Samfélagsábyrgð

Áfangar í sjálfbærnivegferð

Áhersla á sjálfbærni í starfsemi LV hefur farið vaxandi undafarin ár. Á árinu 2021 steig LV mörg og ákveðin skref á sjálfbærnivegferð sinni.

Sjóðurinn setti sér þannig heildstæða stefnu um ábyrgar fjárfestingar í samræmi við innlend og erlend viðmið. Á sama tíma var mörkuð stefna um að útiloka tiltekna fjárfestingarkosti í eignasöfnum sjóðsins. Þá var sett á fót nefnd innan sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar. Hana skipa auk framkvæmdastjóra, forstöðumaður eignastýringar, áhættustjóri og yfirlögfræðingur. Þá gerðist LV aðili bæði að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og CIC – Climate Investment Coalition, samstarfi um fjárfestingar í sjálfbærri orkuframleiðslu og annarri starfsemi sem stuðlar að jákvæðri þróun loftslagsmála.

Til að fylgja eftir áherslum varðandi sjálfbærni í starfsemi sjóðsins var fræðsluátaki ýtt úr vör sem felst í jafningjafræðslu. Starfsfólk lögfræðisviðs, eignastýringar og áhættustýringar, auk framkvæmdastjóra, annast fræðslu fyrir hópinn, þ.e. starfsfólkið sem kemur aðallega að ábyrgum fjárfestingum innan LV. Að auki hefur LV lagt aukna áherslu á samtöl og skoðanaskipti við innlenda og erlenda aðila um ábyrgar fjárfestingar.

Sjálfbærnivegferð

Mikilvægisgreining

Samhliða greiningu og forkönnun á heimsmarkmiðunum, með viðtölum við stjórnendur í tengslum við gerð sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2020, var gerð viðhorfskönnun meðal starfsfólks og stjórnar um stuðning við og áhrif á heimsmarkmiðin.

Forkönnunin var unnin með hópi starfsfólks sem hefur góða reynslu sem nýtist við innleiðingu aukinnar áherslu á sjálfbærni í starfsemi LV.

Niðurstöður sýndu glögglega að LV getur stutt við öll heimsmarkmiðin með beinum eða óbeinum hætti enda tengjast þau mjög innbyrðis og taka sum hver á sömu áherslum.

Nú hafa verið valin sjö heimsmarkmið sem talið er að sjóðurinn geti stutt best við og haft áhrif á.

Mikilvægisgreining sjálfbærniþátta

Í upphafi árs 2022 var unnið áfram að mikilvægisgreiningu sjálfbærniþátta þar sem leitað var viðhorfa sjóðfélaga, stjórnar og starfsmanna LV til mikilvægis áhrifa sjóðsins á þætti sjálfbærrar þróunar; efnahagsþætti, umhverfisþætti og félagslega þætti.

Meðfylgjandi mynd sýnir meginniðurstöður mikilvægisgreiningar. Þar kemur fram að haghafar eru sammála um að leggja beri mesta áherslu á góða stjórnarhætti, ábyrgar fjárfestingar, persónuvernd og öryggi gagna, mannréttindi og réttindi starfsfólks og jafnrétti.

Viðhorf haghafa geta auðveldað sjóðnum áframhaldandi greiningu á áherslum og setja markmið í þeirri viðleitni að stuðla að aukinni sjálfbærri þróun.

mikilvægisgreining

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun

Áhersluverkefni tengd sjálfbærri þróun

Við innleiðingu og val á áhersluþáttum sjálfbærrar þróunar getur framlag starfsfólks og annarra haghafa skipt sköpum fyrir árangur. Stjórn, stjórnendur og annað starfsfólk tóku virkan þátt í greiningu á áherslum sjóðsins gagnvart heimsmarkmiðunum eins og grein var gerð fyrir í samfélagsskýrslu LV fyrir árið 2020. Sameiginleg þekking og sýn þeirra eru hluti af þeim stoðum sem starfsemi sjóðsins byggir á.

Við gerð þessarar skýrslu voru sjónarmið annarra haghafa einnig tekin með í reikninginn á grundvelli greiningar meðal hóps ytri haghafa eins og nánar er gert grein fyrir í umfjöllun um haghafa.

Í fyrra var horft til allra heimsmarkmiðanna. Í ár er fókusinn skerptur og sjö heimsmarkmið tilgreind sem áherslumarkmið. Hér er gerð grein fyrir verkefnum sem sett voru á dagskrá í fyrra og einnig nýjum verkefnum fyrir komandi ár.

Framvinda áherslumarkmiða sem kynnt voru í sjálfbærniskýrslu 2020

Í sjálfbærniskýrslu LV 2020 voru kynnt 23 aðgerðatengd verkefni með það að markmiði að styðja við ákveðin áherslumarkmið sem tengjast sjálfbærni í starfsemi LV. Á grundvelli greiningar voru verkefnin tengd við tiltekin heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Áherslumarkmiðin og verkefnin voru í fjórum yfirflokkum:

  • Efla lífsgæði og grunnþarfir
  • Góð atvinna og nýsköpun
  • Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og loftslagsmál
  • Samvinna og réttlæti

Verkefnin/aðgerðirnar eru svo flokkaðar eftir því hvort þær eigi við rekstur, lífeyri eða eignasöfn. Hér er stutt yfirlit yfir framvindu helstu verkefna sem unnið hefur verið að á árinu 2021.

