Erlendir fjármálamarkaðir

Óhagfelld efnahagsþróun hafði neikvæð áhrif á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði á alþjóðavísu árið 2022. Heimsvísitala skuldabréfa (Barclays Global Aggregate Index) lækkaði um 8,4% í krónum milli ára og jafnframt lækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI World) um 10,5% í krónum[5]. Sjaldan hefur orðið álíka mikil lækkun bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum á sama tíma og þarf að horfa fleiri áratugi aftur í tímann til að finna viðlíka þróun. Sú mikla fylgni sem var milli hlutabréfa og skuldabréfa hafði því neikvæð áhrif á dreifð eignasöfn.

verðþróun hlutabréfa og skuldabréf á árinu 2022

Verðbólgan reyndist þrálátari á síðasta ári en greiningaraðilar höfðu áætlað og hækkuðu vextir hraðar og meira en spáð var í byrjun árs. Mikil óvissa var um verðlagsþróun allt árið og óvíst hve mikið seðlabankar þyrftu að herða taumhald til að ná tökum á undirliggjandi verðbólguþrýstingi.

Bandaríski seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli í mars 2022 og hefur hækkað vexti sjö sinnum síðan þá og sá evrópski hóf vaxtahækkunarferli í júlí og hefur hækkað vexti þrisvar sinnum frá þeim tíma. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og fyrirtækjabréfa hækkaði þar af leiðandi beggja vegna Atlantshafsins en hækkandi ávöxtunarkrafa endurspeglaðist í verðlækkun á skuldabréfamörkuðum. Í ofanálag við hækkun vaxta hafa seðlabankar dregið úr uppkaupum á skuldabréfamarkaði (e. Quantitative easing) og snúið blaðinu við og eru nú orðnir seljendur skuldabréfa (e. Quantitative tightening). Það hefur haft þau áhrif á fjármálamarkaði að seljanleiki hefur minnkað hratt með tilheyrandi verðlækkunum. Samhliða minni seljanleika á skuldabréfamörkuðum og ótta við efnahagssamdrátt jókst fyrirtækjaálag á skuldabréfamarkaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa í Evrópu (Bloomberg Euro Corporate Total Return) lækkaði um 11,3% mælt í krónum en vísitala fyrirtækjaskuldabréfa í Bandaríkjunum (Bloomberg US Corporate Total Return) lækkaði um 7,9% í krónum talið[6]. Þá lækkuðu ríkisskuldabréf á Evrusvæðinu (S&P Eurozone Sovereign Bond Index Total Return) um 14,9% mælt í krónum talið og bandarísk ríkisskuldabréf (Bloomberg US Treasury Total Return Index) lækkuðu um 4,3% í krónum talið[7].

verðþróun á skuldabréfamörkuðum á árinu 2022

Eftirspurn eftir vörum og þjónustu fór dvínandi á síðasta ári og umrót á alþjóðlegum hrávöru- og orkumörkuðum setti aðfangakeðjur í uppnám með neikvæðum áhrifum á efnahagsumsvif. Á sama tíma settu hratt hækkandi vextir pressu á hlutabréfamarkaði þar sem fórnarkostnaður fjármagns hafði hækkað. Krafa um ávöxtun hlutabréfa varð hærri og fjármögnunarkostnaður fyrirtækja jókst. Hægari efnahagsumsvif drógu úr væntum tekjuvexti og væntum hagnaði fyrirtækja á erlendum mörkuðum á seinni hluta ársins með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á hlutabréfaverð. Sé horft til einstakra hlutabréfamarkaða lækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum (MSCI US) um 12,3% mælt í krónum og hlutabréf í Evrópu (MSCI Europe) lækkuðu um 7,1% í krónum[8]. Hlutabréf nýmarkaðsríkja (MSCI Emerging Markets) lækkuðu þó einna mest eða um 12,6% mælt í krónum[9]. Þessar vísitölur segja til um ávöxtun að teknu tilliti til arðs.

verðþróun á hlutabréfamörkuðum á árinu 2022

Enn er mikil óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur og ráðast þær að miklu leyti af framvindu og afleiðingum stríðsátaka í Úkraínu. Framleiðslutruflanir eru enn til staðar og ef kæmi til frekari skerðingar á orkuinnflutningi til Evrópu gætu horfur versnað enn frekar og verðbólga orðið þrálátari. Óvíst er því hve hratt alþjóðlegar aðfangakeðjur og fjármálaleg skilyrði komast í eðlilegt horf en hrávörur virðast hafa náð hámarki sínu, tímabundið hið minnsta.

______________________________________________________________________________________

[5] Í Bandaríkjadal lækkaði heimsvísitala skuldabréfa um 16,2% og heimsvísitala hlutabréfa um 18,1%

[6] Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa í Evrópu lækkaði um 13,6% í evrum og í vísitala fyrirtækjaskuldabréfa í Bandaríkjunum lækkaði um 15,8% í Bandaríkjadal.

[7] Á Evrusvæðinu lækkuðu ríkisskuldabréf um 14,9% í evrum og bandarísk ríkisskuldabréf lækkuðu um 12,4% í Bandaríkjadal

[8] Vísitala hlutabréfa í Bandaríkjunum lækkuðu um 19,8% í Bandaríkjadal og vísitala hlutabréfa í Evrópu lækkaði um 9,5% í evrum

[9] Vísitala hlutabréfa í nýmarkaðsríkjum lækkaði um 20,1% í Bandaríkjadal