Eignasöfn LV

Eignasöfn LV samanstanda af eignasafni sameignadeildar og fjórum séreignadeildum; Verðbréfaleið og Ævileiðum I-III. Hrein eign allra eignasafna LV nam 1.201 milljörðum króna í árslok 2021 en var 1.013 milljarðar króna í árslok 2020. Aukning eigna nam 188 milljörðum króna eða 19%. Þar munar mest um fjármunatekjur sjóðsins sem námu um 174 milljörðum króna.

Sameignardeild

Tekjur af eignasafni sameignardeildar námu rúmlega 170 milljörðum króna á árinu 2021 og hafa þær aldrei verið hærri í sögu sjóðsins. Nafnávöxtun sameignardeildar á árinu 2021 var 17,0% sem samsvarar 11,6% raunávöxtun. Hrein ávöxtun, það er þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá fjárfestingatekjum, var 16,9% sem samsvarar 11,5% hreinni raunávöxtun.

Hrein árleg raunávöxtun síðustu fimm ára var 8,8%, 7,6% síðustu 10 ár, 5,2% síðustu 20 ár og 5,5% síðustu 30 árin.

Ávöxtunartölur ársins bera með sér að árið 2021 var eindæma gott. Þrátt fyrir hækkandi vaxtastig hérlendis og erlendis voru aðstæður hagfelldar flestum eignamörkuðum eins og nánar er vikið að síðar. Líkt og á árinu 2020 skiluðu allir sjö eignaflokkar sjóðsins jákvæðri ávöxtun og um 85% af ávöxtun ársins má rekja til innlendra og erlendrar hlutabréfaeignar sameignadeildar.

Líkt og fram kemur í fjárfestingarstefnu LV er bæði ávöxtun eignasafna og undirliggjandi eignaflokka borin saman við viðmiðunarvísitölur er mæla ávöxtun þeirra markaða er vísitölurnar taka til. Í tilfelli innlendra skuldabréfa sameignardeildar eru viðmiðunarvísitölur þó ekki samanburðarhæfar enda eru um 75% innlendrar skuldabréfaeignar LV færð á kaupávöxtunarkröfu í árslok. Slíkar eignir taka ekki mið af markaðsaðstæðum hverju sinni og því hefur hærra eða lægra vaxtastig ekki áhrif líkt og raunin er með skuldabréf sem færð eru á gangvirði.

Aðrir eignaflokkar eru samanburðarhæfir og er árangur helstu eignaflokka ársins 2021 eftirfarandi:

EignaflokkurViðmiðÁvöxtun sameignar-deildar 2021Ávöxtun viðmiðs 2021
4. Innlend hlutabréfOMX Iceland all-share GI40.20%42.10%
Þar af skráð hlutabréfOMX Iceland all-share GI44.50%42.10%
6. Erlend hlutabréfMSCI Daily Total Return Net World í ISK20.10%24.90%
Þar af skráð hlutabréf og hlutabréfasjóðirMSCI Daily Total Return Net World í ISK21.30%24.90%
Árangur helstu eignaflokka ársins 2021

Eins og fram kemur í skýringu 10 í ársreikningi er munurinn á gangvirði og kaupávöxtunarkröfu skuldabréfa, sem nú eru færð á kaupávöxtunarkröfu, um 32,9 milljarðar króna í árslok 2021 samanborið við 33 milljarða króna í árslok 2020. Fjármunatekjur ársins hefðu því verið 0,1 milljarði lægri en ársreikningur segir til um væru skuldabréfin færð á gangvirði en slík breyting hefði óveruleg áhrif á ávöxtun ársins eins og fram kemur í skýringu 24 í ársreikningi.

Langtímaávöxtun

Lífeyrissjóðurinn er langtímafjárfestir sem horfir til langs tíma við val á fjárfestingakostum. Reynslan sýnir að á löngum tíma er þeim umbunað með hærri langtímaávöxtun sem eru tilbúnir að taka á sig verðsveiflur.

Raunávöxtun 20212021
Hrein raunávöxtun11,6%
Fimm ára ársávöxtun8,8%
Tíu ára ársávöxtun7,6%
Tuttugu ára ársávöxtun5,2%
Þrjátíu ára ársávöxtun5,5%
Raunávöxtun síðustu 20 ára

Þróun hreinnar raunávöxtunar síðustu 20 ára

Eignasafn sameignardeildar

Hrein eign sameignardeildar LV nam 1.175 milljörðum króna í árslok 2021 en var 992 milljarðar króna í árslok 2020. Aukning eigna nam 183 milljörðum króna eða 18%. Þar munar mest um fjármunatekjur sjóðsins sem námu um 170 milljörðum króna.