Efla lífsgæði og grunnþarfir

Rekstur

  • Jafnréttisstofa hefur samþykkt nýja jafnréttisáætlun og framkvæmdaáætlun LV í jafnréttismálum.
  • Ný jafnlaunastefna hefur verið gefin út.
  • Fjarvinnustefna var unnin í samráði við starfsfólk. Markmiðið er að auka sveigjanleika í starfi og draga úr ferðum til og frá vinnu.
  • Unnið er að innleiðingu jafnlaunakerfis í samræmi við staðalinn ÍST85:2012 og stefnt að því að ljúka vottun á fyrri hluta ársins 2022.
  • Fræðslustefna hefur verið uppfærð í takt við áherslur í rekstri LV. Í henni er m.a. litið til þess að auka hæfni starfsfólks og möguleika til þróunar í starfi.
  • Starfsfólki stendur til boða samningur um samgöngustyrk vegna vistvænna samgangna. Aðstaða fyrir geymslu á hjólum hefur verið bætt.

Lífeyrir

  • Ýmsar nýjungar hafa verið kynntar á sjóðfélagavef sem bæta aðgengi sjóðfélaga að upplýsingum um lífeyri sinn og auka möguleika á rafrænni þjónustu.
  • Farið var yfir enska vefinn, umsóknir og upplýsingar uppfærðar.

Eignasöfn

  • Stjórn gaf út heildstæða stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem tekur til fjárfestingarferlis, meðferðar eigendahlutverks og upplýsingamiðlunar. Unnið er að innleiðingu stefnunnar og rýni á hluthafastefnu LV.

Góð atvinna og nýsköpun

Lífeyrir

  • LV hefur tekið virkan þátt í vinnu á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða við að undirbúa fyrirhugaða grænbók stjórnvalda um lífeyriskerfið. Sú vinna mun nýtast vel í vinnu við grænbókina. Þá styður sú vinna við störf starfsmanna LV innan sjóðsins í þágu sjóðfélaga.
  • Átak hefur verið gert í nýtingu stafrænnar þjónustu og var mikil áhersla lögð á að koma umsóknum yfir á rafrænt form.
  • Á grundvelli rýni á samþykktum LV eru lagðar fyrir ársfund sjóðsins árið 2022 tillögur til fjögurra breytinga á samþykktum. Þær lúta að því að gera lífeyrisafurðir sjóðsins aðgengilegri fyrir sjóðfélaga. Þar má nefna að hægt er að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri í stað 65 ára áður, lágmarks makalífeyrir er hækkaður, réttur til framreiknings vegna örorku- og makalífeyris þeirra sem taka tímabundið hlé frá vinnumarkaði er bættur og endurútreikningur lífeyris lífeyrisþega sem ávinna sér rétt vegna vinnu samhliða töku ellilífeyris er gerður árlega í stað 67 og 70 ára. Nánari upplýsingar er að finna í texta samþykktabreytinga og greinargerð sem er aðgengileg á vef sjóðsins og er til umfjöllunar á ársfundi LV 29. mars 2022.

Eignasöfn

  • Stjórn hefur gefið út heildstæða stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Innleiðingu á að ljúka fyrir árslok 2022.
  • LV gerðist aðili að CIC (Climate Investment Coalition) árið 2021.
  • Unnið er að því að efla þekkingu á sjálfbærum fjárfestingum og eflingu innlendra og erlendra tengsla í því sambandi.

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og lotfslagsmál

Rekstur

  • Unnið er að betri nýtingu aðfanga og lágmörkun úrgangs vegna rekstur skrifstofu LV. Tekið var upp flokkunarkerfi fyrir úrgang. Einnig var tekið upp skráningarkerfi í hádegismat starfsfólks til að sporna við matarsóun og bæta nýtingu hráefna.
  • Unnið er að gerð innkaupastefnu og sjálfbærnistefnu fyrir rekstur skrifstofu. Stefnt er að því að gefa stefnurnar út fyrri hluta ársins 2022.

Eignasöfn

  • Stefnt var að því að innleiða verklagsreglur um greiningu umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta eignasafna LV í tengslum við gerð stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Verkefnið hefur reynst umfangsmeira en gert var ráð fyrir. Unnið er að því að byggja upp þekkingu innan sjóðsins, skilgreina mælikvarða og afla gagna. Gagnasöfnun er krefjandi verkefni þar sem upplýsingarnar eru ekki birtar með samræmdum hætti af útgefendum verðbréfa, ekki er alltaf hægt að ganga úr skugga um áreiðanleika þeirra og stundum eru þau ekki fullnægjandi. Áfram verður unnið að þessu verkefni. Markmiðið er að kynna áfanga í því á þessu ári en ljóst er að áframhaldandi vinna við það verður viðvarandi næstu árin.

