Ávarp framkvæmdastjóra

Sjálfbærniskýrsla LV er í senn stefnuyfirlýsing og vegvísir, út á við og inn á við í starfseminni. Jafnframt er hún vegvísir fyrir okkur starfsfólkið, stjórn og sjóðfélaga, til að líta í og máta eigin viðhorf, lífshætti og venjur við tiltekin gildi samfélagsábyrgðar. Skýrslan er sömuleiðis mikilvægt innlegg í samtal við haghafa sem styður við verðmætasköpun sjóðsins.

Þegar heimsfaraldur brast á árið 2020 kröfðust aðstæður þess að við tileinkuðum okkur samfélagsábyrgð á svipstundu, umfram það sem við höfðum áður gert. Öryggi, hreinlæti og ábyrgð gagnvart náunganum urðu kennihugtök í daglegri tilveru. Þetta var hvorki auðveldur né skemmtilegur tími en á ýmsan hátt góður skóli, eftir á að hyggja!

Samfélagsábyrgð og sjálfbær þróun eru umfangsmikil og innihaldsrík hugtök sem eru nú virk í starfsemi sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn er í farabroddi íslenskra lífeyrissjóða í þeirri vegferð að gera grein fyrir ófjárhagslegum upplýsingum í ársskýrslu sinni með ítarlegum hætti.

Við stiklum líka á stóru um starfsemi sjóðsins. Nefni sem dæmi fræðslu, hvatningu, flokkun úrgangs og endurvinnslu, ábyrga orkunotkun og mælanleg markmið. Megin áhersla skýrslunnar er þó á ábyrgar fjárfestingar og vegferð sjóðsins í að nýta þá aðferðarfræði við að styðja við góða langtímaávöxtun eignasafna.

Við höfum tileinkað okkur viðhorf samfélagsábyrgðar með markvissum hætti og viljum nýta þá reynslu og þekkingu til að hafa góð áhrif í starfsumhverfinu. Þannig styðjum við við sjálfbærni, sýnum fyrirhyggju og ábyrgð í starfi.

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri

Um inntak og áherslur sjálfbærniskýrslu

Sjálfbærniskýrsla LV veitir sjóðfélögum og öðrum haghöfum mikilvægar upplýsingar sem varða sjálfbærni í starfseminni.

"Sú stefnumótun og upplýsingagjöf sem er fjallað um í skýrslunni, eru liðir í vegferð LV í átt að sjálfbærari starfsemi".

Tómas N. Möller,

forstöðumaður lögfræðisviðs og samþættingar sjálfbærni í starfsemi LV

Hugtakið sjálfbærni og viðmið við gerð skýrslunnar

Með sjálfbærni er hér vísað til jafnvægis þriggja grunnstoða sjálfbærni í rekstri; efnahagslegrar hagsældar, samfélagslegrar velsældar og ábyrgrar nýtingar náttúruauðlinda (e. Economic Prosperity, Social Well-being, Environmental Stewardship). Sjálfbærni felst meðal annars í því að samfélagið geti þróast og mætt þörfum samtímans án þess að dregið sé úr möguleikum komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.

Upplýsingagjöf um svonefndar „ófjárhagslegar“ upplýsingar, sem er í auknum mæli vísað til sem sjálfbærniupplýsinga og hafa í raun verulega fjárhagslega þýðingu, tekur mið af greinum 66 og 66-d í lögum um ársreikninga[1].

Einnig er byggt á greiningu umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS þættir) m.t.t. leiðbeininga Nasdaq[1].

Þá er stuðst við staðla GRI – Global Reporting Initiative[1] og horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun[2] og Parísarsáttmálans frá 2015[3].

Við uppbyggingu skýrslunnar er stuðst við leiðbeiningar um samþætta skýrslugerð[1] (e. Integrated Reporting – IR) og horft til mikilvægisgreiningar sem var unnin fyrir gerð sjálfbærniskýrslunnar.

Áhersluatriði

LV birti í fyrsta sinn sjálfstæða sjálfbærniskýrslu á árinu 2021 og fylgdi þar eftir vegferð sem hófst með útgáfu samfélagsskýrslu árið áður. Nú á árinu 2022 er athygli í meira mæli beint að haghafagreiningu, mikilvægisgreiningu, áframhaldandi þróun fjölþætts viðskiptalíkans (e. multi capital business model), umfjöllun um stefnu LV um ábyrgar fjárfestingar, þróun mannauðsmála hjá lífeyrissjóðnum sem og aukna samþættingu sjálfbærniskýrslu og ársskýrslu sjóðsins.

Við gerð skýrslunnar er lögð áhersla á virka aðkomu stjórnar, stjórnenda og annarra starfsmanna sem og á samþættingu skýrslugjafar og stefnumótunar lífeyrissjóðsins. Hér er þó enn nokkuð verk óunnið og tækifæri til áframhaldandi þróunar. Til að fylgja því eftir er í skýrslunni gerð grein fyrir rekstrartengdum verkefnum sem voru sett á dagskrá í sjálfbærniskýrslunni 2020 og tengjast heimsmarkmiðunum. Auk þess eru tilgreind ný verkefni fyrir komandi ár og áfram unnið að verkefnum sem ekki er að fullu lokið.

