Árið 2021 reyndist vera eitt hið jákvæðasta í 66 ára sögu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, ekki aðeins hvað varðar afkomu sjóðsins heldur fjölmarga aðra þætti í rekstri hans og starfsemi. Þetta gerðist þrátt fyrir að ekki blési byrlega fyrir lífeyrissjóðum eða öðrum fjárfestum í byrjun ársins þegar heimsfaraldurinn COVID 19 var enn í algleymingi, vaxtaumhverfið gaf ekki tilefni til jákvæðra væntinga um arðsemi fjárfestinga og víða voru blikur á lofti á mörkuðum sem ekki juku bjartsýni vegna komandi árs. Ávöxtun sjóðsins á árinu reyndist góð og ekki síður langtímaávöxtun þegar litið er til síðustu áratuga.
Auk þessara ytri þátta blöstu við krefjandi viðfangsefni vegna aldursþróunar þjóðarinnar. Hún er sífellt að eldast og því þurfa eignir sjóðsins að duga lengur en áður. Loks má nefna að miklar breytingar eiga sér stað um þessar mundir á fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða sem snúa að sjálfbærni og ábyrgum fjárfestingum.
Þrátt fyrir neikvæðar horfur í byrjun árs rættist furðu vel úr hinum ytri þáttum sem við sjálf getum varla eða alls ekki haft stjórn á. Engu að síður var stöðugt úr vöndu að ráða í hinu mikla óvissuumhverfi. Þá reyndi sannarlega á reynslu og þekkingu stjórnar, stjórnenda og starfsmanna sjóðsins.
Strax í byrjun ársins var ljóst að sterk tryggingafræðileg staða sjóðsins þýddi að lífeyrisréttindi mundu hækka á árinu. Um leið blasti við að innleiða yrði nýjar töflur um ævilíkur, svonefndar dánar- og eftirlifendatöflur, sem gætu haft í för með sér breytingar á réttindum einhverra hópa sjóðfélaga. Innleiðing dánar- og eftirlifendataflnanna frestaðist til þessa árs en réttindin hækkuðu um 10% í nóvember og uppsöfnuð hækkun til lífeyrisþega greidd út sem eingreiðsla í þeim mánuði.
Þetta var vissulega afar ánægjuleg breyting og bætti hag allra lífeyrisþega hjá sjóðnum, sem nú fá greiddan 10% hærri lífeyri en ella. Það þýðir hins vegar að innleiðing nýrra dánar- og eftirlifendataflna bíður þess að verða framkvæmd á þessu ári, 2022. Ætlan okkar er að gera það með þeim hætti að sjóðfélagar verði sem minnst varir við breytingar og að ekkert breytist hjá þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur eða nálægt honum.
Um langt árabil hefur verið unnið að undirbúningi breytinga sem við nefnum ábyrgar fjárfestingar. Gerð er ítarleg grein fyrir þeim í sjálfbærniskýrslu sjóðsins hér í ársskýrslunni. Á árinu 2021 var komið að því að birta þessar breytingar (sem höfðu sumar hverjar verið innleiddar áður í áföngum) sem heildstæða stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Þetta er stórt skref og kann að virðast við fyrstu sýn sem sjóðurinn sé að eltast við tískufyrirbæri eða stundarvinsældir. Svo er þó alls ekki.
Stefnan um ábyrgar fjárfestingar hefur á engan hátt í för með sér að sjóðurinn slái af kröfum um arðbærni og áreiðanleika fjárfestinga. Hins vegar er stefnan sett á fjárfestingar sem standast breyttar kröfur til þeirra sem eru óðum að verða ráðandi í heiminum, ekki síst hjá stærstu fjárfestunum. Að sitja hjá þegar slík þróun á sér stað hefði í för með sér afar mikla áhættu fyrir sjóðinn, ekki síst hættu á að missa af góðum fjárfestingartækifærum en einnig og ekki síður að sitja uppi með illa eða alls ekki seljanlegar eignir sem ekki lengur standast kröfur um ábyrgð og sjálfbærni.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur vaxið og dafnað undanfarin ár, eignir í sjóðnum eru nú ríflega 1.200 milljarðar króna og jukust á árinu um nærri 190 milljarða. Þar af voru tekjur af fjárfestingum ríflega 174 milljarðar sem er til vitnis um afar vel heppnaða starfsemi sjóðsins og trausta fjárfestingarstefnu.
Það eru ekki aðeins eignir í sjóðnum sem hafa aukist heldur vex og dafnar öll starfsemi hans. Sjóðfélögum fjölgar, lífeyrisgreiðslur aukast og lífeyrisþegum fjölgar. Þetta hefur óhjákvæmilega í för með sér að starfsfólki fjölgar til að annast fjölmarga þætti rekstrarins og starfseminnar. Lífeyrissjóður verzlunarmanna býr svo vel að hafa í sinni þjónustu afar hæfa starfskrafta á hverjum pósti enda værum við ekki í þessari góðu stöðu nema svo væri.
Nú á vordögum 2022 eru enn á ný blikur á lofti sem hafa áhrif um allan heim. Hernaðarátök í Úkraínu ógna daglegu lífi um alla heimsbyggðina og þar með sjóðsins okkar. Þá gerum við það sem við getum gert: Beitum allri þeirri þekkingu, reynslu og útsjónarsemi sem við ráðum yfir til að tryggja sem best má verða afkomu sjóðsins og þá um leið sjóðfélaga að loknu ævistarfi. Að því sögðu þakka ég fyrir hönd stjórnar sjóðfélögum samfylgdina á árinu og starfsfólki sjóðsins fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.