Stjórnarháttayfirlýsing

Stjórnarháttayfirlýsing Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2022

Stjórnarháttayfirlýsing Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) vísar til 51. gr. reglna Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða. Yfirlit yfir ýmis lög, reglugerðir og ýmsar innri reglur LV er aðgengilegt á vef sjóðsins á vefsvæði með upplýsingum um sjóðinn.

Grundvöllur sjóðsins og hlutverk

LV starfar á grundvelli starfsleyfis fjármálaráðherra í samræmi við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða með síðari breytingum og samþykktir sjóðsins.

Í samþykktum kemur fram að sjóðurinn starfar á grundvelli kjarasamnings Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 12. desember 1995 og samnings ASÍ og SA frá 24. apríl 2018 samanber samning VR, Samtaka atvinnulífsins og Félags atvinnurekenda frá 23. apríl 2018 og breytingar á samþykktum sem tóku gildi 1. september 2019.

Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum, lífeyri eftir reglum í samþykktum hans. Þar kemur m.a. fram að sjóðurinn leggi sérstaka áherslu á ellilífeyrisréttindi (ævilangan lífeyri) og áskilji sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykkta sjóðsins.

Sjóðurinn er langtímafjárfestir sem ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með það að markmiði að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu. Stjórn leggur áherslu á að þróa hluthafastefnu sjóðsins með þeim hætti að hún styðji við góða stjórnarhætti í þeim félögum sem sjóðurinn fer með eignarhlut í.

Umboðsskylda

Stjórnarmenn og starfsmenn skulu taka ákvarðanir í samræmi við gildandi lög og reglur og sannfæringu sína með þeim hætti að hagsmuna sjóðfélaga sé sem best gætt og að ákvarðanir styðji við tilgang og starfsemi sjóðsins.

Stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins.

Stjórnarmaður er ekki bundinn af fyrirmælum þeirra sem tilnefna hann til setu í stjórn sjóðsins.

Fjallað er um umboð og umboðsskyldu LV með tilliti til sjálfbærniþátta í sjálfbærniskýrslu sjóðsins fyrir árið 2021.

Um stjórnarhætti og stjórnarháttayfirlýsingu LV

Lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun sjóðsins. Með stjórnarháttayfirlýsingu þessari er sjóðfélögum, iðgjaldagreiðendum, opinberum aðilum, starfsmönnum og öðrum haghöfum veittar upplýsingar um stjórnarhætti lífeyrissjóðsins. Yfirlýsingunni er jafnframt ætlað að styðja við góða stjórnarhætti hjá sjóðnum og styðja þannig við traustan rekstur.

Stjórnarháttayfirlýsing LV fyrir árið 2022 byggir á þeim lögum og reglum sem í gildi eru á þeim tíma sem ársreikningur sjóðsins er staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þeirra ákvæða laga nr. 129/1997 sem lúta að stjórnarháttum lífeyrissjóða, ákvæða samþykkta sjóðsins, reglna FME þar um, m.a. reglna nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða, og 6. útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins.

Yfirlit yfir lög, reglugerðir og aðrar reglur sem varða starfsemi sjóðsins

Hér er yfirlit yfir hluta þeirra laga, reglugerða og annarra reglna sem varða starfsemi lífeyrissjóðsins. Yfirlitið er í upplýsingaskyni og ekki tæmandi.

Lög frá Alþingi

  • Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
  • Lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
  • Lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga
  • Lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • Lög nr. 3/2006 um ársreikninga
  • Lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna
  • Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
  • Lög nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara.

Reglugerðir

  • Reglugerð nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
  • Reglugerð nr. 698/1998 um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingaverndar
  • Reglugerð nr. 916/2009 um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrissparnaðar
  • Reglugerð nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða
  • Reglur og leiðbeiningar FME
  • Reglur FME nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða
  • Reglur FME nr. 577/2012 um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila
  • Leiðbeinandi tilmæli FME nr. 3/2010 um mat á hæfi lykilstarfsmanna
  • Leiðbeinandi tilmæli FME nr. 1/2019 vegna áhættu við rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila
  • Leiðbeinandi tilmæli FME nr. 6/2014 um útvistun hjá eftirlitsskyldum aðilum.

