Lagakröfur og umboðsskylda

með tilliti til sjálfbærni í starfsemi

Þegar kemur að umboði lífeyrissjóðs til að taka sjálfbærniþætti með í reikninginn varðandi almennan rekstur og ávöxtun eigna skiptir máli að huga að umboði og umboðsskyldu sjóðsins. Inntak og þróun umboðs í þessu sambandi er mjög í deiglunni. Hér er vikið að inntaki umboðs og umboðsskyldu sem og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðsins í tengslum við samfélagsábyrgð og sjálfbærni.

Um umboð og umboðsskyldu

Með umboði er almennt vísað til þess að einstaklingi eða einstaklingum er falið að gæta hagsmuna einstaklings, hóps fólks eða lögaðila. Til að greina inntak umboðs og þar með umboðsskyldu sjóðsins þarf því að líta til lagaákvæða, samþykkta LV, annarra reglna og viðurkenndra viðmiða.

Umboðsskylda LV á að tryggja að þeir sem stýra fjármunum eða lífeyrisréttindum starfi í þágu lykilhaghafa og eftir atvikum annarra haghafa, en ekki í þágu eigin hagsmuna. Með lykilhaghöfum er hér vísað til sjóðfélaga og þeirra sem eiga réttindi á grundvelli þeirra, þ.e. eftir atvikum maka eða barna.

Það má færa rök fyrir því að inntak umboðs og umboðsskyldu sé bæði lagalegt og siðferðilegt. Þannig þarf m.a. að horfa til inntaks laga, ýmissa reglna sem byggja á þeim og til samþykkta sjóðsins. Auk þess skipta þættir eins og tryggð og fagmennska máli[8].

Tryggð og fagmennska

  • Tryggð

    Fagmennska (hollusta/ e. Duty of Loyality)

    Umboðsaðili beiti sér í góðri trú í þágu hagsmuna umbjóðanda. Hann gæti hlutleysis í hagsmunaárekstrum meðal haghafa, forðist hagsmunaárekstra og gangi ekki eigin erinda eða erinda þriðja aðila.

  • Fagmennska

    Fagmennska (skynsemisskylda/ e. Duty of Prudence)

    Umboðsaðili framkvæmi starf sitt af vandvirkni og kostgæfni. Hann gæti þess að hann hafi næga hæfni og taki ígrundaðar ákvarðanir. Auk þess fari hann með fjármuni og aðra hagsmuni eins og almenn skynsöm og samviskusöm manneskja myndi gera. Þá fari viðkomandi með fjármuni og aðra hagsmuni umbjóðanda eins og hann myndi gera fyrir sjálfan sig.

Ákvæði lífeyrissjóðalaganna varðandi fjárfestingarstarfsemi

Hér vega þungt ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um hlutverk lífeyrissjóða

Þegar kemur að lagalegum þætti umboðsskyldu lífeyrissjóðs eru ýmsir vegvísar að styðjast við. Hér skiptir máli að líta til 20. gr. lífeyrissjóðalaganna[9].

Þar kemur fram að starfsemi lífeyrissjóðs felist í

  • móttöku iðgjalda.
  • varðveislu og ávöxtun iðgjalda.
  • greiðslu lífeyris.

Lífeyrissjóður skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem er nauðsynleg til að veita sjóðfélögum þjónustu vegna öflunar og greiðslu lífeyrisréttinda og lífeyrissparnaðar. Í samþykktum LV kemur fram að hlutverk sjóðsins sé að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri eftir nánari reglum samþykktanna.

Í samþykktum LV kemur fram að framkvæmdastjóri og aðrir sem hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins megi ekki gera ráðstafanir sem eru bersýnilega til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins.

Vegvísar varðandi eignastýringu

Stýring eignasafna LV byggir á fjárfestingarstefnu og áhættustefnu sem eru settar á grundvelli lífeyrissjóðalaganna, einkum VII. kafla þeirra.

Í 1. mgr. 36. gr. lífeyrissjóðalaga er mikilvægur vegvísir fyrir ráðstöfun og stýringu eigna. Þar eru fimm vegvísar þar sem mælt er fyrir um að lífeyrissjóðir skuli

  1. hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.
  2. horfa til aldurssamsetningar sjóðfélaga og annarra tryggingafræðilegra þátta sem áhrif hafa á skuldbindingar.
  3. gæta þess að allar fjárfestingar byggi á viðeigandi greiningu á upplýsingum, þá með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga.
  4. gæta þess að eignir sjóðsins séu nægilega fjölbreyttar til að koma í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu, m.a. með því að gæta að fylgni áhættu einstakra eigna og eignaflokka.
  5. setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

Ofangreindir vegvísar veita leiðsögn við það hvernig stjórn og starfsfólk lífeyrissjóða skuli fara með það umboð sem sjóðnum er fengið.

  • Hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi

    • að hagsmunir sjóðfélaga skuli hafðir að leiðarljósi, liggur í hlutarins eðli. Hann er væntanlega nefndur fyrst og fremst til áréttingar.
  • Aldurssametning sjóðfélaga

    • horfa til aldurssamsetningar sjóðfélaga og annarra tryggingafræðilegra þátta sem áhrif hafa á skuldbindingar.
    • er m.a. vísað til áhættusjónarmiða og til þess að það þurfi að haga fjárfestingum þannig að þær samræmist lífeyrisskuldbindingum sem viðkomandi eignasafn á að styðja. Hér er líka lögð áhersla á að lífeyrissjóður sé langtímafjárfestir.
  • Fjárfestingar byggja á viðeigandi greiningu

    • gæta þess að allar fjárfestingar byggi á viðeigandi greiningu á upplýsingum, þá með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga
    • hér er vísað til lífeyrissjóðs sem langtímafjárfestis. Þar kemur fram áhersla á viðhlítandi rýni, greiningu og samval verðbréfa.
  • Fjölbreyttar eignir

    • gæta þess að eignir sjóðsins séu nægilega fjölbreyttar til að koma í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu, m.a. með því að gæta að fylgni áhættu einstakra eigna og eignaflokka.
    • hér er vísað til samvals verðbréfa, til langtímasjónarmiða og áhættustýringar. Í greinargerð er vikið að áskorunum sem felast í áhættudreifingu m.t.t. þess hve stór eignasöfn lífeyrissjóða eru sem hlutfall af innlendu hagkerfi. Þar er vísað til mikilvægis erlendra fjármálamarkaða. Til nánari útskýringar varðandi vegvísi 1 til 4 er vísað til nánari umfjöllunar í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 113/2016.
  • Siðferðisleg viðmið

    • setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.
    • kom inn í frumvarpið eftir tillögu þingnefndar í tengslum við 2. umræðu á Alþingi vegna breytingar á lögum 129/1997 (lífeyrissjóðalögin), sbr. lög nr. 113/2016. Í nefndaráliti þingnefndar var vísað til þess að eignir innlendra lífeyrissjóða væru umtalsverðar og næmu rúmlega einni og hálfri landsframleiðslu. Einnig að lífeyrissjóðir ættu að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Nefndin taldi líka ástæðu til að mæla fyrir um það í lagatexta að lífeyrissjóðir skyldu setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Sjóðirnir starfi í þágu almennings og ætla megi að þorri almennings telji mikilvægt að fjárfestingarstefna þeirra endurspegli almenn siðferðisleg viðmið. Nánari afmörkun væri á hendi hvers sjóðs. Að öðru leyti eru ekki miklar leiðbeiningar í lögskýringargögnum um þennan vegvísi.

Ákvæði um áhættustýringu

Þá koma einnig til skoðunar hér ákvæði um áhættustýringu lífeyrissjóða, sbr. gr. 35-a og gr. 36-e í lífeyrissjóðalögunum.

Um mótun stefnu um siðferðisleg viðmið og ábyrgar fjárfestingar

Við mótun stefnu um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum og framkvæmd hennar er mikilvægt fyrir lífeyrissjóð að horfa til inntaks umboðsskyldu sinnar eins og henni er lýst hér að ofan. Þá þarf að hafa í huga almennar lagaskyldur, siðferðisleg viðmið, réttmætar væntingar og hagsmuni sjóðfélaga en sjóðfélagar eru langt frá því einsleitur hópur. Hafa verður í huga fjárhagslegan tilgang varðandi ávöxtun eignasafna sjóðsins og skoða önnur viðmið í því ljósi.

Það er almennt viðurkennt að beiting UFS greiningar og UFS aðferðafærði við fjárfestingaákvarðanir og umsýslu eignasafna hefur vaxandi þýðingu við eignastýringu, sbr. m.a. umfjöllun í kafla um ábyrgar fjárfestingar. Aukin áhersla er á að fyrirtæki, sem er fjárfest í, taki tillit til sjálfbærni í rekstri. Hér skiptir þróun innlendrar löggjafar, EES-réttar og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands máli. Þá geta sjónarmið og upplýsingar vísindasamfélagsins og straumar og stefnur í þjóðfélaginu varðandi auknar áherslur á samfélagsábyrgð og sjálfbærni haft áhrif.

