Eignasöfn

Leiðarljós, staða, þróun og horfur í sameign og séreign

Eignasöfn sjóðsins eru fimm, eitt eignasafn fyrir sameignardeild og fjögur fyrir séreignardeildir. Eignir safnanna námu 1.173 milljörðum króna í árslok 2022.

Sameignardeild

Sameignardeild er stærsta eignasafn LV. Þar eru ávaxtaðar eignir sem ætlað er að standa undir lífeyrisgreiðslum úr sameignardeild í formi ævilangs lífeyris og áfallalífeyris. Heildareign safnsins nam 1.146 milljörðum króna í árslok 2022 og nafnávöxtun ársins var neikvæð um 3,6% sem samsvarar -11,9% raunávöxtun.

Meðalávöxtun í %NafnávöxtunRaunávöxtun
5 ár9,9%4,9%
10 ár8,9%5,3%
20 ár9,5%4,6%
Ávöxtun 2022-3,6%-11,9%
Yfirlit yfir hreina ávöxtun, rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá fjárfestingartekjum

Eignasafn sameignardeildar er annað stærsta eignasafn íslenskra lífeyrissjóða og nema eignir þess um 19% af heildareignum lífeyrissjóðakerfisins miðað við árslok 2021. Samanborið við íslenskt hagkerfi er eignasafnið stórt.

Eignasafnið hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár, einkum vegna góðrar ávöxtunar. Þannig nemur samanlagður hagnaður (fjármunatekjur) undanfarinna 10 ára um 635 milljörðum króna[3] og því lætur nærri að ríflega helmingur af eignum sameignardeildar í árslok 2022 sé tilkominn vegna hagnaðar undanfarinna 10 ára.

hrein eign sameignardeildar í árslok

Undanfarin tíu ár hefur vægi hlutabréfa aukist sem hlutfall af eignasafni sameignardeildar. Það felur í sér meiri áhættu en ella en á móti má vænta hærri ávöxtunar til lengri tíma litið. Gerð er ítarlegri grein fyrir áherslum við eignastýringu í kaflanum Um nokkur mikilvæg leiðarljós við umsýslu eignasafna hér á eftir. Auk þess eru greinargóðar upplýsingar um áherslur og markmið við stýringu eignasafna sjóðsins í fjárfestingarstefnu sem er aðgengileg á vef sjóðsins.

vægi hluta og skuldabréf í eignasafni

Til að draga úr áhættu eignasafnsins tengdu íslensku hagkerfi hefur verið lögð áhersla á aukið vægi erlendra eigna í eignasafninu. Um 44% af eignum voru fjárfest utan Íslands í árslok 2022 samanborið við 27% fyrir tíu árum síðan eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Þróun á vægi innlendra og erlendra eigna sameignardeild

Aukið vægi erlendra eigna skilar sér í dreifðara eignasafni sem í voru rúmlega sex þúsund eignir í lok árs 2022. Eignirnar skiptast á fjölda landsvæða eins og sést á eftirfarandi mynd.

landfræðileg skipting eigna allra eignasafna

Torvelt er að auka vægi erlendra eigna umfram 45% miðað við núverandi löggjöf sem að óbreyttu setur sjóðnum skorður við stýringu eignasafna út frá hagkvæmustu samsetningu. Alþingi hefur undanfarin misseri haft til umfjöllunar frumvarp sem ætlað er að heimila aukið vægi erlendra eigna en frumvarpið var enn ósamþykkt í árslok 2022.

Um nokkur mikilvæg leiðarljós við umsýslu eignasafna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er langtímafjárfestir. Það þýðir að markmið eignasafns sameignardeildar er að ná sem hæstri ávöxtun til lengri tíma litið að teknu tilliti til áhættu. Stýring eignasafnsins er strategísk í eðli sínu (horfir til lengri tíma) en um leið er beitt taktískri stýringu við stýringu eigna. Taktísk stýring felur í sér skemmri tíma áherslur í eignasafni út frá mati á markaðshorfum til skemmri tíma.