Samvinna og réttlæting

Rekstur

  • LV framkvæmdi í fyrsta sinn formlega könnun á viðhorfi haghafa. Könnunin var gerð á meðal sjóðfélaga, starfsfólks og stjórnarmanna, þar sem leitað var eftir afstöðu til áherslna og aðferða varðandi sjálfbærni í rekstri og mikilvægi umhverfisþátta, félagslegra þátta og rekstrar. Afrakstur könnunarinnar er nýttur við gerð mikilvægisgreiningar sem gerð er grein fyrir í kafla um samfélagsábyrgð.
  • Stórt skref er stigið til að gera sjálfbærniskýrslu LV aðgengilegri með því að gefa skýrsluna út í vefútgáfu samhliða PDF útgáfu. Efnistök skýrslunnar eru þróuð áfram með það að markmiði að auka gagnsæi. Stefnt er að frekari skrefum í þeim efnum á árinu 2022.

Eignasöfn

  • LV hefur tekið virkan þátt í verkefnum tengdum ábyrgum fjárfestingum á vettvangi LL. Þá er sjóðurinn aðili að PRI (Principles for Responsible Investment), IcelandSif og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Áhersla er lögð á að taka virkan þátt í starfsemi þessara samtaka. Sjóðurinn hefur einnig nýtt sér viðburði og fræðslustarf IcelandSif.
  • Með aðild að CIC (Climate Investment Coalition) hefur LV fengið tækifæri til að byggja upp tengsl við erlenda aðila sem munu nýtast við innleiðingu stefnu um ábyrgar fjárfestingar og öflun arðvænlegra verkefna á sviði sjálfbærrar orkuframleiðslu, bættrar orkunýtingar og tengdra verkefna.
  • Starfsfólk LV hefur tekið þátt í umræðu um sjálfbærar fjárfestingar á ýmsum opinberum vettvangi. Það er mat sjóðsins að almenn þátttaka, samvinna, tengslamyndun og þekkingaruppbygging í samstarfi við aðra aðila á markaði sé mikilvæg til að vinna að því víðtæka verkefni sem sjálfbærni í rekstri er og í þágu þeirra hagsmuna sem LV gætir fyrir sjóðfélaga.

Áherslumarkmið og verkefni sem unnið verður að á árinu 2022 og áfram

Í þeim tilgangi að tengja áherslur í rekstri með skilvirkum og árangursríkum hætti við heimsmarkmiðin er áhersla lögð á sjö þeirra sem forgangsmarkmið:

Stoðir í sjálfbærnistefnu LV

Greiningin var unnin með tilliti til lykilrekstrarþátta sjóðsins sem eru

  • almennur rekstur
  • lífeyrir
  • eignasöfn

Áherslumarkmiðin eru þematengd þar sem mörg heimsmarkmiðanna tengjast og áherslur geta haft áhrif á fleiri en eitt þeirra.

Þemun fjögur eru:

  • Efling lífsgæða og grunnþarfa
  • Góð atvinna og nýsköpun
  • Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og loftslagsmál
  • Samvinna og réttlæti

Góð atvinna og nýsköpun

Lífeyrir

ÁherslumarkmiðAðgerðViðmið / áfangarTími
Fylgjast með og leitast við að bregðast við þróun sem leiðir af breyttri samfélagsgerð/fjölskyldugerð. Vinna að því að nýta starfrænar dreifileiðir til fulls.Ljúka við að setja allar umsóknir tengdar lífeyri á stafrænt form. Aukin nýting sjóðfélagavefs og samfélagsmiðla til upplýsingagjafar.Viðvarandi
Efla nýsköpun í vöruúrvali/ þjónustuleiðum sjóðfélaga. Greina og kynna betur möguleika sjóðfélaga á sveigjanlegum starfslokum, m.a. samþættingu lífeyris og vinnu.Uppfæra upplýsingar, áherslur í ráðgjöf og virkni lífeyrisreiknivélar LV.2022 -2024
Auka áherslu á mikilvægi samhengis traustrar fjárhagslegrar afkomu við starfslok, sterkrar félagslegrar stöðu og góðrar heilsu.Gera ráðgjöf um uppbyggingu lífeyrisréttinda aðgengilegri. Hvetja sjóðfélaga til að huga að samhengi fjármála, heilsu og félagslegrar stöðu við starfslok.2022 - 2024
ÁherslumarkmiðAðgerðViðmið / áfangarTími
Aukin áhersla á eignir sem styðja við nýsköpun, aukna sjálfbærni í rekstri og ábyrgari virðiskeðju innan lands og utan. Horft er til innlendra og erlendra fjárfestingarkosta, m.a. útgefenda verðbréfa sem fylgja markvissri stefnu varðandi sjálfbærni.Fylgjast með og styðja við áherslur fyrirtækja í þróun nýrra lausna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka sjálfbærni í rekstri almennt. Litið er til rótgróinna fyrirtækja sem og nýsköpunarfyrirtækja.Nýta eigendaáhrif til að styðja við rannsóknir og þróun í rekstri tengdri sjálfbærni.2022 og 2023
Greina tækifæri í fjárfestingum tengdum nýsköpun í lausnum sem stuðla að sjálfbærum rekstri fyrirtækja.Virkja tækifæri sem felast í aðild LV að CIC og tengdum verkefnum. Kynna áfanga fyrir haghöfum.2022 - 2030