Innri reglur LV (aðgengilegar á vef LV)

Varðandi yfirlit yfir innri reglur er vísað til yfirlits á vef LV sem og í VII kafla ársskýrslu um stjórnarhætti og stjórnun.

Stefna um samfélagslega ábyrgð, siðferðisviðmið og ábyrgar fjárfestingar

Í kafla VII í árs- og sjálfbærniskýrslu LV fyrir árið 2022 er gerð grein fyrir hlutverki, framtíðarsýn, leiðarljósum og grunngildum LV. Í VIII kafla um sjálfbærni í starfsemi LV er að finna greinargott yfirlit yfir sjálfbærniþætti í starfsemi LV. Þeir varða m.a. umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti. Varðandi nánari umfjöllun er vísað til þessara kafla og annarra viðeigandi kafla árs- og sjálfbærniskýrslunnar. Þá er umfjöllun um ábyrgar fjárfestingar og áherslu á sjálfbærniþætti við eignastýringu til umfjöllunar í V. kafla árs- og sjálfbærniskýrslunnar.

Stefna LV um ábyrgar fjárfestingar Það leiðir af eðli skuldbindinga LV að sjóðurinn er langtímafjárfestir. Viðmið um ábyrgar fjárfestingar eru hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins og ber sjóðnum að líta til og stuðla að samfélagslegri ábyrgð þeirra félaga sem hann fjárfestir í.

LV gerir kröfu um að þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í fari eftir lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra. Mikilvægt er að þau horfi til leiðbeininga um góða stjórnarhætti og viðmiða sem lúta að samfélagslegri ábyrgð og góðri umgengni um auðlindir.

LV er aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna (e. Principles for Responsible Investment, UN PRI) um ábyrgar fjárfestingar, ásamt mörgum af stærstu lífeyrissjóðum og fagfjárfestum vestan hafs og í Evrópu. Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á umhverfisleg og samfélagsleg málefni styður við stjórnarhætti fyrirtækja og getur þannig stuðlað að bættum fjárfestingarárangri eignasafna. Þannig fari saman hagsmunir fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi.

Á haustmánuðum 2021 samþykkti stjórn sjóðsins stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Í henni er gerð grein fyrir stefnu LV varðandi aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Vikið er að markmiðum stefnunnar, þýðingu sjálfbærni við eignastýringu, samþættingu aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundna eignastýringu og framkvæmd eigendahlutverks, upplýsingagjöf um framkvæmd stefnunnar og innleiðingu. Jafnframt er lögð áhersla á að þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í eigi ábyrg samskipti við haghafa sína og fylgi áherslum LV varðandi góða stjórnarhætti.

Samhliða stefnu um ábyrgar fjárfestingar samþykkti stjórn sjóðsins stefnu um útilokun eigna í eignasöfnum LV. Stefnan nær til allra eignasafna sjóðsins og lýsir aðferðarfræði LV við útilokun tiltekinna fyrirtækja. Við mótun stefnunnar var m.a. litið til fyrirmynda frá leiðandi lífeyrissjóðum á Norðurlöndum. Innleiðing stefnunnar tekur tíma og því verður enn um sinn að finna fyrirtæki í eignasöfnum LV sem eru á útilokunarlista. Ástæðan er að enn sem komið er hefur LV takmarkaða möguleika til að tjá skoðanir um útilokun þegar sjóðurinn fjárfestir í erlendum eignum s.s. hlutabréfasjóðum.

Um nokkrar reglur og viðmið LV

Siða- og samskiptareglur Stjórn lífeyrissjóðsins hefur sett siða- og samskiptareglur fyrir starfsfólk og stjórnarmenn sjóðsins. Þeim er ætlað að styðja við vönduð vinnubrögð, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka öryggi í meðferð fjármuna sjóðsins. Í reglunum er m.a. fjallað um góða starfshætti, hagsmunaárekstra, meðferð trúnaðarupplýsinga og reglur um gjafir, boðsferðir og starfstengdar ferðir.

