóðsins má þannig sjá að eignasafnið tekur nú til ríflega 6 þúsund eigna sem dreifast á 81 land og 6 heimsálfur.
Eignasamsetning sameignardeildar tók nokkrum breytingum á árinu eins og sést á eftirfarandi mynd. Vægi hlutabréfa í eignasafninu lækkaði úr 61% í 56%, einkum vegna lækkunar á hlutabréfamörkuðum. Hér á eftir er farið yfir staka eignaflokka og stiklað á stóru þegar kemur að liðnu ári.