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og loftslagsmál

Rekstur

ÁherslumarkmiðAðgerðViðmið / áfangarTími
Kaup á aðföngum og þjónustu styðji við sjálfbærni.Innleiða nýja innkaupastefnu. Kortleggja umhverfisáhrif innkaupa sjóðsins.Yfirfara samninga m.t.t. stefnuviðmiða innkaupastefnunnar og lista umbótatækifæri í innkaupum m.t.t. jákvæðra áhrifa þeirra á umhverfið.2022 og 2023
Áhersla á að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda tengdum rekstri LV sem og öðrum mögulegum neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag.Útgáfa heildstæðrar stefnu LV um sjálfbærni í rekstri, lífeyri og eignasöfnum.Útgáfa og innleiðing.2022

Samvinna og réttlæting

Rekstur

ÁherslumarkmiðAðgerðViðmið / áfangarTími
Efla samstarf við haghafa um sjálfbæra þróun, sem stuðlar að vitundarvakningu og miðlun traustra og gagnsærra upplýsinga.Þróa áfram greiningu og samtal við haghafa varðandi sjálfbærni í starfsemi LV.Greina væntingar haghafa til sjóðsins og útfæra umbætur á samskiptaleiðir til haghafa.2022 til 2025

Rekstur og UFS þættir (umhverfismál, félagslegir þættir, stjórnarhættir)

Hér er fjallað um rekstur LV með tilliti til UFS viðmiða; umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Umfjöllunin byggir meðal annars á UFS leiðbeiningum Nasdaq nr. 2.0, útgefnum í febrúar 2020.

Sjóðurinn hefur skrifstofur í Reykjavík og eru UFS þættir vegna þeirrar starfsaðstöðu skoðaðir. Þetta er þriðja árið sem LV miðlar upplýsingum um UFS þætti reksturs.

Umhverfisþættir og verndun loftslags

LV leggur áherslu á að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum starfseminnar og stuðla að jákvæðum áhrifum á starfsfólk, samstarfsaðila og aðra haghafa. Vegna eðlis starfseminnar, sem felst í rekstri skrifstofu sjóðsins, hefur reksturinn óveruleg umhverfisáhrif. Við greiningu og uppgjör vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er byggt á svonefndum GHG staðli (e. The Greenhouse Gas Protocol). Samkvæmt staðlinum er mælingum skipt í umfang:

  • Umfang 1 mælir beina losun frá kjarnastarfsemi
  • Umfang 2 mælir óbeina losun vegna orkukaupa
  • Umfang 3 sem nær til annarrar óbeinnar losunar

Við útreikninga var stuðst við losunarstuðla frá birgjum. Losunarstuðlar umfangs 2 byggjast á stuðlum frá Veitum og ON. Við útreikninga á umfangi 3 var notast við losunarstuðul Umhverfisstofnunar fyrir úrgang, reiknivél Icelandair fyrir flug og meðalútblástur fólksbíla frá Orkusetrinu fyrir árið 2021. Tölur vegna 2019 og 2020 hafa verið uppfærðar með nýjum losunarstuðlum.

Fyrir ferðavenjur starfsfólks var áætlað að meðalvegalengd frá heimili til vinnu væri 6,5 km á höfuðborgarsvæðinu og að hver starfsmaður mæti 223 daga á ári til vinnu. Gert er ráð fyrir að 4% starfsmanna sé á rafmagnsbílum, sem var hlutfall rafbíla af heildarfjölda skráðra fólksbíla árið 2021 skv. upplýsingum frá Samgöngustofu. Tekið var tillit til þess að þrír starfsmenn mæta alltaf gangandi eða hjólandi til vinnu.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Engin bein losun reiknast af rekstri sjóðsins. Sjóðurinn á engar bifreiðar og reiknast því engin bein losun vegna eigin ökutækja og eldsneytiskaupa.

Óbein losun, sem fellur til undir umfang 2, reiknast vegna rafmagns og vatnsnotkunar á skrifstofu. Önnur óbein losun, sem fellur til undir umfang 3, sýnir losun vegna úrgangs, áætlaðar tölur vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu og ferðir á vinnutíma, flugferðir og utanlandsferðir. Tölur vegna úrgangs eru áætlaðar út frá heildarúrgangi og fjölda starfsmanna. Áhersla er lögð á flokkun úrgangs sem fellur til af rekstri LV.

Starfsfólk flokkar og skilar til endurvinnslu raf- og rafeindatækjum sem eru ekki lengur notuð við rekstur. Prentský hefur verið notað til margra ára til að minnka pappírsnotkun. Fylgst er með pappírsnotkun og hún mæld. Pappírsnotkun var 229.550 blaðsíður árið 2021 samanborið við 328.611 bls. árið 2020. Við rekstur mötuneytis eru matvæli nýtt vel til að sporna við matarsóun. Leitast er við að lágmarka úrgang og það sem fellur til endurvinnslu er flokkað.

