Stjórnarhættir

Hluthafastefna

Í stefnu þessari eru kynntar áherslur stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) varðandi viðmið um stjórnarhætti í þeim félögum sem sjóðurinn á eignarhlut í. Það er markmið stjórnar LV að stefnan styðji við góða stjórnarhætti félaga og þróun þeirra.

Stefnan kemur í stað áður gildandi hluthafastefnu sjóðsins. Í henni eru kynnt þau viðmið sem LV leggur áherslu á við meðferð eignarhalds í hlutafélögum sem eru skráð á hlutabréfamarkaði og sjóðurinn fer með eignarhlut í. Stefna þessi gildir einnig eftir því sem við á fyrir óskráð félög sem LV hefur fjárfest í. Eðli málsins samkvæmt er stefnunni fyrst og fremst beint til félaga sem skráð eru á Íslandi. Þó gilda grundvallarviðmið hennar einnig fyrir félög sem sjóðurinn er hluthafi í og skráð eru erlendis.

Stefnan felur í sér stefnumarkandi atriði sem lögð er áhersla á en um leið er tekið fram að ekki er um ófrávíkjanlegar reglur að ræða og fer mat á áherslum og eftirfylgni eftir atvikum hverju sinni.

Við framkvæmd stefnunnar og eftirfylgni varðandi einstök atriði er m.a. litið til fjárhæðar og hlutfalls eignarhlutar LV í viðkomandi félagi, stærðar viðkomandi félags og möguleika sjóðsins á að hafa áhrif á þau atriði sem um ræðir.

Hlutahafastefnu sjóðsins má finna hér

Stjórnarháttayfirlýsing 2021

Stjórnarháttayfirlýsing Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er sett með vísan til 51. gr. reglna Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða. Yfirlit, ýmis lög, reglugerðir og ýmsar innri reglur LV eru aðgengilegar á vef sjóðsins, live.is. Einnig er vísað til skýrslu stjórnar, ársreiknings og ársskýrslu sjóðsins og sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2021.

Lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun sjóðsins. Með stjórnarháttayfirlýsingu er sjóðfélögum, iðgjaldagreiðendum, opinberum aðilum, starfsmönnum og öðrum haghöfum veittar upplýsingar um stjórnarhætti lífeyrissjóðsins. Yfirlýsingunni er jafnframt ætlað að styðja við góða stjórnarhætti hjá sjóðnum og styðja þannig við traustan rekstur.

Stjórnarháttayfirlýsing LV fyrir árið 2021 byggir á þeim lögum og reglum sem í gildi eru á þeim tíma sem ársreikningur sjóðsins er staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þeirra ákvæða laga nr. 129/1997 sem lúta að stjórnarháttum lífeyrissjóða, ákvæða samþykkta sjóðsins, reglna FME þar um, m.a. reglna nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða sem og 6. útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins.

Stjórnarháttaryfirlýsingu sjóðsins má finna hér

Grunngildi LV

  • Ábyrgð

    Með ábyrgð er lögð áhersla á fagmennsku, áræðni og samviskusemi sem birtist m.a. í vandaðri áhættustýringu, eftirfylgni með fyrirtækjum sem fjárfest er í og áherslu á góða stjórnarhætti. Til grundvallar þurfa að liggja vönduð vinnubrögð, hæft starfsfólk og skýr skilaboð frá stjórn um ábyrg vinnubrögð

  • Umhyggja

    Með umhyggju er lögð áhersla á heilindi og ráðvendni sem birtist m.a. í frumkvæði í þjónustu og góðu viðmóti. Lögð er áhersla á að virkja og hvetja starfsmenn í starfi og að þeir séu þátttakendur í stefnumótun og markmiðssetningu sjóðsins

  • Árangur

    Með árangri er áhersla lögð á að keppa að settum markmiðum og skila góðu starfi við stjórnun og í öðrum störfum fyrir sjóðinn. Þessi markmið birtast m.a. í áherslum á skilvirkni og arðsemi, stöðugleika í rekstri, starfsánægju og opnum stjórnarháttum og vilja til að veita sjóðfélögum á öllum aldri góða þjónustu.

Ársskýrsla

Áhættustýring