Um sjálfbærni í eignasöfnum
LV er langtímafjárfestir sem hefur að höfuðmarkmiði að hámarka ávöxtun að teknu tilliti til áhættu sem hámarkar réttindi sjóðfélaganna. Lífeyrissjóðurinn telur það ábyrga langtímafjárfestingu að fjárfesta í fjármálagerningum sem gefnir eru út af fyrirtækjum, opinberum aðilum og öðrum útgefendum sem byggja starfsemi sína á sjálfbærum grundvelli. LV leggur áherslu á að eignasöfn sjóðsins samanstandi af fjármálagerningum útgefenda sem viðhafa góða stjórnarhætti og byggja á viðskiptalíkönum þar sem áhersla er lögð á sjálfbæra verðmætasköpun
Með sjálfbærni í rekstri fyrirtækja er hér vísað til þriggja grunnstoða sjálfbærni, þ.e. jafnvægis milli efnahagslegrar hagsældar, samfélagslegrar velsældar og ábyrgrar nýtingar náttúruauðlinda samfélags. Sjálfbærni felst m.a. í því að samfélagið geti þróast og uppfyllt þarfir samtímans án þess að rýra möguleika komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir.
Stefna um ábyrgar fjárfestingar
LV setti sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar á sl. ári þar sem fram kemur að fjárfestingarkostir og stýring eignasafna LV byggi á sjálfbærnisjónarmiðum byggðum á greiningu umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta, skammstafað UFS, í samræmi við viðurkennd viðmið. Stefnan festir í sessi þær kröfur sem sjóðurinn gerir þegar kemur að aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga. Í því fellst að sjóðurinn
- setur sér stefnu um málefnið.
- mælir árangur.
- upplýsir um framvindu og árangur.
Meginmarkmið stefnunnar er að auka áherslu á sjálfbærar fjárfestingar og samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundna greiningu fjárfestingakosta og aðferðarfræði við samval verðbréfa.
Í því felst m.a að;
- leggja áherslu á fjárfestingakosti sem styðja við ábyrga langtímaávöxtun að teknu tilliti til áhættu
- hafa uppbyggileg og virðisaukandi áhrif á útgefendur fjármálagerninga sem fjárfest er í
- greina og sneiða hjá atvinnugreinum og fyrirtækjum sem LV forðast að sækja ávöxtun til vegna eðlis atvinnugreinar eða rekstrar viðkomandi fyrirtækis
- styðja við virka og árangursríka áhættustýringu