Markmið um háa ávöxtun til lengri tíma felur öllu jöfnu í sér hærra hlutfall hlutabréfa eins og raunin er í eignasafni sameignardeildar en þar hefur vægi hlutabréfa af heildareignum verið á bilinu 49% til 61% undanfarin 5 ár. Áhrif þess eru hærri ávöxtun þegar markaðir hækka (eins og raunin hefur verið undanfarin ár) en að sama skapi lægri ávöxtun til skemmri tíma litið eins og raunin var á liðnu ári. Eðli hlutabréfa í eignasafni er meiri áhætta (sveiflur í ávöxtun) en jafnframt betri ávöxtun til lengri tíma litið og það hefur verið raunin hjá sameignardeild.

Einn af hornsteinum eignastýringar LV er áhersla á ábyrgar fjárfestingar. Sjóðurinn gaf út stefnu um ábyrgar fjárfestingar á árinu 2021 og þar eru tíundaðar áherslur sjóðsins í þessum efnum. Ábyrgar fjárfestingar snúast fyrst og fremst um viðbótar áhættugreiningu á fjárfestingarkostum út frá umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Slík greining kemur til viðbótar við hefðbundna fjármálagreiningu og styður því við ákvörðunartöku. Innleiðingu á stefnu um ábyrgar fjárfestingar er ekki lokið hjá sjóðnum. Á árinu var m.a. ráðinn sérfræðingur í sjálfbærnimálum á sviði eignastýringar. LV er fyrsti innlendi sjóðurinn sem stígur það skref að ráða sérstakan starfsmann í slíkt starf. Nánar er fjallað um áherslur sjóðsins í þessum efnum í kafla V ábyrgar fjárfestingar.

Verðbréfamarkaðir 2022

Undanfarinn áratug hefur alþjóðlegt efnahagslíf einkennst af lítilli verðbólgu og lágvaxtaumhverfi en viðsnúningur varð á þeirri þróun í fyrra. Eftir innrás Rússa í Úkraínu jókst óvissa í efnahagsmálum og alþjóðlegar aðfangakeðjur urðu fyrir skakkaföllum. Töluvert umrót hefur skapast á alþjóðlegum hrávöru- og orkumörkuðum með tilheyrandi verðhækkunum. Í kjölfarið hefur verðbólga um allan heim aukist enn frekar og hefur verðbólga í viðskiptalöndum Íslands ekki verið meiri í fjóra áratugi[4]. Til að sporna við síversnandi verðbólguhorfum og aukinni spennu á vinnumörkuðum hafa vextir seðlabanka helstu ríkja heimsins hækkað mikið á skömmum tíma. Alþjóðlegur hagvöxtur gaf eftir á seinni hluta ársins 2022 og hagvaxtarhorfur til næstu ára hafa versnað.

Horfur næstu árin

Óvissa er um efnahagsþróun á næstunni en auknar líkur eru á efnahagssamdrætti á árinu 2023, sérstaklega í Evrópu. Stríðsátökin í Úkraínu höfðu í för með sér orkukreppu í Evrópu þar sem verð á gasi varð allt að fjórfalt hærra í fyrra en árið á undan[10]. Ef orkuskorturinn verður viðvarandi gæti það haft verulega neikvæð áhrif á hagvöxt í álfunni. Hærri fjármagnskostnaður beggja vegna Atlantshafsins og minnkandi efnahagsumsvif munu því áfram einkenna þróun fjármálamarkaða á nýju ári. Innlent hagkerfi stendur þó vel og að mörgu leyti betur en í flestum viðskiptaríkjum landsins. Skuldsetning í hagkerfinu er hófleg, hvort sem litið er til ríkissjóðs, fyrirtækja eða heimila og útflutningsgreinar okkar standa vel eftir hækkun á verði útflutningsafurða. Einnig er jákvætt að innlend hlutabréf voru færð upp í flokk nýmarkaða (e. Secondary Emerging) í gæðamati hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE.