Förgun úrgangs er sameiginleg með annarri starfsemi í húsinu og útreikningar miðast við hlutfall LV af fjölda starfsmanna. Vegna eðlis starfsemi LV má reikna með að minni úrgangur falli til vegna starfseminnar heldur en t.d. frá verslunum í húsinu. Hins vegar vantar áreiðanlegar tölur svo hægt sé að taka það með í reikninginn. Umfang 3 er því byggt að verulegu leyti á áætluðum tölum.

Terra annast förgun úrgangs og mælingar. Ferðavenjur eru áætlaðar út frá samtölum við starfsmenn.

Losun úrgangs

CO2 Tonn202120202019
Umfang 10,00,00,0
Umfang 22,62,93,2
Umfang 326,918,325,2
Kolefnisfótspor29,521,228,4

Losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda

Losunarkræfni sýnir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda miðað við helstu úrtaksstærðir reksturs.

202120202019
Heildariðgjöld í milljörðum króna38,535,936,8
Stærð húsnæðis í rúmmetrum4.285,14.285,14.285,1
Fjöldi starfsmanna (ársverk)515047
Losunarkræfni tonn CO2i/iðgjöld í milljörðum0.7670.5910.772
Losunarkræfni tonn CO2i/m3 húsnæðis0.0070.0050.007
Losunarkræfni tonn CO2i/ársverk0.5790.4240.604

Orkunotkun

Taflan sýnir orkunotkun vegna raforku og heits vatns við rekstur skrifstofu. Byggt var á stuðli OR við umbreytingu á heitu vatni úr rúmmetrum í KWst.

202120202019
Vatn MWst376.53411.83414.82
Raforka MWst129.33141.61165.86
Samtals505.86553.44580.68

Orkukræfni

Orkukræfni sýnir orkunotkun í hlutfalli við helstu úttaksstærðir í rekstri húsnæðis og fjölda starfsmanna þar sem miðað er við ársverk.

202120202019
Stærð húsnæðis í rúmmetrum4.285,14.285,14.285,1
Fjöldi starfsmanna / ársverk515047
Orkukræfni á rúmmetra (MWst/m3)0,120,130,14
Orkukræfni á starfsmann (MWst/ársverk)9,9211,0712,35

Samsetning orku

Orkunotkun sjóðsins er vegna hitunar og notkunar rafmagns í skrifstofuhúsnæði. Sjóðurinn kaupir aðeins rafmagn og vatn úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Vatnsnotkun

Taflan sýnir heildarmagn vatns sem er notað á skrifstofu sjóðsins í rúmmetrum, neðst er vatnsnotkun hvers starfsmanns að jafnaði.

202120202019
Heildarnotkun vatns í m3 - heitt7.3838.075,28.452,0
Heildarnotkun vatns í m3 - kalt9321.440,71.426,4
Samtals vatnsnotkun m38.3159.515,99.878,4
Notkun vatns á starfsmann (m3/ársverk)163190,3210,2

Umhverfisstarfsemi, loftslagseftirlit og mildun loftslagsáhættu

LV hefur fylgst með kolefnisfótspori rekstursins árin 2019, 2020 og 2021 en eins og fram hefur komið eru óveruleg umhverfisáhrif af rekstri LV, einkum í samhengi við áhrif eignasafna LV. GHG staðallinn er nýttur við útreikninga umhverfisáhrifa rekstursins. Fylgst er með losun úrgangs frá rekstrinum, endurvinnslu og umhverfisáhrifum vegna ferða starfsfólks þar sem mestra áhrifa gætir. Orkustjórnunarkerfi hefur ekki verið innleitt fyrir reksturinn.

Sjóðurinn getur einna helst beitt sér fyrir mildun umhverfisáhættu (e. Climate risk) með markvissu eftirliti og stýringu eignasafna í ábyrgar fjárfestingar. Gerð er grein fyrir sjálfbærnivegferð LV, sem lýtur m.a. að ábyrgum fjárfestingum, í kafla um samfélagsábyrgð auk þess sem ítarleg umfjöllun er um þennan þátt í starfsemi sjóðsins í kafla um umsýslu eignasafna og sjálfbærni sem og í kafla um lagakröfur og umboðsskyldu með tilliti til sjálfbærni í starfsemi sjóðsins.

Félagslegir þættir

LV leggur ríka áherslu á heilbrigt starfsumhverfi sem styður við velferð og öryggi starfsfólks, jafnrétti og þekkingu. Áherslur LV á sjálfbærni í rekstri varða ekki síst mannauð sjóðsins. Á árinu 2021 voru kynnt leiðarljós nýrrar stefnu sjóðsins til 2030, en au lúta að áherslum í daglegri starfsemi sjóðsins. Leiðarljósin styðja við þróun mannauðs sjóðsins og samþætta hagsmuni sjóðfélaga og starfsfólks. Við kynningu og innleiðingu þeirra var farið í umbótavinnu á öllum stefnum mannauðs þar sem meðal annars var lögð sérstök áhersla á sjálfbærni mannauðs.

