Stefnumótun
Sjóðurinn réðst í ítarlega stefnumótunarvinnu árið 2020 sem lauk um mitt ár 2021. Verkefnið var unnið undir leiðsögn stjórnendaráðgjafa í nánu samstarfi stjórnar, stjórnenda og annarra starfsmanna sjóðsins.
Stefna LV byggir á fimm leiðarljósum sem lúta að áherslum í daglegri starfsemi og eru leiðbeinandi fyrir ákvarðanatöku, þannig að unnið sé markvisst í átt til framtíðarsýnar sjóðsins. Leiðarljósin leggja áherslu á: Framúrskarandi teymi, snjalla og stafræna þjónustu, þjónandi forystu, sjálfbæra starfsemi, sjálfbæran lífeyri og ábyrgar fjárfestingar.
- Stefna LV er að vera eftirsóknarverður og leiðandi lífeyrissjóður. Sjóðurinn vinnur að því að byggja upp trausta fjárhagslega framtíð sjóðfélaga við starfslok og tryggingar vegna örorku sem og við fráfall sjóðfélaga. Lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að veita traustar og áreiðanlegar upplýsingar sem miðast við þarfir sjóðfélaga á hverjum tíma. Sjóðurinn ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með gagnsæjum og ábyrgum hætti, með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi, með það að markmiði að hámarka trausta langtímaávöxtun eignasafna. Sjóðurinn er fyrirmyndar vinnustaður skipaður öflugri liðsheild sem býr yfir góðri þekkingu, reynslu og hæfni.
- Starf LV snýst um að þjónusta sjóðfélaga sem eru eigendur lífeyrisréttinda og lífeyrissparnaðar hjá sjóðnum. Með uppbyggingu og ávöxtun eignasafna er stutt við það hlutverk LV að greiða sjóðfélögum áfallalífeyri og lífeyri við lok starfsævi. Lífeyrissjóðurinn er vettvangur fyrir uppbyggingu lífeyrisréttinda, söfnunar lífeyrissparnaðar svo eigendur geti notað og notið síðar.
Hlutverk og ábyrgð LV í samfélaginu
Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðir verið meira áberandi í íslensku samfélagi. Þeir eru stórir fjárfestar á íslenskum fjármálamarkaði, mikið hreyfiafl í íslensku atvinnulífi og er lífeyrissjóðakerfið að verða þroskaðra. Það þýðir að sjóðfélagar sem fara munu á lífeyri hafa greitt lengur til sjóðsins sem almennt styrkir réttindi þeirra. Þessi þróun mun halda áfram til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Þá er vert að benda á að iðgjald til sjóðsins er nú almennt 15,5%, í samræmi við kjarasamninga. Það er 3,5 prósentustigum hærra en lögbundið lágmarksiðgjald.
Með þessum breytingum, sem og öðrum samfélagslegum breytingum sem hafa orðið og munu eiga sér stað, eru kröfur sem gerðar eru til fjölmargra þátta í rekstri sjóðsins alltaf að aukast. Stjórnin leggur áherslu á að á hverjum tíma sé mannauður til staðar innan sjóðsins til þess að takast á við ný verkefni og auknar kröfur.
Fjárfestingarumhverfi
Undanfarin ár hafa vextir farið lækkandi, bæði hér innanlands sem og á heimsvísu. Þetta þýðir auknar áskoranir við að ávaxta eignir sjóðsins sem standa undir réttindum sjóðfélaga til framtíðar. Langtímaávöxtun sjóðsins hefur verið með ágætum og hefur styrkst undanfarin ár en ávöxtun í fortíð segir ekki til um ávöxtun í framtíð. Stjórn sjóðsins, stjórnendur hans og starfsmenn munu áfram leggja sig fram við að ná góðum árangri í rekstri sjóðsins til framtíðar.
Ábyrgar fjárfestingar
Eins og fram kemur hér að framan, í ársskýrslu og sjálfbærniskýrslu, leggur stjórn aukna áherslu á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við stýringu eignasafna LV samhliða og til viðbótar við hefðbundna greiningu fjárfestingarkosta og viðmiða við umsýslu eigna. Það er sýn stjórnar að halda áfram á þeirri vegferð í takt við umboð sjóðsins, lög og reglur, þróun í aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og alþjóðlega þróun. Nánari umfjöllun um umboð sjóðsins í þessu sambandi er í sjálfbærniskýrslu sjóðsins.
Þróun mannauðs
LV hefur sett sér formlega stefnu um áherslur í fyrirtækjamenningu sjóðsins þar sem tilgreint er meðal annars mikilvægi liðsheildar, góðra stjórnarhátta, velferðar starfsfólks og að sjóðurinn laði að sér og byggi upp framúrskarandi mannauð. Sjóðurinn hefur einnig lagt til grundvallar jafnrétti og jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði við stjórnunarvenjur, starfsþjálfun og þróun, ráðningar, starfskjör og starfsumhverfi.
