Lífeyrissjóður verzlunarmanna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) var stofnaður þann 1. febrúar 1956 sem gerir hann að einum elsta starfandi lífeyrissjóði landsins. Kjarnastarfsemi sjóðsins lýtur að móttöku iðgjalda, ávöxtun eigna í eignasöfnum sjóðsins og útgreiðslu lífeyris. LV er samtryggingarsjóður og er hlutverk hans að tryggja sjóðfélögum víðtæk lífeyrisréttindi og verðmæta tryggingavernd við áföll.

Öllum launþegum, og þeim sem stunda atvinnurekstur, er skylt samkvæmt lögum að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Launþegar, sem eru félagar í VR, eiga aðild að sjóðnum. Aðild eiga jafnframt félagar í öðrum samtökum verslunarmanna og þeir sem njóta starfskjara samkvæmt kjarasamningi VR eða starfa á starfssviði sjóðsins. Enn fremur er þeim launþegum rétt og skylt að eiga aðild að sjóðnum sem njóta ekki starfskjara samkvæmt kjarasamningi VR og eiga ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði. Sjálfstæðum atvinnurekendum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilað aðild að sjóðnum.

Sjóðurinn er langtímafjárfestir sem ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með það að markmiði að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu með sjálfbærni að leiðarljósi.

Í árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins fyrir árið 2021 er gerð grein fyrir starfsemi sjóðsins.

LV rekur þrjár réttindadeildir, sameignardeild og tvær séreignardeildir, fyrir almenna séreign annars vegar og tilgreinda séreign hins vegar.

Stjórn

Stjórnin ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins samkvæmt ákvæðum laga og samþykktum hans. Meðal þess sem stjórnin fjallar um á fundum sínum eru breytingar á samþykktum, mótun áhættu-, fjárfestingar- og hluthafastefnu, eftirlit með fjárfestingum, mótun innra eftirlits, lánareglur, fjárhagsáætlanir og kynningarmál.

Á liðnu ári kom stjórnin saman átján sinnum til fundar og frá stofnun sjóðsins hafa verið haldnir 1190 stjórnarfundir.

Stjórn sjóðsins er skipuð átta aðilum. Fjórir eru tilnefndir af stjórn VR, þrír af Samtökum atvinnulífsins og einn af Félagi atvinnurekenda. Aðildarsamtök sjóðsins tilnefna hver fyrir sig einn stjórnarmann til vara. VR tilnefnir stjórnarmenn til fjögurra ára í senn en tilnefningartími stjórnarmanna, sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins og Félagi atvinnurekenda, er tvö ár.

Nánari upplýsingar um stjórnarmenn eru í stjórnarháttayfirlýsingu

Stjórn sjóðsins skipa:

 • Tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins

  • Jón Ólafur Halldórsson - formaður
  • Árni Stefánsson
  • Sigrún Helgadóttir
  • Bjarni Már Gylfason - varamaður
 • Tilnefnd af VR

  • Stefán Sveinbjörnsson - varaformaður
  • Bjarni Þór Sigurðsson
  • Guðrún Johnsen
  • Helga Ingólfsdóttir
  • Smári Freyr Jóhannsson - varamaður
 • Tilnefnd af Félagi atvinnurekenda

  • Guðný Rósa Þorvarðardóttir
  • Guðrún Ragna Garðarsdóttir - varamaður

Stjórnendur og starfsfólk

Hjá sjóðnum er 51 starfsmaður og er starfsemi hans skipt í sjö meginsvið; eignastýringu, lífeyri, áhættustýringu, lögfræði, fjármál, rekstur og upplýsingatækni. Framkvæmdastjóri og forstöðumenn sviða skipa framkvæmdastjórn sjóðsins.

Framkvæmdastjóri er Guðmundur Þ. Þórhallsson

Hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra frá árinu 2009.Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur, mótar og innleiðir langtímaáherslur í stefnum sjóðsins og samræmir og samþættir helstu aðgerðir hans.

Lögfræðisvið, forstöðumaður er Tómas Njáll Möller

Hann hóf störf sem lögfræðingur sjóðsins 2008.

Lögfræðisvið veitir stjórn, framkvæmdastjóra og sviðum sjóðsins lögfræðiráðgjöf og tekur þátt í úrlausn margþættra viðfangsefna og hagsmunagæslu fyrir sjóðsins. Sviðið veitir einnig ráðgjöf varðandi stjórnarhætti og annast samþættingu sjálfbærni í starfseminni. Á sviðinu starfa tveir lögfræðingar.

Eignastýringarsvið, forstöðumaður er Arne Vagn Olsen

Hann gekk til liðs við sjóðinn árið 2018.

Eignastýring stýrir eignasöfnun sjóðsins, mótar og innleiðir fjárfestingastefnu hans. Starfsmenn eru fimm.

Lífeyrissvið, forstöðumaður er Margrét Kristinsdóttir

Hún hóf störf hjá sjóðnum árið 1995.

Lífeyrissvið annast lífeyrisráðgjöf, mótar og innleiðir þróun lífeyrisafurða og úrskurð lífeyris. Séreignardeildir sjóðsins eru hluti af lífeyrissviði. Auk trúnaðarlæknis eru sex starfsmenn á lífeyrissviði.

Áhættustýring, forstöðumaður er Magnús Helgason

Hann gekk til liðs við sjóðinn árið 2015.

Áhættustýring mótar og innleiðir áhættu- og áhættustýringarstefnu sjóðsins, framkvæmir áhættumat og greiningar og kemur að mótun og framkvæmd eftirlitskerfis sjóðsins. Í áhættustýringu starfa 2 starfsmenn.

Fjármálasvið, forstöðumaður Valgarður I. Sverrisson

Hann hóf störf hjá sjóðnum árið 1986.

Fjármálasvið ber m.a. ábyrgð á fjárhagsbókhaldi, miðvinnslu og greiðslu reikninga og kemur að gerð ársreiknings. Á fjármálasviði eru 5 starfsmenn.

Upplýsingatæknisvið, forstöðumaður er Haraldur Arason

Hann hóf störf hjá sjóðnum árið 1986

Upplýsingatæknisvið þróar upplýsingakerfi sjóðsins, hefur umsjón með útvistun, notendaþjónustu og rekstri vélbúnaðar. Á sviðinu starfa 7 starfsmenn.

Rekstrarsvið, forstöðumaður er Hildur Hörn Daðadóttir

Hún hóf störf hjá sjóðnum árið 2021

Rekstrarsvið annast innri þjónustu og ytri þjónustu til sjóðfélaga. Á sviðinu starfa 23 starfsmenn í fimm deildum: gæðastjórn, mannauður, þjónustuver, skráning iðgjalda og lánadeild.

Ársskýrsla

Eignasöfn