Framúrskarandi teymi

LV leggur áherslu á að sjóðurinn sé fyrirmyndar vinnustaður skipaður öflugri liðsheild sem býr yfir góðri þekkingu, reynslu og hæfni. Hjá sjóðnum vinnur samheldin hópur sem býr yfir mikilli þekkingu. Í fræðslustefnu sjóðsins er lögð áhersla á að öllum sé gert kleift að mæta þeim breytingum sem eru hluti nútíma starfsumhverfis, með uppbyggingu og þróun grunnfærni starfsfólks og sértækrar hæfni. Fræðslustefnu sjóðsins er meðal annars fylgt eftir í starfsmannasamtölum þar sem hverjum og einum gefst færi á að vinna að einstaklingsmiðaðri starfsþjálfun í samræmi við markmið sjóðsins.

Starfsumhverfið hefur tekið miklum breytingum undanfarin misseri með tilkomu tæknilausna, breytinga á verklagi og auknum kröfum um upplýsingar og þjónustu. Sjóðurinn mun leggja auknar áherslur á fræðslu til að framfylgja stefnuviðmiðum um að styrkja mannauð sinn með fræðslu og þekkingu. Sérstaka áherslu þarf að leggja á stafræna hæfni starfsfólks til að bregðast við hraðri þróun sem stafræna byltingin felur í sér

Fræðsluáætlun sjóðsins hefur að mestu verið óvirk, meðal annars vegna sóttvarnaráðstafana í samfélaginu og hjá sjóðnum 2020 og 2021. Það er því ærið verkefni að koma markvissri fræðslu aftur á dagskrá í ljósi þarfa starfsfólks og markmiða sjóðsins.

Meginmarkmið fræðsluáætlunar:

  • Bæta öryggi í rekstri
  • Virkt forvarnarstarf
  • Styðja við hlítni við lög og reglur
  • Auka þekkingu
  • Auka starfsánægju
  • Auka færni og hæfni starfsfólks
  • Auka öryggi á vinnustað

Starfsmannavelta

Hjá sjóðnum er starfsfólk með mikla reynslu, meðalstarfsaldur er 11 ár. Starfsfólki hefur fjölgað samliða meira umfangi starfseminnar og flóknara starfsumhverfi. Nýtt starfsfólk hefur fært sjóðnum nýja þekkingu og breiðari sýn. Þetta eykur getu LV til að sinna hlutverki sínu og takast á við áskoranir sem fylgja örum vexti og síbreytilegu starfsumhverfi.

Ekki er um að ræða starfsfólk í hlutastarfi né í verktöku eða í ráðgjöf. Það má þó nefna að sjóðurinn hefur ráðið til sín háskólanemendur í afleysingar á orlofstímanum.

  • Meðalstarfsaldur

    11
    ár
  • Nýliðun

    2%
  • Starfsmannavelta

    2%

Hollusta og öryggi

Áhættumat starfa var framkvæmt á árinu þar sem farið var yfir félagslega áhættuþætti í störfum sjóðsins. Unnið var að úrbótum nokkurra skilgreindra áhættuþátta. Þar má nefna samhæfingu stjórnunar, útfærslu skýrrar stefnu um starfslok vegna aldurs og uppfærslu og innleiðingu stefnu og viðbragðsáætlunar sjóðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og kynbundnu ofbeldi.

Stjórnendur tóku þátt í stjórnendaþjálfun undir merkjum Framúrskarandi teymi, þar sem áhersla var á að efla liðsheild stjórnenda, styrkja færni þeirra og að samræma stjórnunaraðferðir út frá stefnuviðmiðum sjóðsins um

  • hvetjandi umhverfi
  • skipulagða úrlausn viðfangsefna
  • samvinnu og góð samskipti

Einnig var lögð var áhersla á mikilvægi þess að stjórnendur veiti starfsfólki endurgjöf á sín störf og vinni þannig markvisst að þróun mannauðs sjóðsins.

Aðgerðir gegn mismunun

LV hefur sett sér mannauðsstefnu og útfært markmið í jafnréttisáætlun til að fyrirbyggja hvers konar mismunun. Sjóðurinn hefur líka formlega stefnu og sérstaka viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og kynbundnu ofbeldi á vinnustaðnum.

Starfsfólki var boðið á forvarnarnámskeið þar sem lögð var áhersla á samskipti og hlutverk allra við að stuðla að og viðhalda heilbrigðu og öruggu starfsumhverfi. Forvarnarnámskeiðið var liður í kynningu og innleiðingu á viðbragðsáætlun sjóðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og kynbundnu ofbeldi á vinnustaðnum.

Á árinu 2021 komu ekki upp mál tengd mismunun.

Heilsufarsmæling

Árlega er starfsfólki boðin heilsufarsmæling. Á árinu 2021 nýttu 68% sér mælinguna en 60% árið áður. Starfsfólki er líka boðið að fá inflúensusprautu. Auk þess stuðlar sjóðurinn að góðu heilsufari starfsfólks með því að taka þátt í kostnaði vegna heilsuræktar og endurhæfingar.

Iðjuþjálfi heimsækir sjóðinn reglulega til að leiðbeina um rétta líkamsstöðu við störf. Starfsfólk fær reglulega þjálfun og fræðslu um öryggismál, brunavarnir og viðbrögð við bruna. Sjóðnum hefur ekki borist nein tilkynning um vinnuslys starfsfólks.