Varðandi lagareglur er m.a. vísað til framangreindra fimm vegvísa í 1. mgr. 36. gr. Lífeyrissjóðalaganna og ákvæða laga um ársreikninga, einkum gr. 66 og 66-d. Auk þess er vísað til ýmissa tilskipana í ESB-rétti Þær eru meðal annars:

  • Tilskipun um starfstengda lífeyrissjóði nr. EU/2016/2341 (IORPs II: Institution for Occupational Retirement Provision).
  • Tilskipun nr. EU/2017/828 um eigendahlutverk hluthafa, réttindi og skyldur með áherslu á langtímasýn (Shareholders Right Directive II).
  • Reglugerð nr. EU/2019/2088 um skilgreiningarkerfi varðandi umhverfislega sjálfbæra starfsemi fyrirtækja (EU-Taxonomy).
  • Reglugerð nr. EU/2019/2088 um upplýsingar um sjálfbærnitengda þætti í fjármálageiranum (SFDR: Sustainable Finance Disclosure Regulation).
  • Væntanleg tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD Corporate Sustainability Reporting Directive) sem mun koma í stað gildandi tilskipunar um ófjárhagslegar upplýsingar nr. EU/2014/95 (NFRD: Non-Financial Reporting Directive) sem var innleidd með gr. 66-d í lögum um ársreikninga.

Nefndar tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins falla undir gildissvið samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þær hafa enn sem komið er ekki allar verið innleiddar í íslenskan rétt. Þá þarf að skoða sérstaklega hvort og með hvaða hætti tilskipanirnar varða starfsemi lífeyrissjóða beint. Þær eru nefndar hér því þær hafa verulega þýðingu fyrir inntak sjálfbærni í starfsemi stofnanafjárfesta og hafa þýðingu fyrir umræðu um ábyrgar fjárfestingar.

Hvað ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar og stefnur varðar er m.a. vísað til Parísarsáttmálans frá 2015 um aðgerðir gegn hnattrænni hlýnun, til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun frá 2015 og til þeirra sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem UN Global Compact byggir á.

Um tengingu rekstrar, lífeyris og umsýslu eignasafna við sjálfbærni

Í samræmi við það sem fram kemur í þessum kafla leggur LV áherslu á umboð sitt og umboðsskyldu með tilliti til laga, stjórnvaldsfyrirmæla, réttarþróunar, viðskiptavenju og annarra gildara viðmiða. Í því sambandi er horft til hagsmuna sjóðfélaga og annarra haghafa og faglegra vinnubragða sem mikilvægs leiðarljóss. Til að styðja við framsýnan og traustan rekstur taka margþættar áherslur í rekstri mið af sjálfbærniviðmiðum, samanber m.a. umfjöllun í kafla um stefnumótandi áherslur, í kafla um viðskiptalíkan og skipurit og kafla um samfélagsábyrgð. Varðandi sjálfbærniáherslur í rekstri er m.a. vísað til umfjöllunar um viðskiptalíkan og skipurit og UFS þætti í rekstri í kafla um samfélagsábyrgð. Hvað lífeyri varðar er vísað til kafla um lífeyrisafurðir og sjálfbær fjármál lífeyrisþega.

Um eignasöfn, ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærni

Hvað umsýslu eignasafna varðar er einkum vísað til umfjöllunar framar í kafla þessum sem og kafla um umsýslu eignasafna og sjálfbærni sem og stefnu LV um ábyrgar fjárfestingar.

Nokkur atriði ber að nefna sem skipta máli varðandi ábyrgar fjárfestingar:

  • Beiting UFS greiningar í fjárfestingarferli og stýringu eignasafna er til viðbótar hefðbundinni fjármálagreiningu en kemur á engan hátt í stað hennar.
  • Neikvæð skimun fjárfestingarkosta byggir að vissu leyti á vísun til tiltekinna gilda sem metin eru mikilvæg.
  • Jákvæð skimun felur í sér val á fjárfestingarkostum (fyrirtæki eða geirar) sem eru bestir í sínum flokki varðandi viðmið tengd umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og/eða stjórnarháttum.