Fjárfestingarstefna Stjórn LV mótar og samþykkir árlega fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn í samræmi við lög nr. 129/1997 og önnur gild viðmið. Þannig er mörkuð stefna fyrir eignasamsetningu og eignastýringu sameignardeildar og séreignardeilda sjóðsins. Stefnan er send fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands fyrir 1. desember ár hvert og er aðgengileg á vef sjóðsins.

Áhættustefna Stefnan er ákveðin af stjórn með vísan til 9. töluliðar 3. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997, reglugerðum á grundvelli laganna og öðrum gildum viðmiðum sem tilgreind eru í stefnunni. Tilgangurinn er að auka öryggi í rekstri sjóðsins með það að markmiði að draga úr líkum á því að réttindi sjóðfélaga til greiðslu lífeyris skerðist og stuðla almennt að góðum og öruggum rekstri.

Áhættustýringarstefna Sjóðurinn hefur ákveðið áhættustýringarstefnu sem mælir fyrir um stýringu tiltekinna áhættuþátta, svo sem skilgreiningu á hlutverkum og ábyrgð stjórnar, framkvæmdastjóra og annarra aðila er koma að framkvæmd stefnunnar. Þar eru einnig tilgreindir mælikvarðar áhættuvilja, tilgreindir helstu áhættuþættir sem felast í rekstri sjóðsins og eftirlit með þeim, fjallað um aðferðir við áhættustýringu og skýrslugjöf og upplýsingar um hvernig sjóðurinn leitast við að tryggja að allir starfsmenn séu meðvitaðir um mikilvægi áhættustýringar og hvernig sjóðurinn styður við viðeigandi áhættumenningu.

Hluthafastefna Það er markmið stjórnar LV að hluthafastefnan styðji við góða stjórnarhætti félaga og þróun þeirra. Í hluthafastefnunni eru kynntar áherslur stjórnar sjóðsins varðandi viðmið um stjórnarhætti í þeim félögum sem sjóðurinn á eignarhlut í. Hluthafastefnan tekur til viðmiða sem LV leggur áherslu á við meðferð eignarhalds í skráðum hlutafélögum á hlutabréfamarkaði og sjóðurinn fer með eignarhlut í. Stefnan gildir einnig, eftir því sem við á, fyrir óskráð félög sem LV hefur fjárfest í. Eðli málsins samkvæmt varðar stefnan einkum félög sem skráð eru á Íslandi. Þó gilda grundvallarviðmið hennar einnig um félög sem sjóðurinn er hluthafi í og skráð eru erlendis.

Jafnlaunavottun Í apríl 2022 fékk LV vottað að jafnlaunakerfi lífeyrissjóðsins uppfyllir kröfur sem tilgreindar eru í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.

Mannauðsstefna LV hefur markað sér formlega stefnu um áherslur í fyrirtækjamenningu sjóðsins þar sem tilgreint er meðal annars mikilvægi liðsheildar, góðra stjórnarhátta, velferðar starfsfólks og að sjóðurinn laði að sér og byggi upp framúrskarandi mannauð. Sjóðurinn hefur einnig lagt til grundvallar jafnrétti og jafna meðferð starfsfólks við stjórnunarvenjur, starfsþjálfun og þróun, ráðningar, starfskjör og starfsumhverfi.

Í mannauðsstefnu kemur m.a. fram að lífeyrissjóðurinn leitist við að bjóða starfsskilyrði sem laði að sér hæft starfsfólk og að sjóðurinn hafi á að skipa starfsfólki sem hefur þekkingu, reynslu og hæfni til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem sjóðnum eru falin. Unnið er eftir gildum sjóðsins þar sem ábyrgð, árangur og umhyggja mynda grunnstoðir í heilbrigðu og öruggu starfsumhverfi. Til stuðnings mannauðsstefnu er m.a. jafnlaunastefna, jafnréttisáætlun, fræðslustefna og stefna og viðbragðsáætlun gagnvart einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi á vinnustaðnum.