Stuðningur við þróun og umræðu varðandi samfélagslega ábyrgð

Áhersla er lögð á að starfsfólk LV taki virkan þátt í umræðu og stefnumótun varðandi atriði sem lúta að hlutverki lífeyrissjóða, samfélagslegri ábyrgð þeirra, UFS viðmiðum og ábyrgum fjárfestingum. Samhliða greiningum og innleiðingu á sjálfbærniþáttum í stefnumótun og kjarnastarfsemi LV hefur sjóðurinn haldið fræðslufundi og vinnustofur og lagt kannanir fyrir starfsfólk. Það er trú LV að þátttaka, vitundarvakning og hvatning til starfsfólks um samfélagslega ábyrgð skili heilbrigðara starfsumhverfi og betri árangri til framtíðar.

Fjarvinna

Fjarvinnustefna var innleidd á árinu 2021 en áhugi starfsfólks á slíku fyrirkomulagi kom fram í vinnustofu um sjálfbærni í rekstri í desember 2020 og var staðfestur í sérstakri könnun meðal starfsfólks. Niðurstöður þeirrar könnunar leiddu í ljós ánægju með þann möguleika að geta verið að hluta til í fjarvinnu. Taldi starfsfólk aukinn sveigjanleika í starfi hafa jákvæð áhrif og stuðla að betra jafnvægi vinnu og einkalífs. Fjarvinna hefur einnig önnur jákvæð áhrif, til dæmis að

  • draga úr áhrifum af starfsemi sjóðsins á umhverfið með því að minnka kolefnisspor vegna ferða til og frá vinnu og draga úr kostnaði starfsfólks vegna ferða.
  • veita svigrúm til betri einbeitingar og vinnunæðis.

Aukin áhersla var lögð á að bæta vinnuumhverfi starfsfólks í fjarvinnu meðal annars með uppfærðri prentlausn, endurskoðun á símakerfinu og uppfærslu á tölvubúnaði þar sem við á.

Jafnrétti

Mannréttindi eru grundvallarréttindi sem allir eiga kröfu til. Stefna sjóðsins er að meta alla jafnt og að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernislegs uppruna, kynhneigðar, stjórnmálaskoðana, trúarbragða eða heimspekilegrar sannfæringar. Kjör starfsfólks sjóðsins eru samkvæmt kjarasamningum. Það á aðild að stéttarfélagi sem tryggir því almenn réttindi á vinnumarkaði.

Á árinu var jafnréttisáætlun birt. Markmið hennar er að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri starfsfólks sjóðsins óháð kyni sbr. lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Einnig var litið til laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Jafnréttisáætlun sjóðsins er órjúfanlegur hluti af jafnlaunastefnu sjóðsins en það er stefna hans að allt starfsfólk fái greitt jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum forsendum.

Mikil vinna var lögð í að innleiða gæðakerfi launa samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012 á árinu með það að markmiði að ljúka fyrstu vottunarúttekt á fyrri hluta árs 2022.

202120202019
3,403,363,44
Hlutfall heildarlaunagreiðslu framkvæmdastjóra og miðgildis heildarlaunagreiðslna starfsfólks í fullu starfi

Stjórnarhættir

Hjá LV er lögð áhersla á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun. Haghafar fá upplýsingar um stjórnarhætti sjóðsins í stjórnarháttayfirlýsingu sem er birt í ársskýrslu og á vef sjóðsins. Stjórnarháttayfirlýsing LV árið 2021 byggir á lögum og reglum sem voru í gildi þegar stjórn og framkvæmdastjóri staðfestu ársreikning sjóðsins. Þar er sérstaklega litið til þeirra ákvæða laga nr. 129/1997 sem lúta að stjórnarháttum lífeyrissjóða, ákvæðum samþykkta sjóðsins, reglum FME þar um, m.a. reglum nr. 335/2015 um ársreikninga lífeyrissjóða og 6. útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins.

Kynjahlutfall í stjórn

Stjórn LV er skipuð átta stjórnarmönnum, fjórum konum og fjórum körlum.

Stjórn202120202019
Konur0.50.562,5%
Karlar0.50.537,5%
Háðir stjórnarmenn000

Kaupaukar

Starfskjör hjá sjóðnum byggja fyrst og fremst á föstum greiðslum. Stjórnarlaun eru föst krónutala sem er endurskoðuð árlega í samræmi við samþykktir sjóðsins. Stjórnendur eru á föstum heildarlaunum. Ekki er greitt fyrir aukavinnu nema í undantekningartilfellum. Í ráðningarsamningum annars starfsfólks kemur fram hvort um sé að ræða föst heildarlaun eða laun þar sem greitt fyrir yfirvinnu. Kaupaukar eru því hvorki hluti af starfskjörum stjórnar né starfsfólks.