Eignasafn sameignardeildar er ávaxtað í sjö eignaflokkum sem dreifast á 58 lönd og 5.800 undirliggjandi eignir. Á eftirfarandi mynd sést að vægi erlendra eigna jókst úr 43,1% í árslok 2020 og í 44,6% í árslok 2021. Sé einungis horft á verðbréfaeign nemur hlutfall erlendra eigna 45,1% sbr. skýringu 12 í ársreikningi. Aukningin kemur meðal annars til af hækkun erlendra hlutabréfa á árinu auk þess sem hrein gjaldeyriskaup námu um 15,4 milljörðum króna.

Aukið vægi erlendra eigna er í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins þar sem áhersla er lögð á áhættudreifingu eignasafns, meðal annars með fjárfestingum erlendis.

Vægi hlutabréfa nam um 60,7% í árslok 2021. Hlutfallið hafði hækkað undanfarin ár vegna fjárfestinga í hlutabréfum og hækkunar á hlutabréfamörkuðum, innlendum sem erlendum. Búast má við að vægi erlendra skuldabréfa aukist á árinu 2022.

Verðbréfaviðskipti

LV ráðstafaði ríflega 291 milljarði króna til verðbréfakaupa og sjóðfélagalána á árinu 2021 samanborið við 170 milljarða á árinu 2020. Seld voru verðbréf fyrir 286 milljarða króna en fyrir 75 milljarða árið áður.

Á árinu 2021 var sem fyrr lögð áhersla á aukna áhættudreifingu og var í því skyni m.a. keyptur gjaldeyrir fyrir um 15,4 milljarða króna til fjárfestingar í erlendum eignum.

Einnig var lögð áhersla á áhættudreifingu innan eignaflokka, m.a. með fjárfestingu í sértryggðum skuldabréfum fyrir um 17 milljarða og ríkisskuldabréfum fyrir um 15 milljarða króna. Sjóðurinn seldi fyrir um 4,5 milljarða króna umfram kaup í innlendum hlutabréfum á árinu 2021. Helst ber þar að nefna sölu á eignarhlut í Marel og kaup á eignarhlut í Íslandsbanka.

Innlend hlutabréf

Heildarvísitala íslenskra hlutabréfa (OMXIGI) hækkaði um 42,1% á árinu 2021. Vísitalan segir til um ávöxtun þeirra hlutafélaga sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar í árslok 2021 að teknu tilliti til arðs. Það má segja að árið hafi verið gott í öllum tilfellum en öll tuttugu félögin í heildarvísitölu hlutabréfa skiluðu jákvæðri ávöxtun.

Velta með hlutabréf á aðallista Kauphallarinnar nam 1.071 milljörðum króna eða um 4,3 milljörðum að meðaltali hvern dag, sem er um 77% veltuaukning frá fyrra ári. Markaðsverðmæti skráðra hlutabréfa í árslok var um 2.556 milljarður og stækkaði markaðurinn um tvo þriðju frá fyrra ári.

Fjögur félög voru skráð á árinu þegar Íslandsbanki hf., Síldarvinnslan hf., Fly Play hf., og Solid Clouds hf. komu öll ný á íslenskan hlutabréfamarkað. Segja má að árið hafi einkennst af miklum umsvifum almennra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði á nýjan leik. Sérstaklega ber að nefna útboð Íslandsbanka, stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar með þátttöku um 24.000 fjárfesta. Seðlabanki Íslands upplýsir að fjárfestingar í innlendum hlutabréfasjóðum hafi aukist tölvuvert á árinu.

Hlutabréfaviðskipti og ávöxtun

Vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sjóðsins í árslok 2021 nam 19,1% en var 16,7% í árslok 2020. Aukið vægi skýrist einna helst af hækkandi gengi innlendra hlutabréfa. Heildararðgreiðslur af innlendum hlutabréfum námu um 2,7 milljörðum króna á árinu.

Á árinu 2021 var nafnávöxtun innlendra hlutabréfa LV 40,2% sem samsvarar 33,7% raunávöxtun. Þar af nam nafnávöxtun skráðra hlutabréfa 44,5% sem samsvarar 37,8% raunávöxtun.