Það má gera ráð fyrir áframhaldandi verðsveiflum á eignamörkuðum á næstu misserum. Undanfarin ár hafa seðlabankar sýnt að þeir eru fljótir að styðja við hagkerfin þegar illa gengur að viðhalda fjármálastöðugleika og/eða hagvexti. Að lokum má nefna að eftir lækkanir á eignamörkuðum undanfarið hefur verðlagning hlutabréfa og skuldabréfa orðið hagstæðari.

Um eignasafn sameignardeildar

Árið 2022 reyndist afar krefjandi á eignamörkuðum. Nafnávöxtun sameignardeildar var -3,5%[11] en árin á undan hafa verið einkar góð í ávöxtunarlegu tilliti og eru árin 2019 til og með 2021 ein þau bestu í sögu sjóðsins.

árleg nafnávöxtun sameignardeildar

Sé horft til ávöxtunar eignaflokka á árinu 2022 samanborið við 2021 koma enn betur í ljós þær miklu breytingar sem urðu á milli ára.

Innlend skuldabréf í eignasafni sjóðsins hækkuðu um 6 til 7% á árinu þrátt fyrir hækkandi vaxtastig sem öllu jöfnu leiðir til verðlækkana á skuldabréfum. Skýringuna má einkum finna í vægi verðtryggðra skuldabréfa, en hlutfall þeirra nemur um 68% af skuldabréfasafni sjóðsins í árslok. Auk þess er um 79% af innlendri skuldabréfaeign LV færð á kaupávöxtunarkröfu og því ónæm fyrir markaðsbreytingum. Breyting á gengi gjaldmiðla gagnvart ISK hafði jákvæð áhrif á ávöxtun erlendra eigna á árinu og er ávöxtun ársins tæplega 3% betri en hún hefði annars verið sé miðað við óbreytt gengi gjaldmiðla.

nafnavoxtun eignaflokka 2021 og 2022

Eign sjóðsins í skráðum og óskráðum hlutabréfum er í eignaflokkum 4 og 6 og þar má glögglega sjá viðsnúninginn á milli ára. Töluverð lækkun var á hlutabréfamörkuðum eins og rakið var í markaðskaflanum hér á undan og bæði innlend og erlend hlutabréfasöfn sjóðsins bera þess merki. Nokkur hluti hlutabréfaeignar sjóðsins er óskráður og sá hluti skilaði mun betri ávöxtun en skráð hlutabréf á liðnu ári. Eðli slíkra eigna er þó verðmat sem breytist hægar en í tilfelli skráðra eigna og því má leiða líkum að því að hluti þeirra eigna eigi eftir að lækka að óbreyttu.

Sé tekið mið af ofangreindu kemur ekki á óvart að framlag hlutabréfa til ávöxtunar var neikvætt um 6,1% eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Á móti kemur að innlend skuldabréf höfðu jákvæð áhrif um 2,3% og aðrar erlendar eignir höfðu lítilleg jákvæð áhrif en þar er bæði um að ræða erlenda skuldabréfasjóði og innviðasjóði.

framlag eignaflokka til ávöxtunar án kostnaðar

Um 44% af eignum sameignardeildar er ávaxtaður í erlendri mynt í árslok 2022 samanborið við rúmlega 45% í árslok 2021. Eins og fram kemur í fjárfestingarstefnu sjóðsins er lögð áhersla á áhættudreifingu í eignasafninu og erlendar eignir eru mikilvægur þáttur í því samhengi. Sé horft til undirliggjandi eigna sjóðsins má þannig sjá að eignasafnið tekur nú til ríflega 6 þúsund eigna sem dreifast á 81 land og 6 heimsálfur.

