Rekstur LV og UFS þættir
Hér er fjallað um rekstur LV með tilliti til UFS viðmiða; umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Umfjöllunin byggir meðal annars á UFS leiðbeiningum Nasdaq nr. 2.0, útgefnum í febrúar 2020. Sjóðurinn hefur skrifstofur í Reykjavík og eru UFS þættir vegna þeirrar starfsaðstöðu skoðaðir. Þetta er fjórða árið sem LV miðlar upplýsingum um UFS þætti reksturs.
Rétt er að vekja athygli á að þessi umfjöllun snýr aðeins að rekstri en ekki eignasöfnum. Sjóðurinn getur einna helst beitt sér fyrir mildun umhverfisáhættu (e. Climate risk) með markvissu eftirliti og stýringu eignasafna sem fjallað er um í kafla V um ábyrgar fjárfestingar.
Umhverfisþættir og verndun loftslags
LV leggur áherslu á að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum starfseminnar og stuðla að jákvæðum áhrifum á starfsfólk, samstarfsaðila og aðra haghafa. Starfsemi og rekstur skrifstofu sjóðsins hefur óveruleg umhverfisáhrif. Við greiningu og uppgjör vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er byggt á svonefndum GHG staðli (e. The Greenhouse Gas Protocol). Samkvæmt staðlinum er mælingum skipt í umfang:
Umfang 1 mælir beina losun frá kjarnastarfsemi.
Umfang 2 mælir óbeina losun vegna orkukaupa.
Umfang 3 sem nær til annarrar óbeinnar losunar.
Við útreikninga var stuðst við losunarstuðla frá birgjum. Losunarstuðlar umfangs 2 byggjast á stuðlum frá Veitum og ON. Við útreikninga á umfangi 3 var notast við losunarstuðul Umhverfisstofnunar fyrir úrgang, reiknivél Icelandair fyrir flug og meðalútblástur fólksbíla frá Orkusetrinu fyrir árið 2022. Orkustjórnunarkerfi hefur ekki verið innleitt fyrir reksturinn.
Fyrir ferðavenjur starfsfólks var notast við upplýsingar úr könnun meðal starfsfólks þar sem meðal annars var spurt um ferðamáta, vegalengdir og fjölda daga sem viðkomandi mætir til vinnu á ári. Það er breyting frá fyrri mælingum þar sem notast var við ákveðnar forsendur, meðal annars um vegalengd og fjölda starfsfólks sem er á rafmagnsbíl eða nýtir sér aðra samgöngumáta en einkabíl. Með betri upplýsingum er hægt að gefa gleggri mynd af losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda vegna aksturs starfsfólks til og frá vinnu (umfang 2) og útskýrir það þann mun sem er frá ári til árs. Þá hefur einnig verið aukning í að starfsfólk nýti sér fjarvinnustefnu sjóðsins og vinni að hluta til heima. Fleira starfsfólk nýtur nú einnig samgöngustyrkinn og færst hefur í aukana að starfsfólk sé á rafmagnsknúnum ökutækjum.
Losun gróðurhúsalofttegunda
Engin bein losun reiknast af rekstri sjóðsins. Sjóðurinn á engar bifreiðar og reiknast því engin bein losun vegna eigin ökutækja og eldsneytiskaupa.
Óbein losun, sem fellur til undir umfangi 2, reiknast vegna rafmagns- og vatnsnotkunar á skrifstofu. Önnur óbein losun, sem fellur til undir umfangi 3, sýnir losun vegna úrgangs, reiknaðar tölur vegna ferðavenja starfsfólks til og frá vinnu og ferðir á vinnutíma, flugferðir og utanlandsferðir. Tölur vegna úrgangs eru áætlaðar út frá heildarúrgangi og fjölda starfsfólks. Áhersla er lögð á flokkun úrgangs sem fellur til í rekstri LV.
Starfsfólk flokkar og skilar til endurvinnslu raf- og rafeindatækjum sem eru ekki lengur notuð við rekstur. Prentský hefur verið notað til margra ára til að minnka pappírsnotkun og unnið er markvisst að því að uppfæra ferla sem minnka pappírsnotkun. Fylgst er með pappírsnotkun og hún mæld. Pappírsnotkun var vantalin árin 2020 og 2021 þar sem láðist að taka með þann pappír sem notaður er við þjónustu þriðja aðila. Töluverður pappír er notaður til að senda út lífeyrisyfirlit sem sjóðnum er skylt samkvæmt lögum að senda á pappír tvisvar á ári. Einungis um tíundi hver hefur afþakkað að fá slíkt yfirlit á pappír en yfirlit eru aðgengileg á sjóðfélagavef LV. Pappírsnotkun var 366.555 blaðsíður árið 2022 samanborið við 370.050 bls. árið 2021. Minnkandi pappírsnotkun má helst rekja til þess árangurs sem náðst hefur með auknu vægi stafrænna ferla við afgreiðslu erinda hjá sjóðnum.
Við rekstur mötuneytis eru matvæli nýtt vel til að draga úr matarsóun. Starfsfólk skráir sig í mat fyrir hvern dag vikunnar og þannig er leitast við að hafa nákvæmari upplýsingar fyrir matarinnkaupin. Leitast er við að lágmarka úrgang og það sem fellur til endurvinnslu er flokkað.
Förgun úrgangs er sameiginleg með annarri starfsemi í húsinu og útreikningar miðast við hlutfall LV af fjölda starfsmanna. Vegna eðlis starfsemi LV má reikna með að minni úrgangur falli til vegna starfseminnar heldur en t.d. frá verslunum í húsinu. Hins vegar vantar áreiðanlegar tölur svo hægt sé að taka það með í reikninginn. Umfang 3 er því byggt að verulegu leyti á áætluðum tölum.
Terra annast förgun úrgangs og mælingar.
Félagslegir þættir
LV leggur áherslu á að sjóðurinn sé fyrirmyndarvinnustaður, skipaður öflugri liðsheild sem býr yfir góðri þekkingu, reynslu og hæfni. Stefnur og lykilferlar mannauðs eiga að styðja við heilbrigt starfsumhverfi þar sem velferð og öryggi starfsfólks er í fyrirrúmi. Á árinu 2021 voru kynnt leiðarljós nýrrar stefnu sjóðsins til 2030. Þau lúta að áherslum í daglegri starfsemi sjóðsins. Á liðnu ári var áfram unnið að innleiðingu stefnunnar þar sem sérstakar áherslur voru lagðar á starfsþróun og forvarnarstarf.
Fræðsla
Á vordögum 2022 var fræðsluáætlun mótuð út frá þeim þörfum sem starfsfólk tilgreindi í fjórum vinnustofum. Fræðslustarf hófst aftur eftir nokkurt hlé á haustdögum og var þá byggt á niðurstöðum úr vinnustofunum. Áhersla hefur verið lögð á nýliðaþjálfun, fræðslu tengdri fjármálum, góðum samskiptum og málefnum sem snúa að aukinni vellíðan og hafa nokkur námskeið verið sérsniðin að slíku. Fræðslustundirnar voru að mestu byggðar á staðnámi en þó hafa einhver námskeið verið stafræn. Þá hefur starfsfólk einnig sótt fræðslu hjá hinum ýmsum aðilum.
Meginmarkmið fræðsluáætlunar:
- Bæta öryggi í rekstri
- Virkt forvarnarstarf
- Styðja við hlítni við lög og reglur
- Auka þekkingu
- Auka starfsánægju
- Auka færni og hæfni starfsfólks
- Auka öryggi á vinnustað