Ef rýnt er í ávöxtun innlendra hlutabréfa til lengri tíma litið sést að þau hafa skilað góðri ávöxtun síðustu 3, 5 og 10 ár. Rétt er að taka fram að hér er bæði um skráð og óskráð hlutabréf að ræða.

Nánari upptalningu á eign sjóðsins í einstökum hlutafélögum má sjá í skýringu 9 í ársreikningi.

Árleg nafn ávöxtun tímabila1ár3 ár5ár10 ár
Innlend hlutabréf40,2%28,9%17,1%17,0%
Innlend hlutabréfa eign í árslok20212020
Eign í milljónum króna228.677168.472
Hlutfall af eign19,06%16,65%
Fimm stærstu eignir í skráðum hlutafélögum í milljónum krónaFjárhæð
Marel hf.43.736
Arion banki hf.27.846
Brim hf.16.162
Eimskipafélag Íslands hf.10.919
Kvika banki hf.10.825

Fjárfesting í innlendum framtakssjóðum, þar með talið sprotasjóðum

Á undanförnum árum hefur sjóðurinn skuldbundið sig til þátttöku í innlendum framtakssjóðum og nemur eignarhlutur sjóðsins í slíkum sjóðum á bilinu 9 til 20%. Megintilgangur innlendra framtakssjóða er að fjárfesta í íslensku atvinnulífi og horfa þeir ýmist til sprotafyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja eða stærri fyrirtækja er stefna á skráningu í Kauphöll Íslands. Í lok árs 2021 námu óádregnar áskriftarskuldbindingar sjóðsins til innlendra áskriftarsjóða um 13,4 milljörðum króna. Upptalning á innlendum framtakssjóðum er í skýringu 9.

markaðsvirði hlutafélaga á nasdaq ísland í milljörðum króna í árslok 2021

Innlend skuldabréf

Á árinu 2021 var viðspyrna hagkerfisins kröftug eftir 6,6% samdrátt VLF árið 2020. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands, útgefnum í febrúar 2022, er áætlað að hagvöxtur ársins 2021 hafi verið 4,9% og svipuðum hagvexti er spáð árið 2022. Störfum fjölgar áfram og atvinnuleysi minnkar og áætlað er að framleiðsluslakinn, sem myndaðist í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar, sé horfinn.

Verðbólga jókst jafnt og þétt árið 2021 og var 5,7% í janúarmælingu 2022. Verðbólguhorfur hafa því versnað töluvert að undanförnu sem má fyrst og fremst rekja til kröftugri efnahagsbata innanlands og mikillar hækkunar húsnæðisverðs. Þá hafa alþjóðlegar verðhækkanir verið meiri en gert var ráð fyrir. Seðlabankinn spáir því að verðbólga verði yfir 5% fram eftir árinu 2022 og verði ekki komin undir 4% fyrr en í ársbyrjun 2023.

Þróun innlendra vaxta á árinu 2021

Í ljósi kröftugrar viðspyrnu í efnahagslífinu, aukinnar verðbólgu og verðbólguhorfa hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 1,25 prósentustig á árinu 2021, úr 0,75% í 2,00%, eftir fimm vaxtalækkanir árið áður. Framvirkir vextir á ríkisskuldabréfamarkaði benda jafnframt til þess að markaðsaðilar búist við áframhaldandi hækkun vaxta.

Ávöxtunarkrafa á óvertryggðum skuldabréfum hækkaði nokkuð á árinu samhliða stýrivaxtahækkunum og lakari verðbólguhorfum. Ávöxtunarkrafa langra óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 0,9 prósentustig á árinu 2021 og ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfa um allt að 1,5 prósentustig. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa lækkaði aftur á móti um 0,1 til 0,3 prósentustig. Ávöxtun á skuldabréfamarkaði var því mismikil allt eftir því hvort um verðtryggð eða óverðtryggð skuldabréf var að ræða. Til að mynda lækkaði óverðtryggð ríkisskuldabréfavísitala Kviku um 1,5% en verðtryggði hluti hennar hækkaði um 6,7%.

Skuldabréfaeign LV og ávöxtun

Innlend skuldabréfaeign sameignadeildar, að skuldabréfasjóðum og sjóðfélagalánum meðtöldum, nam 419 milljörðum króna í árslok 2021 samanborið við 393 milljarða árið áður. Innlend skuldabréf eru um 35% af eignum sjóðsins en hlutfallið var 39% í árslok 2020. Lífeyrissjóðurinn hefur um langt árabil fjárfest í innlendum skuldabréfum og vega þar þyngst skuldabréf með ábyrgð ríkissjóðs ásamt veðskuldabréfum og öðrum fasteignatengdum verðbréfum.

Veitt voru ný sjóðfélagalán á árinu fyrir 20,4 milljarða króna en hrein útlán voru neikvæð um 9,3 milljarða króna. Hlutfall sjóðfélagalána af innlendu skuldabréfasafni nemur 20,7% í árslok 2021 en var 24% í árslok 2020.

Á árinu 2021 skilaði skuldabréfasafn sjóðsins í heild sinni 6,4% ávöxtun. Ef rýnt er í ávöxtun mismunandi hluta skuldabréfasafnsins yfir lengra tímabil sést að ávöxtun hefur verið góð undanfarin 1, 3, 5 og 10ár.

Þess ber að geta þegar ávöxtunartölur skuldabréfasafns eru rýndar að stór hluti safnsins er færður á kaupkröfu og hreyfist því ekki í takti við markaðsvexti dag frá degi.

Árleg ávöxtun tímabila1 ár3 ár5 ár10 ár
Ríkisskuldabréf6,1%7,5%7,5%8,1%
Veðskuldabréf og önnur fasteignatengd verðbr.6,4%6,4%6,3%6,5%
Önnur skuldabréf7,4%7,5%7,0%12,0%

Erlend verðbréf

Heimsvísitala Morgan Stanley, sem mælir breytingu hlutabréfaverðs á þróuðum mörkuðum, hækkaði um 21,8% í USD á árinu 2021. Mælt í krónum hækkaði vísitalan hins vegar um 24,9%

Sé horft til einstakra hlutabréfamarkaða hækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum (MSCI USA) um 25,2% mælt í USD en um 28,3% mælt í krónum. Hlutabréf í Evrópu (MSCI Europe) hækkuðu um 22,4% mælt í EUR en hækkuðu um 15,7% mælt í krónum. Hlutabréf nýmarkaðsríkja (MSCI Emerging Markets) lækkuðu um 4,6% mælt í USD en lækkuðu um 2,6% mælt í krónum. Þessar vísitölur segja til um ávöxtun að teknu tilliti til arðs.

Verðþróun heimsvísitölu MSCI 2021 í USD, með arði

Ávöxtun á erlendum hlutabréfamörkuðum á árinu 2021 í grunnmynt, með arði.

Erlend verðbréf og ávöxtun

LV hefur frá árinu 1994 fjárfest á erlendum verðbréfamörkuðum í því skyni að dreifa áhættu í eignasafni. Fjárfestingar sjóðsins hafa frá þeim tíma skilað góðri ávöxtun þó vissulega séu sveiflur á hlutabréfamörkuðum erlendis sem hérlendis. Fjárfestingar í erlendum verðbréfum eru hugsaðar til langs tíma.

Í árslok 2021 nam erlend verðbréfaeign sameignardeildar, auk erlends lausafjár, um 525 milljörðum króna en var 427 milljarðar í árslok 2020. Erlend verðbréfaeign er um 45% af heildareignum og hefur vaxið undanfarin ár í samræmi við aukna áherslu á áhættudreifingu í eignasafninu.

Stærstur hluti erlenda eignsafnsins er ávaxtaður í skráðum erlendum hlutabréfum, ýmist í sérgreindum söfnum (93 milljarðar króna) eða hlutabréfasjóðum (um 313 milljarðar) auk þess sem sjóðurinn á eignarhlut í Össuri hf. sem skráður er í dönsku kauphöllinni.

Tæplega 65 milljarðar króna eru ávaxtaðir í framtakssjóðum (e. private equity) en slíkir sjóðir sérhæfa sig í fjárfestingu í óskráðum fyrirtækjum með það að markmiði að bæta rekstur og þar með virði þeirra. Þá á sjóðurinn einnig hlut í óskráðum innviða- og fasteignasjóðum fyrir rúmlega 16 milljarða króna.

Á árinu 2021 skiluðu erlend hlutabréf sjóðsins 20,1% ávöxtun í ISK samanborið við 24,9% ávöxtun viðmiðunarvísitölunnar og er þá horft bæði til skráðra og óskráðra erlendra hlutabréfa.

Ef rýnt er í ávöxtun erlendra hlutabréfa sjóðsins til lengri tíma litið sést að þau hafa skilað ágætri ávöxtun síðustu 3, 5 og 10 ár.