Starfskjarastefna Starfskjarastefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er ætlað að styðja við góða stjórnarhætti hjá sjóðnum. Við mótun hennar er byggt á samþykktum lífeyrissjóðsins, sjónarmiðum í 6. útgáfu leiðbeininga um góða stjórnarhætti fyrirtækja og meginreglum sem liggja til grundvallar 79. gr. a, í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög.

Stefnunni er ætlað að styðja við traustan rekstur og það markmið lífeyrissjóðsins að veita sjóðfélögum góða þjónustu. Starfskjarastefnu sjóðsins er því ætlað að styðja við að lífeyrissjóðurinn sé eftirsóknarverður vinnustaður og að hann hafi þannig á að skipa hæfu og reyndu starfsfólki sem er grundvöllur þess að rekstur sjóðsins sé vel samkeppnisfær og í samræmi við bestu viðmið.

Áhættustýring og innra eftirlit

Áhættustýring Stjórn hefur sett sjóðnum áhættustefnu og áhættustýringarstefnu með það að markmiði að auka öryggi í rekstri sjóðsins. Stefnurnar grundvallast á stefnumótun sjóðsins og lögum og reglum sem um hann gilda. Megininntakið er að með áhættustýringu er átt við eftirlitskerfi sem gerir sjóðnum kleift að bera kennsl á, greina, vakta, meta og taka áhættu til meðferðar í starfsemi sjóðsins.

Lögð er áhersla á að stefnurnar og framkvæmd þeirra sé virkur þáttur í starfseminni og að þær tengist ákvörðunarferlum hans í stefnumótandi málum, og í daglegum rekstri. Einnig er lögð áhersla á að stjórn og stjórnendur hafi góða yfirsýn yfir helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins og að þeir hafi þekkingu á hlutverki sínu í ferli áhættustýringar og eftirlits og taki virkan þátt í því. Mikilvægt er að stjórn, stjórnendur og aðrir starfsmenn meti áhættu við ákvarðanatöku eftir því sem eðlilegt er hverju sinni.

Áhættustjóri sjóðsins hefur yfirumsjón með framkvæmd stefnanna og áhættustýringu sjóðsins. Hann heyrir beint undir framkvæmdastjóra. Til að tryggja honum aukið sjálfstæði í starfi og milliliðalausan aðgang stjórnar að upplýsingum er honum heimilt að gefa skýrslur um áhættustýringu og aðrar upplýsingar sem varða áhættustýringu beint og milliliðalaust til stjórnar sjóðsins og endurskoðunarnefndar.

Í stefnunum er skipulag sjóðsins skilgreint, mælt fyrir um umsjón og ábyrgð er varðar framkvæmd áhættustýringar, umfjöllun um helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins, mat á þeim og tilgreint með hvaða hætti fylgst er með þeim.

Nánari upplýsingar um áhættustýringu er að finna í ársskýrslu, skýringum í ársreikningi og í áhættustefnu sem birt er á vef sjóðsins.

Innra eftirlit Innra eftirlit sjóðsins nær yfir sérhverja aðgerð af hálfu stjórnar, stjórnenda og starfsmanna til að stýra áhættu þar sem því verður við komið og auka líkur á að settum markmiðum verði náð við rekstur sjóðsins. Stjórnendur annast skipulagningu og framkvæmd innra eftirlits en að framkvæmd þess koma allir starfsmenn sjóðsins með einum eða öðrum hætti.

Skipulag innra eftirlits tekur mið af reglum FME nr. 577/2012 um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila lífeyrissjóða og er innra eftirlit sjóðsins yfirfarið árlega af þeim sem annast innri endurskoðun hjá sjóðnum.

Innra eftirlit sjóðsins byggir m.a. á skýrsluskilum, reglulegri upplýsingagjöf, skráðum verkferlum og starfslýsingum, reglum um aðgreiningu starfa, skipulegum aðgangsstýringum og skilvirkri áhættustefnu og áhættueftirliti.

