Starfsemin
Grundvöllur starfsemi: LV starfar á grundvelli starfsleyfis fjármálaráðherra í samræmi við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, og samþykktum sjóðsins.
Í samþykktum kemur fram að sjóðurinn starfar á grundvelli kjarasamnings Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) frá 12. desember 1995 og samnings ASÍ og SA frá 24. apríl 2018 samanber samning VR, SA og Félags atvinnu- rekenda frá 23. apríl 2018, samanber breytingar á samþykktum sem tóku gildi 1. september 2019.
Aðild að LV: Sjóðfélagar eru þeir launþegar sem eru félagar í VR og kjarasamningar félagsins og vinnuveitenda taka til, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í kjarasamningi. Félagsmönnum annarra félaga verslunarmanna er heimil aðild að sjóðnum. Enn fremur er þeim launþegum rétt og skylt að eiga aðild að sjóðnum, sem byggja starfskjör sín á kjarasamningi VR þar sem hann ákvarðar lágmarksstarfskjör í starfsgreininni eða ef ráðningarbundin starfskjör launþegans byggjast á þeim samningi og launþeginn á ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði. Sjálfstæðum atvinnurekendum og þeim sem ekki byggja ráðningarbundin starfskjör sín á kjarasamningi er heimil aðild að sjóðnum.
Grunnþættir í viðskiptalíkani: Viðskiptalíkan sjóðsins byggir á því meginhlutverki hans, samkvæmt framangreindum lögum og samþykktum sjóðsins, að
- taka á móti iðgjöldum sjóðfélaga sem mynda grundvöll réttinda.
- ávaxta eignir sjóðsins í sameignar- og séreignardeildum.
- greiða út ævilangan lífeyri vegna elli, áfallalífeyri í formi örorkulífeyris til sjóðfélaga og barna þeirra, sem og maka- og barnalífeyri vegna fráfalls sjóðfélaga.
- greiða út séreignarlífeyri vegna aldurs, örorku eða fráfalls.
Þá veitir LV sjóðfélögum sínum einnig sjóðfélagalán í formi fasteignaveðlána í samræmi við lánareglur á hverjum tíma.
Samfélagsleg áhrif og fjölþættir framleiðsluþættir LV: Meginhlutverk LV er að greiða sjóðfélögum lífeyri á grundvelli iðgjalda sem þeir greiða til sjóðsins. Í því skyni rekur sjóðurinn þrjár deildir fyrir réttindi: sameignardeild, séreignardeild fyrir almenna séreign og séreignardeild fyrir tilgreinda séreign.