Gengi krónunnar styrktist um 2,4% á árinu 2021 en breytingar gagnvart einstökum gjaldmiðlum voru mismiklar. Þannig veiktist krónan gagnvart USD um 2,5% og um 1,3% gagnvart GBP en styrktist um 5,4% gagnvart EUR.

Árleg ávöxtun tímabila1 ár3 ár5ár10 ár
Erlend hlutabréf20,1%25,4%18,4%13,6%
Erlend verðbréfaeign ásamt erlendu lausu fé í árslok 2015-20212021202020192018201720162015
Eign í milljónum króna523.798427.579366.797244.946218.146158.92152.914
Hlutfall af eignum45%43%40%35%33%26%26%

Séreignardeildir

Í árslok 2021 var séreignarsparnaður LV ávaxtaður í fjórum fjárfestingarleiðum. Fjárfestingarleiðirnar eru ólíkar, með mismikla áhættu og ávöxtunarmöguleika.

  • Ævileið I
  • Ævileið II
  • Ævileið III
  • Verðbréfaleið

Ævilína býður upp á sjálfvirkan flutning milli Ævileiða eftir aldri sjóðfélaga. Heimilt er að flytja inneign úr Verðbréfaleið í Ævileiðir en ekki er heimilt að flytja úr Ævileiðum í Verðbréfaleið.

Séreignardeild (*í milljónum króna)20212020Breyting %
Iðgjöld*2.3242.10011
Lífeyrisgreiðslur*9441.002-6
Eign í árslok*26.53921.68822
Fjöldi með inneignir51.66349.8874

Verðbréfaleið

Fjárfestingarstefna Verðbréfaleiðar endurspeglast af fjárfestingarstefnu sameignardeildar lífeyrissjóðsins.

Hrein ávöxtun Verðbréfaleiðar á árinu 2021 var 16,9% sem svarar til 11,5% raunávöxtunar. Meðalraunávöxtun síðustu fimm ár er 8,8% og 7,6% síðustu tíu ár.

Ævileiðirnar

Fjárfestingarstefnur Ævileiða byggja á eignaflokkum sem gera má ráð fyrir að hafi mismikla vænta ávöxtun og áhættu. Til að draga úr áhættu og sveiflum í ávöxtun eignasafna eru þau blönduð og vel dreifð milli eignaflokka. Markmið með mismunandi eignasamsetningu Ævileiðanna er að mæta ólíkum þörfum sjóðfélaga, svo sem eftir aldri, áhættuvilja og áhættuþoli. Við val á fjárfestingarleið er því meðal annars ráðlagt að huga að því hve langt er í útgreiðslu, hver eignastaða sjóðfélagans er og hvert viðhorf sé til áhættu. Ólíkum fjárfestingarstefnum Ævileiða er ætlað að endurspegla þessa þætti, þar sem dregið er úr áhættu eftir því sem nær dregur úttekt sparnaðarins.

Ávöxtun Ævileiða

Fyrsta heila starfsár ævileiða var 2018 og frá þeim tíma hefur ávöxtun þeirra verið góð að teknu tilliti til ólíkra fjárfestingarstefnu hverrar leiðar um sig

2021202020192018
Ævileið I17,4%15,4%12,9%0,8%
Ævileið II10,7%11,6%11,1%3,8%
Ævileið III1,7%5,4%5,8%3,6%
Eignasamsetning ævileiða í árslok 2021
Ævileið IÆvileið IIÆvileið III
2021%2021%2021%
Ríkisskuldabréf2669,3%56424,3%76548,8%
Veðskuldabréf og fasteignatengd verðbréf69024,1%80134,5%41526,5%
Önnur skuldabréf40214,1%33614,5%00%
Innlend hlutabréf48617,0%1747,5%00%
Innlent laust fé1083,8%622,7%38724,7%
Erlend hlutabréf90831,7%38816,7%00%
Aðrar erlendar eignir00,0%00,0%00%
Samtals2.860100,0%2.325100,0%1.567100,0%

Fjárfestingarstefna 2021

Stjórn sjóðsins samþykkir árlega fjárfestingarstefnu fyrir komandi ár og er stefnan birt á heimasíðu sjóðsins. Stefnan byggir á lögum 129/1997 og reglugerð nr. 916/2009, með síðari breytingum. Eðli málsins samkvæmt er í stefnu sem þessari litið til lengri tíma en árs í senn.

Fjárfestingarstefna