Meðal áskorana í starfsemi LV má nefna greiningu, mælingu og stýringu UFS þátta í eignasöfnum sjóðsins. Stefnt er að því að skilja betur umhverfis- og samfélagslegt fótspor útgefenda verðbréfa og annarra fjármálagerninga sem lífeyrissjóðurinn fjárfestir í. Sú þekking nýtist bæði við fjárfestingarákvarðanir og umsýslu eignasafna LV. Undirbúningur er þegar hafinn en hér eru áskoranir og hindranir sem þarf að yfirstíga. Þær felast meðal annars í því að upplýsingamiðlun fyrirtækja um sjálfbærnimál er ekki alltaf nógu áreiðanleg og ekki nægjanlega samræmd. UFS þættir í eignasöfnum LV verða greindir áfram á árunum 2022 og 2023. Markmiðið er að bæta þekkingu á þessum mikilvægu atriðum og nýta hana við skilvirka stýringu eignasafna, áhættustýringu þeirra, aukna upplýsingamiðlun og markmiðssetningu.

Framangreind atriði, og sú stefnumótun og upplýsingagjöf sem er fjallað um í skýrslunni, eru liðir í vegferð LV í átt að sjálfbærari starfsemi.

Um mikilvæga vegvísa

Umboð: Meginhlutverk LV samkvæmt lögum og samþykktum er að taka við iðgjöldum, ávaxta eignasöfn og greiða út lífeyri. Við mótun sjálfbærni í starfsemi LV er lögð áhersla á að framkvæmdin rúmist innan umboðs sjóðsins og uppfylli umboðsskyldu hans. Umfjöllun um þennan þátt er í mikilvægisgreiningu.

Stefnumiðuð samfélagsábyrgð: Hér er horft til fimm mikilvægra þátta.

  • Í fyrsta lagi er lögð áhersla á samfélagsábyrgð í fyrirtækjamenningu sjóðsins og taktískri stefnumótun.
  • Sú áhersla er nátengd öðrum þætti, sem er að horfa nokkuð vítt til hagsmuna haghafa LV og samþætta hagsmuni þeirra eins og kostur er þó sjóðfélagar séu án efa mikilvægasti haghafahópurinn.
  • Í þriðja lagi er lögð áhersla á að flétta stefnumiðaða samfélagsábyrgð inn í daglegan rekstur sjóðsins og kjarnastarfsemi hans.
  • Í fjórða lagi er horft til þess að starfsemi og áhrif sjóðsins hafi sem minnst neikvæð áhrif á þau samfélög sem starfsemi hans varðar og helst fyrst og fremst jákvæð áhrif.
    Hér vegur fjárfestingarstarfsemi sjóðsins þungt, samanber umfjöllun í kafla um umsýsla eignasafna og sjálfbærni.
  • Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að horfa í minna mæli til skamms tíma í stefnumótun og rekstri og leggja þess í stað aukna áherslu á að horfa til meðallangs og langs tíma.

Með áherslu á þessa þætti stefnumiðaðrar samfélagsábyrgðar er stefnt að því að efla samkeppnishæfni sjóðsins, viðnámsþrótt hans gagnvart breytingum í rekstrarumhverfi (m.a. varðandi þróun umhverfismála og samfélags) og getu til að sinna hlutverki sínu.

Þróun ESB/EES réttar: Hér er einnig litið til örrar þróunar í löggjöf Evrópusambandsins varðandi ábyrgar fjárfestingar stofnanafjárfesta. Sú löggjöf er í öllum meginatriðum á gildissviði Samningsins um evrópska efnahagssvæðið og hefur því bein áhrif á þróun íslensks réttar og á rekstrarumhverfi íslenskra stofnanafjárfesta.

Alþjóðleg þróun: Hér skiptir máli þekking og áherslur á alþjóðavettvangi, til að mynda varðandi upplýsingamiðlun um sjálfbærni í rekstri fyrirtækja og þróun umhverfisþátta og félagslegra þátta.

Hér er m.a. vísað til þróunar alþjóðlegra viðmiða um framsetningu sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja á vettvangi Alþjóða reikningsskilaráðsins undir merkjum ISSB (International Sustainability Standars Board) í samhengi við þróun í Evrópurétti. Einnig er litið til umræðu og stefnumótunar í loftslagsmálum, til að mynda á vettvangi COP (Conference of the Parties) og IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change).

Þá skiptir umræða um neikvæð áhrif rekstrar á líffræðilegan fjölbreytileika máli sem og umgengi um ýmsar takmarkaðar náttúruauðlindir.

Næstu skref

Nú hafa verið skilgreind verkefni til að auka sjálfbærni í starfsemi LV, samanber umfjöllun í sjálfbærni kafla skýrslunnar. Sjóðurinn er hvergi nærri endastöð á sjálfbærnivegferð sinni. Vegferðin er hafin og grunnur lagður að næstu skrefum í átt að sjálfbærari starfsemi sjóðsins.

Sjálfbærniskýrsla 2021 pdf

Sjálfbærniskýrsla

Stefnumótandi áherslur