Innlendir fjármálamarkaðir

Ísland hefur ekki farið varhluta af aukinni alþjóðlegri verðbólgu þótt áhrifa af hærra orkuverði gæti í töluvert minna mæli hér á landi en víða erlendis. Hér á landi stóð ársverðbólga í 9,6% í árslok 2022 en vaxandi verðbólga hérlendis er m.a. tilkomin vegna hækkandi húsnæðisverðs auk innfluttrar verðbólgu. Gengi krónunnar gaf eftir gagnvart helstu viðskiptamyntum, sérstaklega á seinni hluta síðasta árs, og hafði það áhrif til verðhækkunar innfluttra vara. Veiking krónunnar var mest gagnvart Bandaríkjadal eða 9,4% en minni gagnvart evru eða 2,7%. Á síðasta ári styrktist Bandaríkjadalur gagnvart helstu myntum heims en vaxtahækkunarferlið vestanhafs hófst fyrr en í Evrópu og jafnframt voru hækkanir snarpari sem ýtti undir styrkingu gjaldmiðilsins á síðasta ári.

Seðlabanki Íslands hóf vaxtahækkunarferli í maí árið 2021 vegna aukins verðbólguþrýstings og hafði bankinn hækkað stýrivexti tíu sinnum frá þeim tíma í árslok 2022 en þá stóðu stýrivextir í 6% sem eru þeir hæstu síðan haustið 2010. Snarpar vaxtahækkanir, umfram væntingar á markaði, höfðu í för með sér umtalsverða hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa á nýliðnu ári. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði um 3 til 6 prósentustig, og sömuleiðis hækkaði ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa um 1 til 2 prósentustig. Hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa endurspeglaðist í verðlækkunum á skuldabréfamarkaði.

Vísitala 5 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði um 6,8% á síðasta ári. Verðtryggð skuldabréf nutu góðs af aukinni verðbólgu og lækkaði vísitala 10 ára verðtryggðra ríkisskuldabréfa mun minna eða sem nemur 1,6%. Verðtryggð skuldabréf til 5 ára stóðu einna best að vígi og hækkaði vísitalan um 0,7% á árinu. Nokkur óvissa hefur skapast á skuldabréfamarkaði í kjölfar tilkynningar Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hugsanleg slit á ÍL-sjóði. Framvinda þess er enn um margt óljós og erfitt að ráða á þessari stundu en til skemmri tíma hefur áhættan aukist.

Verðþróun innlendra skuldabréfa á árinu 2022

Líkt og erlendis hafa versnandi efnahagshorfur, hækkandi verð á aðföngum og hækkandi fjármagnskostnaður haft áhrif til verðlækkunar á innlendum hlutabréfamarkaði. Heildarvísitala íslenskra hlutabréfa (OMXIGI) lækkaði um 12% á síðasta ári en vísitalan segir til um ávöxtun að teknu tilliti til arðs. Þótt þróun vísitölunnar hafi heilt yfir verið neikvæð er ávöxtun félaga ólík. Nokkur félög skiluðu jákvæðri ávöxtun og almennt má segja að góður gangur hefur verið í rekstri félaga, hvort sem litið er til innlenda bankakerfisins eða innlendra rekstrarfélaga, sjávarútvegsfélaga eða félaga í flutningastarfsemi. Töluverðum fjármunum hefur verið skilað til fjárfesta í formi arðgreiðslna, endurkaupa á eigin hlutabréfum og töluvert hefur verið um sölur eigna af efnahagsreikningum félaga sem mynda söluhagnað, þar með talið sölu Símans á Mílu, Origo á Tempo og innviðum Sýnar.

verðþróun innlendra skráðra hlutabréfa (omxgi) á árinu 2022

Einnig er jákvætt að innlend hlutabréf voru færð upp í flokk nýmarkaða (e. Secondary Emerging) í gæðamati hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE í september. Í gæðamatinu horfa vísitölufyrirtækin á ýmsa þætti er lúta að stærð markaðarins, seljanleika og markaðsumgjörð. Breytingin er til lengri tíma litið jákvæð fyrir íslenskan verðbréfamarkað.