Hollusta og öryggi
Áhættumat starfa var framkvæmt á árinu þar sem farið var yfir félagslega áhættuþætti í störfum sjóðsins. Unnið var að úrbótum nokkurra skilgreindra áhættuþátta. Þar má nefna samhæfingu stjórnunar, útfærslu skýrrar stefnu um starfslok vegna aldurs og uppfærslu og innleiðingu stefnu og viðbragðsáætlunar sjóðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og kynbundnu ofbeldi.
Stjórnendur tóku þátt í stjórnendaþjálfun undir merkjum Framúrskarandi teymi, þar sem áhersla var á að efla liðsheild stjórnenda, styrkja færni þeirra og að samræma stjórnunaraðferðir út frá stefnuviðmiðum sjóðsins um
- hvetjandi umhverfi
- skipulagða úrlausn viðfangsefna
- samvinnu og góð samskipti
Einnig var lögð var áhersla á mikilvægi þess að stjórnendur veiti starfsfólki endurgjöf á sín störf og vinni þannig markvisst að þróun mannauðs sjóðsins.
Aðgerðir gegn mismunun
LV hefur sett sér mannauðsstefnu og útfært markmið í jafnréttisáætlun til að fyrirbyggja hvers konar mismunun. Sjóðurinn hefur líka formlega stefnu og sérstaka viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og kynbundnu ofbeldi á vinnustaðnum.
Starfsfólki var boðið á forvarnarnámskeið þar sem lögð var áhersla á samskipti og hlutverk allra við að stuðla að og viðhalda heilbrigðu og öruggu starfsumhverfi. Forvarnarnámskeiðið var liður í kynningu og innleiðingu á viðbragðsáætlun sjóðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og kynbundnu ofbeldi á vinnustaðnum.
Á árinu 2021 komu ekki upp mál tengd mismunun.
Heilsufarsmæling
Árlega er starfsfólki boðin heilsufarsmæling. Á árinu 2021 nýttu 68% sér mælinguna en 60% árið áður. Starfsfólki er líka boðið að fá inflúensusprautu. Auk þess stuðlar sjóðurinn að góðu heilsufari starfsfólks með því að taka þátt í kostnaði vegna heilsuræktar og endurhæfingar.
Iðjuþjálfi heimsækir sjóðinn reglulega til að leiðbeina um rétta líkamsstöðu við störf. Starfsfólk fær reglulega þjálfun og fræðslu um öryggismál, brunavarnir og viðbrögð við bruna. Sjóðnum hefur ekki borist nein tilkynning um vinnuslys starfsfólks.
Stuðningur við þróun og umræðu varðandi samfélagslega ábyrgð
Áhersla er lögð á að starfsfólk LV taki virkan þátt í umræðu og stefnumótun varðandi atriði sem lúta að hlutverki lífeyrissjóða, samfélagslegri ábyrgð þeirra, UFS viðmiðum og ábyrgum fjárfestingum. Samhliða greiningum og innleiðingu á sjálfbærniþáttum í stefnumótun og kjarnastarfsemi LV hefur sjóðurinn haldið fræðslufundi og vinnustofur og lagt kannanir fyrir starfsfólk. Það er trú LV að þátttaka, vitundarvakning og hvatning til starfsfólks um samfélagslega ábyrgð skili heilbrigðara starfsumhverfi og betri árangri til framtíðar.
Fjarvinna
Fjarvinnustefna var innleidd á árinu 2021 en áhugi starfsfólks á slíku fyrirkomulagi kom fram í vinnustofu um sjálfbærni í rekstri í desember 2020 og var staðfestur í sérstakri könnun meðal starfsfólks. Niðurstöður þeirrar könnunar leiddu í ljós ánægju með þann möguleika að geta verið að hluta til í fjarvinnu. Taldi starfsfólk aukinn sveigjanleika í starfi hafa jákvæð áhrif og stuðla að betra jafnvægi vinnu og einkalífs. Fjarvinna hefur einnig önnur jákvæð áhrif, til dæmis að
- draga úr áhrifum af starfsemi sjóðsins á umhverfið með því að minnka kolefnisspor vegna ferða til og frá vinnu og draga úr kostnaði starfsfólks vegna ferða.
- veita svigrúm til betri einbeitingar og vinnunæðis.
Aukin áhersla var lögð á að bæta vinnuumhverfi starfsfólks í fjarvinnu meðal annars með uppfærðri prentlausn, endurskoðun á símakerfinu og uppfærslu á tölvubúnaði þar sem við á.
Jafnrétti
Mannréttindi eru grundvallarréttindi sem allir eiga kröfu til. Stefna sjóðsins er að meta alla jafnt og að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernislegs uppruna, kynhneigðar, stjórnmálaskoðana, trúarbragða eða heimspekilegrar sannfæringar. Kjör starfsfólks sjóðsins eru samkvæmt kjarasamningum. Það á aðild að stéttarfélagi sem tryggir því almenn réttindi á vinnumarkaði.
Á árinu var jafnréttisáætlun birt. Markmið hennar er að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri starfsfólks sjóðsins óháð kyni sbr. lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Einnig var litið til laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Jafnréttisáætlun sjóðsins er órjúfanlegur hluti af jafnlaunastefnu sjóðsins en það er stefna hans að allt starfsfólk fái greitt jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum forsendum.
Mikil vinna var lögð í að innleiða gæðakerfi launa samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012 á árinu með það að markmiði að ljúka fyrstu vottunarúttekt á fyrri hluta árs 2022.