Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) var stofnaður þann 1. febrúar 1956 sem gerir hann að einum elsta starfandi lífeyrissjóði landsins. Kjarnastarfsemi sjóðsins lýtur að móttöku iðgjalda, ávöxtun eigna í eignasöfnum sjóðsins og útgreiðslu lífeyris. LV er samtryggingarsjóður og er hlutverk hans að tryggja sjóðfélögum víðtæk lífeyrisréttindi og verðmæta tryggingavernd við áföll.
Öllum launþegum, og þeim sem stunda atvinnurekstur, er skylt samkvæmt lögum að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Launþegar, sem eru félagar í VR, eiga aðild að sjóðnum. Aðild eiga jafnframt félagar í öðrum samtökum verslunarmanna og þeir sem njóta starfskjara samkvæmt kjarasamningi VR eða starfa á starfssviði sjóðsins. Enn fremur er þeim launþegum rétt og skylt að eiga aðild að sjóðnum sem njóta ekki starfskjara samkvæmt kjarasamningi VR og eiga ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði. Sjálfstæðum atvinnurekendum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilað aðild að sjóðnum.
Sjóðurinn er langtímafjárfestir sem ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með það að markmiði að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu með sjálfbærni að leiðarljósi.
Í árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins fyrir árið 2021 er gerð grein fyrir starfsemi sjóðsins.