Útilokun fjárfestingarkosta úr eignasöfnum byggir á tilteknum skilgreindum gildum. Nefna má vinnslu tiltekins jarðefnaeldsneytis, sem er metin sérstaklega skaðleg, framleiðslu tóbaks og umdeildra vopna (t.d. kjarnorkuvopna, klasasprengja, sýkla- og efnavopna og jarðsprengja). Þá má nefna fyrirtæki sem fara í starfsemi sinni gegn viðmiðum UN Global Compact sem vísar til mikilvægra alþjóðasáttmála varðandi mannréttindi, umhverfismál, vinnumarkað og aðgerðir gegn spillingu. Markmiðið í öllum tilvikum er að stuðla að góðri langtímaávöxtun eignasafna og skilvirkri áhættustýringu. Með virku eignahaldi er svo lögð áhersla á samtal við útgefendur fjármálgerninga og eftirfylgni áherslna LV varðandi efnislega þýðingarmikla UFS þætti.

Við þróun og framkvæmd stefnu um ábyrgar fjárfestingar er litið til aðgerðaráætlunar ESB frá árinu 2018 um fjármögnun sjálfbærs vaxtar (COM/2018/097: Action Plan – Financing Sustainable Growth), löggjafar ESB sem varðar sjálfbærni og fjármálamarkaði, sbr. hér að framan og er hluti af gildissviði EES samningsins. Einnig skipta máli upplýsingar um þróun mikilvægra þátta í umhverfismálum, m.a. á vettvangi IPCC – The Intergovernmental Panel on Climate Change. Þannig er leitast við að meta eftir því sem tök eru á langtímahagsmuni við umsýslu eignasafna LV með tilliti upplýsinga um þróun efnislega mikilvægra þátta sem varða umhverfismál og félagsleg mál. Hér er að nógu að taka og ljóst að LV þarf að treysta á samstarf og leiðsögn ýmissa aðila svo sem á fjármálamarkaði, hjá stjórnvöldum, löggjafanum og vísindasamfélaginu.

Markmiðið í öllum tilvikum er að stuðla að góðri langtímaávöxtun eignasafna og skilvirkri áhættustýringu.

Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld stefna að innleiðingu mikilvægra gerða ESB sem varða sjálfbærni í rekstri og ábyrgar fjárfestingar á næstu misserum. Þá er ákveðinn vegvísir í lögum nr. 129/1997 (lífeyrissjóðalögin) samanber framangreint.

Það er hins vegar mikilvægt að lagt verði mat á það hvort þörf sé fyrir skýrari reglur um réttindi og skyldur lífeyrissjóða til að samþætta UFS greiningu í fjárfestingarferli og umsýslu eignasafna.

Í því sambandi er æskilegt að litið sé til reglna sem gilda um samskonar starfsemi innan EBS, m.a. reglur um starfstengda lífeyrissjóði, sbr. tilskipun ESB frá 2016.

Að sama skapi skiptir máli að fylgst sé náið með þróun á alþjóðavettvangi hvað þetta varðar, m.a. á vettvangi Alþjóðareikningsskilaráðsins og nýstofnaðrar einingar á þeirra vegum (ISSB – International Sustainability Standards Board).

Samantekt

Með vísan til framangreinds verður að telja að það sé í góðu samræmi við umboð LV að leggja aukna áherslu á sjálfbærni í rekstri sjóðsins almennt og við stýringu eignasafna.

Það felur meðal annars í sér greiningu og mat á UFS þáttum við reksturinn og við umsýslu eignasafna sjóðsins. Sjálfbærniskýrsla og þróun stefnu um ábyrgar fjárfestingar er liður í þessari vegferð. Hér eftir sem hingað til er áhersla lögð á að byggja sem best undir trausta langtímaávöxtun eignasafna LV.

Aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og UFS greining kemur til viðbótar hefðbundnum eignastýringaraðferðum og gildum viðmiðum, í takt við gildandi lög og reglur á hverjum tíma.

____________________________________________________________________________________________________________________

[8] Hér er m.a. stuðst við umfjöllun í bókinni Umboðsskylda eftir Ólaf Frey Kristjánsson, útgefin af Arion banka 2017 (bls. 12 til 14) og ritinu Fuduciary Duty in the 21st Century, útgefnu af nokkrum alþjóðastofnunum 2015, (m.a. bls. 11 og 12).

[9] Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Sjálfbærniskýrsla

Umsýsla eignasafna

Sjálfbærniskýrsla

Viðauki