Áhættustefna, áhættustýringarstefna og áhættustýring sjóðsins eru veigamiklir þættir í innra eftirliti. Helstu verkþættir í starfsemi sjóðsins byggja á skriflegum ferlum sem eykur áreiðanleika og stuðlar að fylgni við lög og reglur. Verkferlar eru yfirfarnir reglulega. Aðskilnaði starfa og aðgangsstýringa innan sjóðsins er ætlað að draga úr villu- og sviksemiáhættu. Margþætt skýrsluskil, afstemmingar og upplýsingagjöf til opinberra aðila, stjórnar sjóðsins og einstakra stjórnenda veita aðhald í rekstri. Hvað upplýsingakerfi sjóðsins varðar er í gildi öryggisstefna sem nær til meðferðar og varðveislu gagna. Henni er ætlað að tryggja örugga meðferð og varðveislu upplýsinga sem þýðingu hafa fyrir starfsemi sjóðsins. Eftirlitsaðgerðir og sjálfvirk vöktun miða að því að lágmarka áhrif rekstrarfrávika á upplýsingakerfi. Neyðaráætlun sjóðsins er ætlað að taka á alvarlegri rekstrarfrávikum með endurheimt upplýsingakerfa.

Þá hefur sjóðurinn sett sér reglur um uppljóstrun vegna mögulegra svika eða misferlis starfsmanna.

Stjórnskipulag LV

Ársfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðsins, sé ekki annað ákveðið í lögum eða samþykktum sjóðsins. Ársfund skal halda fyrir lok júní ár hvert og eiga allir sjóðfélagar og rétthafar í B- og C deildum (almenn og tilgreind séreign) rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti.

  • Á ársfundi skal kynna: i) skýrslu stjórnar, ii) ársreikning fyrir síðasta starfsár, iii) tryggingafræðilega athugun, iv) fjárfestingarstefnu sjóðsins, v) hluthafastefnu sjóðsins, vi) skipan stjórnar og vii) skipan fulltrúaráðs.
  • Þá skal kynna og bera undir atkvæði: i) starfskjarastefnu sjóðsins, ii) val á fulltrúum í nefnd um laun stjórnarmanna, iii) tillögu um stjórnarlaun, iv) tillögu stjórnar að endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki og v) tillögur stjórnar til breytinga á samþykktum sjóðsins.

Fulltrúar í fulltrúaráði fara með atkvæði á ársfundi sjóðsins í umboði aðildarsamtakanna til ákvarðana sem tilgreindar eru hér að framan. Ályktunartillögur, sem taka skal fyrir á ársfundi, þurfa að berast stjórn sjóðsins skriflega eigi síðar en viku fyrir ársfund. Fundargerðir ársfunda eru aðgengilegar á vef sjóðsins.

Nánar er fjallað um stjórnskipulag sjóðsins í samþykktum hans sem og lögum nr. 129/1997.

Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á starfsemi hans og skal sjá um að skipulag hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Hún tekur stefnumarkandi ákvarðanir er varða hag og starfsemi sjóðsins og sér til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna. Þá leggur stjórn til breytingar á samþykktum við aðildarsamtök og ársfund en hefur einnig heimild til að gera breytingar þeim að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Stjórn annast m.a. eftirfarandi verkefni, sbr. 29. gr. laga 129/1997:

  • Stjórn mótar og samþykktir fjárfestingarstefnu og innra eftirlit og skjalfestir eftirlitsferla. Mótar einnig fyrirkomulag innri endurskoðunar og ræður sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að framkvæma hana.
  • Stjórn ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og ráðningarkjör.
  • Stjórn felur tryggingastærðfræðingi að framkvæma árlega tryggingafræðilega athugun á sameignardeild sjóðsins.
  • Stjórn setur reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar, reglur um viðskipti stjórnar og starfsmanna með fjármálagerninga, markar sjóðnum áhættustefnu og mótar eftirlitskerfi með áhættu sjóðsins.
  • Stjórn ákveður hver skuli vera fulltrúi sjóðsins í stjórn stofnunar eða atvinnufyrirtækis.

