Eignasöfn LV samanstanda af eignasafni sameignadeildar og fjórum séreignadeildum; Verðbréfaleið og Ævileiðum I-III. Hrein eign allra eignasafna LV nam 1.201 milljörðum króna í árslok 2021 en var 1.013 milljarðar króna í árslok 2020. Aukning eigna nam 188 milljörðum króna eða 19%. Þar munar mest um fjármunatekjur sjóðsins sem námu um 174 milljörðum króna.
Sameignardeild
Tekjur af eignasafni sameignardeildar námu rúmlega 170 milljörðum króna á árinu 2021 og hafa þær aldrei verið hærri í sögu sjóðsins. Nafnávöxtun sameignardeildar á árinu 2021 var 17,0% sem samsvarar 11,6% raunávöxtun. Hrein ávöxtun, það er þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá fjárfestingatekjum, var 16,9% sem samsvarar 11,5% hreinni raunávöxtun.
Hrein árleg raunávöxtun síðustu fimm ára var 8,8%, 7,6% síðustu 10 ár, 5,2% síðustu 20 ár og 5,5% síðustu 30 árin.
Ávöxtunartölur ársins bera með sér að árið 2021 var eindæma gott. Þrátt fyrir hækkandi vaxtastig hérlendis og erlendis voru aðstæður hagfelldar flestum eignamörkuðum eins og nánar er vikið að síðar. Líkt og á árinu 2020 skiluðu allir sjö eignaflokkar sjóðsins jákvæðri ávöxtun og um 85% af ávöxtun ársins má rekja til innlendra og erlendrar hlutabréfaeignar sameignadeildar.
Líkt og fram kemur í fjárfestingarstefnu LV er bæði ávöxtun eignasafna og undirliggjandi eignaflokka borin saman við viðmiðunarvísitölur er mæla ávöxtun þeirra markaða er vísitölurnar taka til. Í tilfelli innlendra skuldabréfa sameignardeildar eru viðmiðunarvísitölur þó ekki samanburðarhæfar enda eru um 75% innlendrar skuldabréfaeignar LV færð á kaupávöxtunarkröfu í árslok. Slíkar eignir taka ekki mið af markaðsaðstæðum hverju sinni og því hefur hærra eða lægra vaxtastig ekki áhrif líkt og raunin er með skuldabréf sem færð eru á gangvirði.
Aðrir eignaflokkar eru samanburðarhæfir og er árangur helstu eignaflokka ársins 2021 eftirfarandi: