Séreign - sjóðfélagi hefur val
Sjóðfélagi hefur val um að greiða í séreign en með því að leggja fyrir 2-4% af launum sínum fær hann 2% mótframlag frá launagreiðanda. Það er til viðbótar allt að 3,5% framlagi í tilgreinda séreign. Sjóðfélagi getur valið um þrjár ávöxtunarleiðir, meðal annars eftir aldri og áhættu.
Með lífeyrissparnaði í séreign getur sjóðfélagi tryggt sér mikilvæga eign til framfærslu eftir starfslok og eykur sveigjanleika í lífeyrismálum. Það er mikilvægt að skoða málið vel og meta miðað við eigin forsendur.
Þá hefur verið heimilt að ráðstafa séreign skattfrjálst inn á húsnæðislán og einnig til fjármögnunar á fyrstu íbúð. Slíkar heimildir byggja á lögum á hverjum tíma.
Upphaf lífeyristöku og skipting réttinda
Upphaf töku lífeyris og úttektar séreignarsparnaðar
- Almenna reglan er að sjóðfélagi hefji lífeyristöku 67 ára. Þó er hægt að flýta því um tvö ár eða seinka til allt að 80 ára aldurs. Séreign er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur.
- Tilgreind séreign er laus til útgreiðslu við 67 ára aldur sem þó er hægt að flýta og byrja 62 ára. Þá er séreign erfanleg að fullu til afkomenda í samræmi við erfðalög.
Skipting réttinda á milli hjóna
- Hjón og sambúðarfólk má gera samning um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda. Auk þess má gera samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna eftir að taka lífeyris hefst.
Sjálfbær fjármál sjóðfélaga
Upplýsingamiðlun
LV leggur áherslu á að sjóðfélagar geti fengið áreiðanlegar upplýsingar hjá ráðgjöfum sjóðsins og á heimasíðu og sjóðfélagavef. Við upplýsingamiðlun er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi:
- Upplýsingar séu aðgengilegar svo sjóðfélagi þekki eðli réttinda sinna, kosti þeirra og takmarkanir.
- Upplýsingamiðlun sé vönduð svo sjóðfélagi geti tekið upplýsta ákvörðun um lífeyrismál sín út frá eigin forsendum.
Sjálfbærniþættir
Fjárhagsleg sjálfbærni skiptir sjóðfélaga máli, það er að hafa nægilegar tekjur þegar hefðbundnum atvinnutekjum lýkur. Það gerist ekki af sjálfu sér að eftirlaun verði ásættanleg, en með því að byrja nægilega snemma að huga að lífeyrismálum sínum, skipuleggja sig og spara getur lífeyrir orðið sjálfbær. Þar skipta m.a. eftirfarandi atriði máli:
- Ævilangur lífeyrir. Með því að greiða í sameign ávinnst réttur til ævilangs lífeyris sem tryggir sjóðfélaga afkomu til æviloka. Hann er því ekki í hættu á að lífeyrir hans klárist við ákveðin aldursmörk.
- Séreign. Með því að greiða í séreign verða starfslok sveigjanlegri. Samþætting séreignar og sameignar veitir sjóðfélaga fjárhagslega vernd og val. Sjóðfélagi getur t.d. stjórnað með hvaða hætti hann tekur út séreign sína og stýrt því þannig að lífeyristekjur séu hærri fyrstu árin eftir starfslok. Sjóðfélagi hefur val um að nýta séreign inn á lán skattfrjálst og til fyrstu íbúðarkaupa eftir ákveðnum reglum.
- Örorkulífeyrir. Með því að greiða í sameignardeild ávinnst réttur til örorkulífeyris. Eftir tiltekinn tíma myndast réttur til framreiknings og öðlast sjóðfélagi örorkulífeyrisréttindi og ellilífeyrisréttindi eins og hann hefði haldið áfram að greiða í lífeyrissjóð til 65 ára aldurs.
- Vernd fjárhagslega tengdra aðila við fráfall. Maka- og barnalífeyrir veitir mikilvæga fjárhagslega vernd við fráfall sjóðfélaga. Séreignarsparnaður greiðist til erfingja samkvæmt reglum erfðalaga.
- Félagsleg vernd. Ákvæði laga um lífeyrissjóði og samþykktir LV tryggja ákveðið jafnvægi og mikilvæga vernd fyrir tiltekna hópa. Þannig er t.a.m. greitt iðgjald af hlutastörfum og atvinnuleysisbótum en sú er ekki alltaf raunin í öðrum löndum. Þá er tryggingavernd ekki háð sjúkrasögu, ættarsögu eða aldri. Iðgjöld veita þó meiri lífeyrisréttindi eftir því sem sjóðfélagi er yngri þegar iðgjöld eru greidd þar sem sjóðurinn hefur þau lengur til ávöxtunar.
Árleg tryggingafræðileg athugun
Til að tryggja sem best jafnvægi milli skuldbindinga og eigna, framkvæmir tryggingastærðfræðingur árlega úttekt á sjóðnum. Þetta er ein af grundvallarreglum lífeyrisréttar og tryggir ákveðið jafnræði milli mismunandi aldurshópa sjóðfélaga.
Áskoranir vegna hækkandi meðalaldurs sjóðfélaga
Líkt og aðrir lífeyrissjóðir stendur LV frammi fyrir því að laga réttindakerfi sjóðsins að hækkandi meðalaldri sjóðfélaga. Sú þróun leiðir til þess að lífeyrir er greiddur í fleiri ár en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Það þarf því annað hvort að hækka lífeyristökualdur og/eða lækka mánaðarlegar greiðslur. Fyrir ársfund sjóðsins í mars 2022 liggja tillögur stjórnar til samþykktabreytinga til að bregðast við áhrifum hækkandi lífaldurs sjóðfélaga.
Góð tryggingafræðileg staða sameignardeildar leiðir til þess að ekki þarf að koma til lækkunar lífeyrisgreiðsla lífeyrisþega. Þvert á móti þá er svigrúm til að hækka áunnin mánaðarleg réttindi allra sjóðfélaga vegna réttindabreytinga sem koma til á tímabilinu október 2021 til ársloka 2022. Réttindi yngstu sjóðfélaganna hækka um 6,7% en fara svo hækkandi eftir aldri og hækka mest hjá þeim sem hafa öðlast rétt til töku lífeyris. Þannig hækka réttindi til mánaðarlegs lífeyris hjá þeim sem hafa náð 65 ára aldri um 18%. Ítarlega er gerð grein fyrir þessum breytingum í ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 2021 og gögnum með samþykktabreytingum sem eru til kynningar og afgreiðslu á ársfundi sjóðsins 29. mars 2022.
Þróun lífeyrisafurða og þjónustu með hliðsjón af sjálfbærni
Áhersla er á að upplýsingar um lífeyrisréttindi séu aðgengilegar og settar fram á skiljanlegan hátt. Lögð verður áhersla á áframhaldandi þróun á sjóðfélagavefnum með það markmið að allar viðeigandi upplýsingar séu aðgengilegar ásamt því að sjóðfélagvefurinn verði aðgengilegur á ensku.
Það er mikilvægt að sjóðfélagar þekki sín réttindi og búi sig undir starfslokin. LV mun því halda áfram að upplýsa sjóðfélaga um allar hliðar starfsloka og lífeyrisréttinda.
Í sjálfbærniskýrslu LV fyrir árið 2020 voru kynnt nokkur áherslumarkmið og aðgerðir varðandi þróun lífeyrisafurða og þjónustu LV á árinu 2021 með skírskotun til heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Verkefnin taka einnig mið af stefnumótun LV til 2030 og áherslum varðandi stefnumiðaða sjálfbærni.
- Í kafla um samfélagsábyrgð framar í skýrslunni er gerð grein fyrir framvindu verkefna áherslumarkmiðanna á árinu 2021. Almennt gekk vel að vinna að settu markmiði þó einhverjum verkefnum sé ólokið. Að þeim er unnið áfram á þessu ári.
- Í sama kafla eru sett uppfærð áherslumarkmið og aðgerðir/verkefni skilgreind til að vinna að framkvæmd þeirra.
Upplýsingar um lífeyri og iðgjöld í ársskýrslu
Ýmsar gagnlegar upplýsingar um lífeyri, iðgjöld og tryggingafræðilega stöðu er að finna í ársskýrslu sjóðsins og ársreikningi.
- Í kaflanum um lífeyri er m.a. að finna upplýsingar um þróun iðgjalda til sjóðsins, útgreiddan lífeyri, tryggingafræðilega stöðu sameignardeildar sem og upplýsingar um almenna og tilgreinda séreign.
- Í skýringu 16 í ársreikningi sjóðsins er að finna sundurliðaða úttekt á tryggingafræðilegri stöðu sameignardeildar.
- Í kaflanum um lífeyri er einnig að finna umfjöllun um breytingar á samþykktum og réttindakerfi sjóðsins.