Í mannauðsstefnu kemur m.a. fram að lífeyrissjóðurinn leitist við að bjóða upp á starfsskilyrði sem laði að sér hæft starfsfólk og að sjóðurinn hafi á að skipa starfsfólki sem hefur þekkingu, reynslu og hæfni til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem sjóðnum er falið að sinna. Unnið er eftir gildum sjóðsins þar sem ábyrgð, árangur og umhyggja mynda grunnstoðir í heilbrigðu og öruggu starfsumhverfi sem sjóðurinn býr að. Til stuðnings mannauðsstefnu eru m.a: Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi á vinnustaðnum, jafnlaunastefna, jafnréttisáætlun og fræðslustefna.
Upplýsingastarf
LV leggur áherslu á að veita sjóðfélögum persónulega þjónustu og beinan aðgang að samtali við starfsfólk vegna ráðgjafar og tengdrar þjónustu. Samhliða því er einnig lögð áhersla á þróun rafrænna dreifileiða sem veita m.a. möguleika á persónumiðaðri upplýsingagjöf og sjálfsafgreiðslu.
Helstu samskipta- og dreifileiðir eru vefsíða sjóðsins, sjóðfélagavefur fyrir hvern sjóðfélaga og þjónustuver. Sjóðurinn nýtir einnig samfélagsmiðla og sendir sjóðfélögum tvisvar á ári yfirlit yfir réttindi og greidd iðgjöld.
Sjóðurinn starfrækir þjónustuver þar sem hægt er að fá þjónustu á skrifstofu sjóðsins, gegnum síma, tölvupóst eða gegnum netspjall sjóðsins. Á árinu 2021 bárust ríflega 21.000 símtöl til sjóðsins og heimsóknir á skrifstofu hans voru rétt tæplega 4.000. Á sama tíma voru heimsóknir á vef sjóðsins 157.803 og innlit sjóðfélaga á sjóðfélagvef sinn 97.458.
Aukin áhersla er nú lögð á þróun upplýsingagjafar meðal annars með auknum áherslum á starfrænar lausnir sjóðfélögum til hagsbóta, öflun viðhorfa meðal sjóðfélaga í reglulegum viðhorfskönnunum og í miðlun upplýsinga í ársskýrslu, sjálfbærniskýrslu og ársreikningi.
Stjórnarhættir og áhættustýring
Lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun sjóðsins.
Með stjórnarháttaryfirlýsingu, sem er birt á vef sjóðsins og í ársskýrslu, er sjóðfélögum, iðgjaldagreiðendum, opinberum aðilum, starfsmönnum og öðrum haghöfum veittar upplýsingar um stjórnarhætti lífeyrissjóðsins. Yfirlýsingunni er jafnframt ætlað að styðja við góða stjórnarhætti hjá sjóðnum og styðja þannig við traustan rekstur.
Stjórn hefur sett sjóðnum áhættustefnu og áhættustýringarstefnu með það að markmiði að auka öryggi í rekstri sjóðsins. Stefnurnar grundvallast á lagafyrirmælum, reglugerðum og stefnumótun sjóðsins og taka m.a. mið af ISO staðli 31000 um áhættustýringu. Stjórnin leggur áherslu á að stefnurnar séu virkar í starfsemi sjóðsins og eru þær árlega teknar til umræðu á vettvangi stjórnar og eftir atvikum til endurskoðunar í heild eða að hluta.
Frekari upplýsingar um áhættustýringu sjóðsins er að finna í skýringum nr. 19 til 23 í ársreikningnum og í kafla um áhættustýringu í ársskýrslu sjóðsins. Þar er m.a. að finna nánari upplýsingar um lýsingu á helstu áhættuþáttum í starfsemi sjóðsins. Áhættustefna sjóðsins er einnig aðgengileg á vef sjóðsins.
Um meginmarkmið og stefnu varðandi samsetningu eignasafna, áhættustýringu og verðmat eigna
Stýring eignasafna, áhættustýring og verðmat eigna er veigamikill þáttur í starfsemi lífeyrissjóðsins. Með vísan til 5. töluliðar 2. mgr. 66. gr. laga um ársreikninga bendir stjórn á eftirfarandi:
Samsetning eignasafna og stýring þeirra byggir á fjárfestingarstefnu sem byggir á viðurkenndum sjónarmiðum varðandi samval verðbréfa, áhættudreifingu og áhættustýringu, í samræmi við ákvæði laga um starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, einkum VII. kafla laganna. Við verðmat á verðbréfum og öðrum fjármálagerningum er byggt á reglugerð nr. 391/1998, með síðari breytingum, reglum um ársreikninga lífeyrissjóða, útgefnum af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands, viðurkenndum reikningsskilastöðlum og mati stjórnenda.
Ófjárhagsleg upplýsingagjöf
LV gefur einnig út sjálfbærniskýrslu sem er nátengd umfjöllun í ársskýrslu og annarri upplýsingagjöf sjóðsins. Markmiðið með útgáfu skýrslunnar er að gera grein fyrir áherslum LV varðandi sjálfbærni í starfsemi sjóðsins.