Meðal annarra mála sem stjórn fjallar um á fundum sínum eru veigameiri fjárfestingarákvarðanir, áhættumat, tillögur að breytingum á samþykktum, fjárfestingar-, hluthafa- og áhættustefna, lánareglur, rekstraráætlun og kynningarmál. Stjórn hefur sett sér starfsreglur sem eru aðgengilegar á vef sjóðsins.

Framkvæmdastjóri Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör, veitir honum prókúruumboð og setur honum starfsreglur sem eru aðgengilegar á vef sjóðsins. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur og fer í því efni eftir ákvæðum laga og samþykkta sjóðsins og þeirri stefnu og fyrirmælum, sem stjórn hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins.

Fulltrúaráð Aðildarsamtök lífeyrissjóðsins starfrækja fulltrúaráð sjóðsins sem er skipað 50 fulltrúum. VR skipar 25 fulltrúa, Samtök atvinnulífsins skipa 23 fulltrúa og Félag atvinnurekenda skipar 2 fulltrúa. Skipan fulltrúaráðsins fer nánar eftir samningum aðildarsamtaka sjóðsins og þeim reglum sem samtökin setja sér þar um. Nánari reglur um fulltrúaráðið eru í samþykktum sjóðsins.

Endurskoðun Reikningar sjóðsins eru endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Innri endurskoðun sjóðsins er jafnframt í höndum sjálfstætt starfandi endurskoðanda. Endurskoðun sjóðsins og innri endurskoðun eru í höndum aðskilinna endurskoðunarfyrirtækja. Endurskoðunarnefnd LV gerir tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda sjóðsins (ytri endurskoðanda) og innri endurskoðanda.

Tryggingastærðfræðingur Tryggingafræðileg athugun er framkvæmd árlega í samræmi við 39. gr. laga nr. 129/1997 og reglugerð nr. 391/1998. Athugunin er samkvæmt samningi við sjóðinn framkvæmd af tryggingastærðfræðingi sem hefur hlotið viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til að sinna verkefnum sem slíkur. Með athuguninni er lagt mat á áfallnar skuldbindingar sjóðsins og væntar framtíðarskuldbindingar annars vegar og núverandi eignir og vænt iðgjöld og ávöxtun hins vegar.

Endurskoðunarnefnd skipuð af stjórn Samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga skulu einingar tengdar almannahagsmunum, þar á meðal lífeyrissjóðir, starfrækja endurskoðunarnefndir. Stjórn hefur skipað endurskoðunarnefnd sem heyrir beint undir hana. Um markmið, skipan, heimildir, ábyrgð og verkefni endurskoðunarnefndar er fjallað í starfsreglum sem settar eru af stjórn.

Nefndina skipa:

  • Stefán Sveinbjörnsson, formaður nefndarinnar. Hann er lögfræði- og viðskiptafræðimenntaður og starfar sem framkvæmdastjóri VR.
  • Árni Stefánsson, er í stjórn LV, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Húsasmiðjunnar.
  • Margret G. Flóvenz er löggiltur endurskoðandi og er með víðtæka reynslu af endurskoðunarstörfum.

Sjálfsmat stjórnar Stjórn framkvæmir frammistöðumat á störfum sínum í samræmi við starfsreglur. Niðurstöður eru nýttar af stjórn til að þróa starfshætti og styðja við góða stjórnarhætti. Spurningar í frammistöðumatinu lúta að skipan og skipulagi stjórnar, hlutverki og ábyrgð og frammistöðu hennar og undirnefnda.

Fjöldi funda og mæting Á árinu 2022 voru haldnir 15 stjórnarfundir.

Nánari upplýsingar um stjórnarmenn, fundarsókn og framkvæmdastjóra er að finna í rafrænni útgáfu af stjórnarháttayfirlýsingunni sem er aðgengileg á vef sjóðsins.

Staðfest á fundi stjórnar 23. febrúar 2023.