Eignasamsetning sameignardeildar tók nokkrum breytingum á árinu eins og sést á eftirfarandi mynd. Vægi hlutabréfa í eignasafninu lækkaði úr 61% í 56%, einkum vegna lækkunar á hlutabréfamörkuðum. Hér á eftir er farið yfir staka eignaflokka og stiklað á stóru þegar kemur að liðnu ári.

eignasamsetning sameignadeildar

Nánar um einstaka eignaflokka

  • Ríkisskuldabréf

    Nafnávöxtun var jákvæð um 3% á liðnu ári sem einkennist m.a. af hækkandi vöxtum og aukinni verðbólgu. Tilkynning fjármála- og efnahagsráðherra um hugsanleg slit á ÍL-sjóði hafði í för með sér verulega verðlækkun á sk. HFF skuldabréfum sem námu um 8% af heildareignum LV fyrir tilkynningu ráðherra.

  • Veðskuldabréf og fasteignatengd verðbréf

    Nafnávöxtun var jákvæð um 8,3% á liðnu ári sem má m.a. rekja til ávöxtunar sjóðfélagalána en þau námu rúmlega 9% af heildareignum LV.

  • Önnur skuldabréf

    Nafnávöxtun var jákvæð um 10,5% á liðnu ári sem skýrist m.a. af ávöxtun sveitarfélagabréfa sem vega þyngst í eignaflokknum en þau nutu góðs af verðtryggingu í miklum verðlagshækkunum.

  • Innlend skuldabréf

    Nafnávöxtun var neikvæð um 11,6% á liðnu ári sem stafar helst af neikvæðri ávöxtun skráðra hlutabréfa á innlendum markaði en þau vógu um 13% af heildareignum LV.

  • Innlent laust fé

    Innlent lausafé nam um 1% af eignasafni sameignardeildar í árslok 2022. Nafnávöxtun var jákvæð um 5,1% á liðnu ári.

  • Erlend hlutabréf

    Nafnávöxtun í íslenskum krónum var neikvæð um 9,2% á liðnu ári en hlutabréf lækkuðu á síðasta ári beggja vegna Atlantshafsins samhliða hækkandi vöxtum og versnandi efnahagshorfum.

  • Aðrar erlendar eignir

    Nafnávöxtun í íslenskum krónum var jákvæð um 7,5% á liðnu ári sem skýrist helst af góðri ávöxtun innviðasjóða en þeir vega þyngst innan eignaflokksins og nema um 2% af heildareignum LV. Á móti vegur neikvæð ávöxtun skuldabréfasjóða á árinu.

Séreignardeildir

Réttindadeildir fyrir séreignarsparnað eru tvær, annars vegar almenn séreign, B-deild, og hins vegar tilgreind séreign, C-deild. Eignir séreignardeilda eru ávaxtaðar í fjórum ávöxtunarleiðum, Ævileið I, Ævileið II, Ævileið III og Verðbréfaleið.

Hrein nafnávöxtunHrein raunávöxtun
Ævileið IÆvileið IIÆvileið IIIVerðbréfa-leiðÆvileið IÆvileið IIÆvileið IIIVerðbréfa-leið
Meðalávöxtun sl. 5 ár7,2%6,2%3,5%9,9%2,4%1,5%-1,1%5,0%
Ávöxtun 2022-8,0%-5,2%1,3%-3,5%-15,9%-13,3%-7,3%-11,8%

Eignir í séreignardeildum námu 27 milljörðum í lok árs 2022. Nánari upplýsingar um hverja ávöxtunarleið er að finna í fjárfestingarstefnu sjóðsins.

þróun á stærð séreignasafna

_______________________________________________________________________________________

[3] Á verðlagi hvers árs

[10] IMF World Economic Outlook October 2022

[11] Ávöxtun áður en rekstrarkostnaður LV er dreginn frá

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

III. Ráðgjöf og þjónusta

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2022

V. Ábyrgar fjárfestingar