Stuðst er við UFS viðmið Nasdaq, útgáfu 2 frá maí 2019 (e. ESG Reporting Guide 2, May 2019), GRI staðalinn (e. Global Report Initiative) og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Greint er frá viðskiptalíkani sjóðsins og birtar upplýsingar um lykilmælikvarða er lúta að stjórnarháttum og umhverfis-, félags- og starfsmannamálum. Jafnframt er greint frá áherslum er lúta að mannréttindum og hvernig sjóðurinn spornar við spillingar- og mútumálum.
Framsetning með þessum hætti á ófjárhagslegum upplýsingum veitir greinargóðar viðbótarupplýsingar um ófjárhagslega þætti í rekstri og uppfyllir kröfur skv. gr. 66-d í lögum um ársreikninga. Við upplýsingagjöf um gerð sjálfbærniskýrslu fékk sjóðurinn ráðgjöf hjá óháðum ytri aðila. Ráðgjöfin fól í sér leiðbeiningar við að greina og miðla upplýsingum um viðskiptalíkan LV, ábyrgar fjárfestingar og umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti fyrir árið 2021 sem og áætluð verkefni til framtíðar. Það er mat ráðgjafa að upplýsingar þær er koma fram í kaflanum um sjálfbærniskýrslu sjóðsins gefi góða mynd af ófjárhagslegum þáttum í rekstri sjóðsins.
Covid - 19
Áhrif Covid-19 heimsfaraldursins á rekstur, efnahag og sjóðstreymi lífeyrissjóðsins á árinu eru óveruleg. Hugsanleg áhrif á rekstur sjóðsins voru í upphafi faraldurs talin geta verið samdráttur í greiddum iðgjöldum til sjóðsins vegna minnkandi umsvifa launagreiðenda, aukin vanskil þeirra og greiðsluerfiðleikar einstaklinga vegna aukins atvinnuleysis, en sú hefur ekki orðið raunin. Að auki var töluverð óvissa um horfur á mörkuðum. Þrátt fyrir Covid-19 þá var ávöxtun lífeyrissjóðsins góð og er 2021 með betri árum í ávöxtun í sögu sjóðsins. Góð ávöxtun sameignardeildar hefur styrkt tryggingafræðilega stöðu milli ára. Heimsfaraldurinn hafði ekki áhrif á fjárfestingarstefnu sjóðsins að því leyti að áfram er lögð áhersla á að auka vægi erlendra verðbréfa til lengri tíma í eignasafninu.
Sjóðurinn hagaði rekstri á skrifstofu í samræmi við sóttvarnaaðgerðir á hverjum tíma og sjóðfélagar voru hvattir til að sinna erindum sínum í gegnum rafrænar samskiptaleiðir sem og nýta þær fjölmörgu stafrænu lausnir sem sjóðurinn hefur uppá að bjóða.
Atburðir eftir lok reikningsárs
Eignamarkaðir hafa átt undir högg að sækja frá lokum reikningsárs. Ástæður þessa eru nokkrar en þó vegur þyngst hernaðarátök í Úkraínu og aukin pólitísk spenna á heimsvísu. Til viðbótar er verðbólga viðvarandi vandamál í flestum löndum og líkur á vaxtahækkunum hérlendis og erlendis eru verulegar.
Miðað við stöðuna í lok dags 24. febrúar er það mat sjóðsins að eignasöfn sameignardeildar og Verðbréfaleiðar hafi lækkað um 6-7% frá áramótum. Áætluð áhrif til lækkunar á eignasafni Ævileiðar I er 5-6%, 2-3% til lækkunar á eignasafni Ævileiðar II og hverfandi áhrif á eignasafn Ævileiðar III.
Ávöxtun eignasafna sjóðsins hefur verið góð undanfarna áratugi eins og fram kemur í skýringu 24 við ársreikning sjóðsins. Sameignardeild sjóðsins stendur vel og var tryggingafræðileg staða jákvæð um 3,5% við árslok 2021. Þá voru áunnin réttindi hækkuð um 10% umfram verðlagsþróun á síðastliðnu ári. Það er mat stjórnar að þrátt fyrir framangreinda lækkun á eignasafni sameignardeildar sé tryggingafræðileg staða sameignardeildar í jafnvægi við undirritun ársreiknings.
Yfirlýsing stjórnar og framkvæmdastjóra
Samkvæmt bestu vitneskju er það álit okkar að ársreikningur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gefi glögga mynd af rekstrarafkomu lífeyrissjóðsins á árinu 2021, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hans þann 31. desember 2021. Jafnframt er það álit okkar að ársreikningurinn og skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra geymi glöggt yfirlit um þróun og árangur í rekstri sjóðsins, stöðu hans í árslok og lýsi helstu áhættuþáttum sem lífeyrissjóðurinn býr við. Frekari upplýsingar sem tengjast áhættustýringu má finna í skýringum 19 - 23 í ársreikningnum.