Kjarasamningar

Allt starfsfólk LV á aðild að kjarasamningum og gildandi starfskjarastefnu er fylgt. Stjórn setur starfskjarastefnuna sem staðfest á er ársfundi og birt á vefsíðu sjóðsins. Stefnan byggir á samþykktum lífeyrissjóðsins, sjónarmiðum sem koma fram í leiðbeiningum um góða stjórnarhætti og meginreglum sem liggja til grundvallar 79. gr. a í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög. Stefnan er hluti af reglum sem leggja grunninn að góðum stjórnaháttum LV, verðmætasköpun og þjónustu við sjóðfélaga. Hún hefur einnig þann tilgang að gera sjóðinn að eftirsóknarverðum vinnustað þar sem starfar hæft og reynt starfsfólk. Þetta er grundvöllur þess að rekstur sjóðsins sé samkeppnisfær og í samræmi við bestu viðmið.

Siðareglur og aðgerðir gegn spillingu

Stjórn hefur sett sjóðnum siða- og samskiptareglur fyrir starfsfólk og stjórnarmenn. Reglurnar eiga að styðja við vönduð vinnubrögð, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka öryggi í meðferð fjármuna sjóðsins. Í reglunum er m.a. fjallað um góða starfshætti, hagsmunaárekstra, meðferð trúnaðarupplýsinga og um gjafir, boðsferðir og starfstengdar ferðir.

Stjórn lífeyrissjóðsins og starfsfólk hans er meðvitað um þá ábyrgð sem fylgir umsjón með fjármunum sjóðfélaga. Sjóðurinn hefur sett sér reglur um uppljóstrun vegna mögulegra svika eða misferlis starfsfólks. Stjórn hefur líka sett reglur um viðskipti stjórnar og starfsfólks með fjármálagerninga. Þá hafa verið settar reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Sjóðurinn leggur áherslu á fagmennsku, áræðni og samviskusemi. Þetta birtist m.a. í vandaðri eigna- og áhættustýringu, eftirfylgni með fyrirtækjum sem fjárfest er í og áherslu á góða stjórnarhætti. Lífeyrissjóðurinn gerir kröfu um að fyrirtæki sem hann fjárfestir í fylgi lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra og virði þannig lagareglur og viðmið um siðferði og sporni við hvers kyns spillingu.

Í viðskiptum við birgja LV er leitast við að velja birgja sem starfa eftir sömu gildum og sjóðurinn. Þá er m.a. litið til siðferðis, gæðamála, öryggismála og hugbúnaðarferla. Ekki hafa verið settar formlegar siðareglur fyrir birgja rekstrar.

Stjórn sjóðsins áréttar mikilvægi þess að samskipti við haghafa séu í samræmi við gott viðskiptasiðferði.

Til að gæta að hæfisreglum, réttri meðferð fjármuna og þáttum eins og spillingu og mútumálum hafa verið settar margþættar reglur sem starfsfólki ber að fara eftir í störfum sínum fyrir sjóðinn.

Persónuvernd

Í starfsemi LV er nauðsynlegt að vinna með ýmis konar persónuupplýsingar sem varða m.a. sjóðfélaga. Sjóðurinn safnar persónuupplýsingum um sjóðfélaga fyrst og fremst til að uppfylla skyldur sínar á grundvelli heimildar/skyldu í lögum, kjarasamnings eða á grundvelli annarra lögmætra hagsmuna sjóðsins.

LV hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sjóðfélaga sjóðsins. Sjóðurinn skuldbindur sig til að vinna persónuupplýsingar um sjóðfélaga löglega, af sanngirni og gagnsæi. Upplýsingum verði aðeins safnað í tilteknum, sérstökum og lögmætum tilgangi og að söfnun og vinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar. Vinnsla skal í öllum tilvikum vera nægileg, viðeigandi og takmörkuð við það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang hennar.

Sjóðurinn leggur áherslu á að uppfylla þá persónuverndarlöggjöf sem er í gildi hverju sinni. Í því skyni voru persónuverndarreglur sjóðsins settar í maí 2018 en þær byggja á lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Lífeyrissjóðurinn hefur tilnefnt persónuverndarfulltrúa til að hafa umsjón með eftirfylgni persónuverndarreglna. Persónuverndarreglurnar eru aðgengilegar á vef sjóðsins.

Öryggisstefna sjóðsins er í gildi og nær til meðferðar og varðveislu gagna. Hún á að tryggja örugga meðferð og varðveislu upplýsinga sem hafa þýðingu fyrir starfsemi sjóðsins. Eftirlitsaðgerðir, sjálfvirk vöktun og neyðaráætlun sjóðsins miða að því að lágmarka áhrif rekstraratvika á upplýsingakerfi og eiga að taka á alvarlegri rekstraratvikum með endurheimt upplýsingakerfa.

Sjálfbærniskýrsla

LV tók fyrsta skref í birtingu sérstakrar samfélagsskýrslu árið 2019, með áherslu á UFS þætti í rekstri. LV birtir hér í annað sinn heildstæða sjálfbærniskýrslu. Stefna sjóðsins er að halda áfram á þessari vegferð í takt við þær áherslur sem kynntar eru í skýrslu þessari.

Sjálfbærniskýrsla

Haghafar

Sjálfbærniskýrsla

Lífeyrisafurðir